Nýrri reglugerð um yfirgjaldsþjónustu ætlað að efla neytendavernd
Drög að nýrri reglugerð um yfirgjaldsþjónustu í almennum fjarskiptanetum hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, en hún mun leysa eldri reglugerð um sama efni af hólmi. Nýju reglugerðinni er ætlað að efla neytendavernd og gera ríkari kröfur um að neytendur séu upplýstir um kostnað við símtöl, einkum í þriggja og fjögurra stafa símanúmer með hærra gjaldi. Frestur til að senda inn umsögn í samráðsgátt er til og með 7. maí nk.
Yfirgjaldsþjónusta er þjónusta þar sem þjónustuveitandi innheimtir gjald, s.s. með upphafsgjaldi og/eða með mínútugjaldi, vegna símtala eða SMS-skilaboða, sem er innheimt í gegnum fjarskiptaþjónustu viðkomandi endanotanda.
Meðal helstu breytinga má nefna að í núgildandi reglugerð fá stutt númer (þriggja og fjögurra stafa) undanþágu frá skyldu til að upplýsa um gjaldtöku eða að neytandi þurfi ekki að samþykkja hana sérstaklega, sem þýðir að neytendur fá hvorki upplýsingar um gjaldtökuna né að þeir þurfi að samþykkja hana. Í drögum að nýrri reglugerð er lagt til að fella niður þessar undanþágur, en að mati ráðuneytisins samrýmast slíkar undanþágur ekki nútímakröfum um vernd neytenda.
Þá er skýrar kveðið á um undanþágu frá hefðbundinni upplýsingaskyldu þegar um er að ræða fjársafnanir sem uppfylla skilyrði laga um um opinberar fjársafnanir (nr. 5/1977) og tryggt er að kostnaði og fyrirkomulagi gjaldtökunnar sé skilmerkilega komið á framfæri með öðrum hætti.