Styrkir veittir til kaupa á nytjahjólum
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að veita sérstaka styrki til kaupa á nytjahjólum (e. cargo bikes) gegnum Loftslags- og orkusjóð. Styrkirnir verða allt að 200.000 kr. eða að hámarki 1/3 af kaupverði hvers hjóls.
Um er að ræða hjól sem eru sérstaklega hönnuð til þess að flytja farm og farþega, eru dýr í innkaupum en geta nýst með sams konar hætti og einkabílar og þannig dregið úr akstri og brennslu jarðefnaeldsneytis.
„Rafbílavæðingin skiptir máli, en til þess að ná alvöru árangri í loftslagsmálum þurfum við ekki síður að ýta undir breyttar ferðavenjur, vistvænni og fjölbreyttari ferðamáta sem gera líka samfélagið okkar skemmtilegra. Stuðningur við kaup á nytjahjólum er liður í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.