Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tillaga ÍL-sjóðs um breytingar á skilmálum HFF bréfa samþykkt af eigendum bréfanna

Þann 10. apríl var haldinn fundur skuldabréfaeigenda ÍL-sjóðs í flokkunum HFF34 og HFF44. Á fundinum var lögð fram tillaga að skilmálabreytingu bréfanna sem heimilar útgefanda að gera bréfin upp með afhendingu tiltekinna eigna. Tillagan er niðurstaða rúmlega eins árs viðræðna ráðgjafa 18 lífeyrissjóða, sem saman fara með meirihluta skulda sjóðsins, og viðræðunefndar fjármála- og efnahagsráðherra.

81,4% eigenda að kröfufjárhæð sem greiddu atkvæði á fundinum um HFF34 flokkinn, samþykktu tillöguna sem telst þá bindandi fyrir alla eigendur til jafns.

81,6% eigenda að kröfufjárhæð sem greiddu atkvæði á fundinum um HFF44 flokkinn, samþykktu tillöguna sem telst þá bindandi fyrir alla eigendur til jafns.

Þann 8. apríl var birt á vef Alþingis frumvarp til fjáraukalaga, þingskjal 367. Verði frumvarpið að lögum hefur fjármála- og efnahagsráðherra nauðsynlegar heimildir Alþingis til að hægt sé að ganga til uppgjörs í samræmi við tillöguna sem er forsenda þess að mögulegt sé að slíta ÍL-sjóði.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að útgefandi tilkynni kröfuhafa með sjö daga fyrirvara að lágmarki ef hann ákveður að nýta heimild til uppgjörs. Þann 14. júní 2025 fellur tillagan úr gildi.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Ég fagna ákvörðun skuldabréfaeigenda, sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir landsins, um að samþykkja þetta tilboð um að ljúka uppgjöri ÍL-sjóðs. Þá vil ég nota tækifærið til þess að hrósa og þakka öllum aðilum málsins fyrir að hafa leyst þetta flókna úrlausnarefni og komast að sameiginlegri niðurstöðu íslensku samfélagi til heilla.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta