Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundaði með starfsbræðrum sínum í Noregi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ásamt forsetahjónunum og Masud Gharahkhani forseta norska Stórþingsins.  - myndSkrifstofa forseta Íslands/Myriam Farti og FS Foto

Sameiginlegar áskoranir, öryggismál á norðurslóðum og aukið samstarf á sviði öryggis- og varnarmála var ofarlega á baugi á tvíhliða fundum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra með Tore O. Sandvik varnarmálaráðherra Noregs og Espen Barth Eide utanríkisráðherra, sem fram fóru í Ósló í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Noregs. Ráðherrarnir áréttuðu áframhaldandi og óbilandi stuðning ríkjanna við varnarbaráttu Úkraínu gegn ólöglegu og blóðugu innrásarstríði Rússlands. Þá voru hörmungarnar fyrir botni Miðjarðarhafs sömuleiðis til umræðu og ítrekuðu ráðherrarnir mikilvægi mannúðaraðstoðar og virðingu fyrir alþjóðalögum.

Ísland og Noregur deila ríkri sögu og hefð og eru hagsmunir ríkjanna samofnir á nær öllum sviðum utanríkismála, varna og viðskipta, þ.m.t. á sviði sjávarútvegs og í auknum mæli á sviði fiskeldis. Þá eiga ríkin sameiginlegra hagsmuna að gæta í samskiptum við Evrópusambandið, ekki síst á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samstarf á sviði öryggis- og varnarmála er náið, ekki síst innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, en einnig í gegnum svæðisbundið öryggis- og varnarsamstarf er kemur að Norður-Atlantshafi á vettvangi JEF viðbragðssveitarinnar, norræna varnarsamstarfsins undir hatti NORDEFCO. 

„Ísland og Noregur eiga í afbragðsgóðu og nánu sambandi, enda  vinaríki sem eiga sér sameiginlega sögu frá því fyrir landnám. Þá fara hagsmunir okkar saman á æði mörgum sviðum, ekki síst þegar kemur öryggis- og varnarmálum á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, sem eru nú í brennidepli vegna vaxandi spennu á svæðinu,“ segir Þorgerður Katrín. „Við horfum oft eins á hlutina og mikilvægt á víðsjárverðum tímum að ríkin tvö tali hátt og skýrt fyrir samstöðu innan Atlantshafsbandalagsins og áframhaldandi stuðningi við Úkraínu.“

Í tengslum við heimsóknina fóru fram pallborðsumræður með atvinnulífinu um hvernig Ísland og Noregur gætu aukið samstarf sitt á sviði græna umskipta og orkuskipta. „Það var ánægjulegt að finna fyrir þeim krafti sem býr í atvinnulífinu og sjá hvernig íslensk og norsk fyrirtæki eru á margan hátt í fararbroddi á þessu sviði“, segir Þorgerður Katrín.

Utanríkisráðherra átti auk þess fund með Ine Eriksen Søreide formanni utanríkis- og varnarmálanefndar norska Stórþingsins í Ósló og fylgdi forseta Íslands á fundi með forseta þingsins, Masud Gharahkhani, og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs.

  • Þorgerður Katrín og Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs. - mynd
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ásamt Tore O. Sandvik varnarmálaráðherra Noregs. - mynd
  • Þorgerður Katrín ásamt Ine Eriksen Søreide formanni utanríkis- og varnarmálanefndar norska Stórþingsins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta