Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið, Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Uppfærður fríverslunarsamningur við Úkraínu undirritaður í Kyiv

Frank Büchel, sendiherra Liechtenstein í Genf, Cecile Terese Myrseth, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, Yulia Svyrydenko, varaforsætisráðherra og efnahagsráðherra Úkraínu, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, og Jacques Gerber, fulltrúi svissneskra stjórnvalda gagnvart Úkraínu. - myndMinistry of Economy, Ukraine

Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður í Kyiv í dag. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd.

„Þessi samningur er mikilvægt skref í átt að auknum viðskiptum Íslands við Úkraínu og endurspeglar skýran vilja okkar til að styðja við efnahagslega enduruppbyggingu og þróun í landinu,“ segir Logi. „Hann opnar ný tækifæri fyrir íslensk og úkraínsk fyrirtæki, sérstaklega á sviði nýsköpunar, þar sem Ísland hefur mikið að bjóða.“

Viðræður um uppfærslu samningsins hófust árið 2023 og lauk í lok síðasta árs. Ísland leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA ríkjanna sem auk Íslands telja Liechtenstein, Noreg og Sviss. 

Uppfærður samningur kveður á um bætt markaðskjör fyrir vöruviðskipti milli Íslands og Úkraínu. Markaðsaðgangur sem Ísland veitir Úkraínu fyrir landbúnaðarvörur er í samræmi við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert á vettvangi EFTA. Nýmæli í samningnum eru skýrari reglur um vernd hugverka, rafræn viðskipti, lítil- og meðalstór fyrirtæki og sjálfbær viðskipti. Reglur samningsins um vöruviðskipti, opinber innkaup og sem miða að því að liðka fyrir viðskiptum eru uppfærðar til samræmis við nýja tíma og þróun á sviði alþjóðaviðskipta.

Samningurinn undirstrikar áframhaldandi pólítískan og efnahagslegan stuðning Íslands við Úkraínu og trú á opið og reglubundið viðskiptaumhverfi á alþjóðavísu.

Í ferð sinni til Kyiv mun menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra nýta tækifærið og heimsækja starfsstöð stoðtækjafyrirtækisins Össurar og skrifstofur UNESCO - Mennta, -vísinda og menningarstofnun Sameinuðu Þjóðanna í borginni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta