Mikilvægur áfangi um úrbætur í öryggisráðstöfunum
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur tekið afgerandi skref um úrbætur í þjónustu og úrræðum fyrir einstaklinga sem sæta þurfa sérstökum öryggisráðstöfunum. Um er að ræða einstaklinga sem geta verið sjálfum sér og öðrum hættulegir en hafa fallið milli þjónustukerfa ríkis og sveitarfélaga. Þessir einstaklingar glíma gjarnan við alvarlegar þroska- og/eða geðraskanir og geta verið ósakhæfir, en einnig sakhæfir sem lokið hafa afplánun og þurfa mikinn stuðning í samfélaginu utan réttarvörslukerfis.
Síðastliðinn föstudag voru tillögur starfshóps sjö ráðuneyta, sem fjallað hefur um úrbætur í málaflokknum, lagðar fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála og samþykkt að vinna að þeim. Þetta eru mikilvæg skref í átt að réttlátara, öruggara og mannréttindamiðaðra kerfi fyrir einstaklinga sem sæta þurfa öryggisráðstöfunum.
Umbæturnar stuðla einnig að auknu öryggi þeirra sem þurfa að sæta öryggisúrræðum, starfsfólks úrræðanna og almennings. Þá munu þær leiða til meiri samhæfingar opinberra kerfa, betri nýtingu fjármuna og tryggari lagastoða fyrir inngripi sem hefur áhrif á líf og frelsi einstaklinga.
Á meðal helstu aðgerða eru:
- Forsætisráðuneytið mun hafa forystu um mótun heildarstefnu verklags og ábyrgðarskiptingu í málaflokknum. Sérstaklega verður unnið að miðlunarheimildum milli ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga.
- Undirbúningur er hafinn í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu við að setja á stofn sérstaka öryggisstofnun sem ætlað er að samþætta félags- og geðheilbrigðisþjónustu við þennan viðkvæma hóp.
- Félags- og húsnæðismálaráðherra mun leggja fram frumvarp um öryggisráðstafanir samkvæmt dómaúrlausn á haustþingi 2025.
- Dómsmálaráðherra mun vinna að frumvarpi um breytingar á VII. kafla almennra hegningarlaga, sem fjallar um öryggisráðstafanir, sem og eftir atvikum fleiri laga sem að málaflokknum lúta.
- Heilbrigðisráðherra mun leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem varða nauðung í heilbrigðisþjónustu.
- Rýmum á öryggisgeðdeild Landspítala verður fjölgað úr 8 í 16 og er unnið að framkvæmdum vegna þess.
Ríkisstjórnin hefur tryggt fjármagn til aðgerðanna í fjármálaáætlun 2026-2030 og hefst vinna í Stjórnarráði Íslands við að hrinda tillögunum í framkvæmd nú þegar. Áhersla verður lögð á samráð við hagaðila við framkvæmd og útfærslu tillagnanna.
„Málefni þessa hóps hafa lengi verið í deiglunni, allt frá síðustu öld, og hefur ekki tekist að ná tilhlýðilega utan um þau,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. „Hér er um að ræða viðkvæman hóp einstaklinga og fjölskyldna þeirra og hefur úrræðaleysi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, sem og mikinn samfélagslegan kostnað.“
„Nú hefur verið lagður traustur grundvöllur að öruggari úrræðum fyrir hóp fólks sem stjórnvöld hafa allt of lengi hunsað. Við stuðlum með þessu að mannúðlegri nálgun, sem dregið getur úr líkum á endurteknum brotum og aukið líkur á farsælli aðlögun þessara einstaklinga að samfélaginu,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.