Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Daði Már fundaði með Jens Stoltenberg

Jens Stoltenberg og Daði Már Kristófersson. - mynd

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur í dag og á morgun þátt í ríkisheimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Noregs þar sem hann sækir viðburði í Osló og Þrándheimi. Í dag fundaði Daði Már með Jens Stoltenberg, fjármálaráðherra Noregs.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir meðal annars stöðu alþjóðaefnahagsmála og þá óvissu sem þar ríkir. Fóru ráðherrarnir yfir þá ákvörðun bandarískra stjórnvalda að hækka tolla á innfluttar vörur til Bandaríkjanna. Daði Már sagði að Ísland hefði áhyggjur af áhrifum tolla á íslenskar útflutningsgreinar og að óvissa og minni kaupmáttur alþjóðlega gætu dregið úr eftirspurn. Þá væri það almennt áhyggjuefni, sérstaklega fyrir lítil lönd, ef tæki að grafa undan alþjóðastofnunum og alþjóðakerfinu. Það ætti við á sviði viðskipta og efnahagsmála en einnig á öðrum sviðum, ekki síst í varnarmálum. Ísland og Noregur hafa sameiginlega hagsmuni af opnum og frjálsum viðskiptum og að staðinn sé vörður um alþjóðlegar leikreglur.

Ráðherrarnir ræddu einnig norrænt samstarf, sem væri enn mikilvægara en oftast áður við þær aðstæður sem nú eru. Daði Már sagði að Ísland styðji eindregið nánara samstarf Norðurlandanna á sviði varnarmála.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. 

„Ég átti góðan fund með Jens Stoltenberg. Það er mikilvægt að treysta enn frekar samstarf Íslands og Noregs, tveggja landa þar sem sameiginlegur skilningur og traust er með mesta móti. Mikilvægt er að Ísland og Noregur vinni saman að því að tryggja að viðskipti innan EES-svæðisins verði áfram óheft á grundvelli EES-samningsins en þar fara hagsmunir Íslands og Noregs algjörlega saman.“ 

Þá hélt Daði Már í dag erindi í tengslum við ríkisheimsóknina á norsk-íslensku viðskiptaþingi um sameiginlega hagsmuni þjóðanna í grænni umbreytingu. Á morgun heldur ráðherra til Þrándheims á ráðstefnu um bláa hagkerfið þar sem hann flytur ávarp.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta