Starfshópur um eflingu og þróun dagdvala á landsvísu skilar tillögum
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur tekið á móti skýrslu starfshóps um eflingu og þróun dagdvala á landsvísu. Verkefni hópsins var að koma með tillögur um endurskilgreiningu á hlutverki og markmiðum þjónustu dagdvala þannig að úrræðið styddi betur við þarfir fólks sem býr heima. Þá skyldi hópurinn greina og leggja fram gögn um það hver þörfin væri fyrir dagdvalarrými, bæði almenn og sérhæfð – og hver þörfin væri fyrir lengdan og/eða sveigjanlegan opnunartíma dagdvala. Á grunni slíkrar greiningar yrði unnið að gerð samninga um sveigjanlegar dagdvalir um land allt.
Hópnum var einnig ætlað að koma með tillögu að greiðsluþátttöku þeirra sem nýta sér þjónustu dagdvala og gera tillögu að því hvaða matstæki skuli notað til að meta þörf eldra fólks fyrir dagdvöl, meta framvindu og hvernig forgangi skuli háttað. Einnig skyldi hann skoða ferli beiðna, þátt heimaþjónustu í mati og hvernig gera megi ferlið stafrænt. Loks skyldi hópurinn fjalla um nýtt heiti yfir dagdvalir, sem fæli í sér virkni og virkaði hvetjandi fyrir aldraða til að nýta sér þjónustuna.
- Skýrsla: Efling og þróun dagdvalar
Í hópnum sátu:
- Þura B. Hreinsdóttir, fulltrúi Gott að eldast, formaður hópsins
- Stefán Jóhannsson, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands
- Sigurjón Norberg Kjærnested, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
- Hrönn Ljótsdóttir, tilnefnd af Landspítala, félagsráðgjafasviði
- Lilja Petra Ólafsdóttir, tilnefnd af velferðarsviði Reykjavíkurborgar, heimaþjónustu
- Berglind Magnúsdóttir, fulltrúi Gott að eldast
- Elsa B. Friðfinnsdóttir, án tilnefningar
Starfsmaður hópsins var Herdís Björnsdóttir, sérfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og starfsmaður Gott að eldast.
Ein af aðgerðunum í aðgerðaáætluninni Gott að eldast snýst um að efla og þróa dagdvalir.