Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra staðfestir aðild Íslands að IPBES

Rjúpa - myndHugi Ólafsson

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest aðild Íslands að IPBES, milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisþjónustu (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services).

IPBES, milliríkjavettvangur um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu, er alþjóðlegur vettvangur sem sameinar vísindamenn og stjórnvöld með það að markmiði að stuðla að betri ákvörðunum varðandi líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu.

IPBES var stofnað árið 2012 og starfar á svipaðan hátt og milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar; IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change). IPBES er einn helsti vettvangur alþjóðlega vísindasamfélagsins til að safna, greina og koma á framfæri grundvallarupplýsingum um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og veita ráðgjöf á því sviði. IPBES vinnur að því að veita stjórnvöldum og öðrum aðilum áreiðanlegar og vísindalega uppbyggðar upplýsingar um ástand náttúruauðlinda og áhrif mannlegra athafna á líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi, ásamt ráðleggingum um hvernig bæta megi þessa stöðu. Fókus IPBES er á líffræðilega fjölbreytni og hvernig við getum verndað náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir lífsgæði okkar og þróun.

Ísland hefur hingað til aðeins verið áheyrnaraðili en með fullri aðild skapast tækifæri til að styrkja framlag Íslands á alþjóðavettvangi og koma íslenskum áherslum betur á dagskrá, m.a. varðandi málefni norðurslóða. Aðildin er liður í því að styðja við líffræðilega fjölbreytni, líkt og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur kveður á um.

„Aðild Íslands að IPBES er mikilvægt framfaraskref í þágu líffræðilegrar fjölbreytni. Með þátttökunni gefst okkur tækifæri til að efla sess líffræðilegrar fjölbreytni í íslenskri stjórnsýslu í krafti baklandsins sem IPBES færir okkur. Virk þátttaka Íslands í alþjóðlegum vísindarannsóknum og dýpra alþjóðasamstarf eru lykillinn að því að hámarka árangur Íslands í þessum efnum.“ 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta