Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 11. apríl 2025

Heil og sæl.

Við hefjum yfirferðina á ferð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra til Óslóar í vikunni. Þar fylgdi hún Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og opinberri sendinefnd. Fylgjendur ráðuneytisins á Instagram urðu vafalaust varir við heimsóknina en sendiráð okkar í Ósló tók yfir reikninginn og greindi skilmerkilega frá undirbúningnum og heimsókninni sjálfri.

Í heimsókninni nýtti ráðherrann tækifærið og hitti kollega sína, Espen Barth Eide utanríkisráðherra og Tore O. Sandvik varnarmálaráðherra. Um var að ræða fundi um dýrmætt samstarf landanna og sameiginleg gildi þjóðanna. Þá hitti hún sömuleiðis Ine Eriksen Søride, formann utanríkismálanefndar norska stórþingsins og Masud Gharahkhani, þingforseta. Loks sat hún fund með forseta Íslands og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.

 

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var stödd í Brussel í vikunni. Sótti hún fundi með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og António Costa, forseta leiðtogaráðs ESB. Meginefni fundanna var óvissa í heimsviðskiptum, staða öryggis- og varnarmála Evrópu og málefni EES. Forsætisráðherra heimsótti einnig sendiráðið og hitti starfsfólk þess. Haldin var móttaka í EFTA-húsinu í tilefni heimsóknarinnar þar sem Kristrún hitti og ræddi við starfsfólk EFTA-stofnananna þriggja í Brussel; EFTA-skrifstofunnar, Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og Uppbyggingarsjóðs EES.

  

Þorgerður Katrín gerði bakslag í réttindum hinsegin fólks að umfjöllunarefni í færslu á Facebook. Tilefnið var birting sérstakra ferðaleiðbeininga fyrir hinsegin fólk sem unnar voru í samráði við Samtökin '78.

  

Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður í Kyiv í vikunni. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. Viðræður um uppfærslu samningsins hófust árið 2023 og lauk í lok síðasta árs. Ísland leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna sem auk Íslands telja Liechtenstein, Noreg og Sviss.

  

Í tengslum við mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands hefur utanríkisráðherra skipað samráðshóp þingmanna sem tilnefndir eru af þingflokkum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Hlutverk samráðshópsins er að fjalla um inntak og áherslur öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland. Í hópnum eiga sæti Dagur B. Eggertsson frá Samfylkingunni, Ingibjörg Davíðsdóttir frá Miðflokknum, Pawel Bartoszek frá Viðreisn, Sigurður Helgi Pálmason frá Flokki fólksins, Sigurður Ingi Jóhannsson frá Framsóknarflokknum og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir frá Sjálfstæðisflokknum. Utanríkisráðherra hefur falið Aðalsteini Leifssyni, varaþingmanni Viðreisnar og aðstoðarmanni ráðherra, að leiða starf hópsins.

  

Vetrarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna lauk í síðustu viku en um var að ræða fyrstu fundalotuna sem Ísland tók þátt í sem aðildarríki ráðsins tímabilið 2025 til 2027. Ísland leiddi kjarnahóp fimm ríkja sem lagði fram ályktun um stöðu mannréttinda í Íran. Ályktunin var samþykkt örugglega í atkvæðagreiðslu með stuðningi ríkja þvert á heimsálfur.

  

Vakin var athygli á hvað stuðningur Íslands þýðir fyrir starf Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu, þar sem um 3,6 milljónir einstaklinga eru nú á vergangi og 14,6 milljónir þurfa á mannúðaraðstoð að halda. Meðal þeirra verkefna sem Ísland hefur stutt við í Úkraínu, má nefna sérstaka þjálfun fyrir landamæraverði og fleiri til að auka getu þeirra til að vernda viðkvæma hópa fólks á flótta, m.a. hinsegin fólk.

  

Listasýning Katrínar Elvarsdóttur var opnuð Galleri Käytävä af Harald Aspelund sendiherra og Ásthildi Jónsdóttur, eiginkonu hans, í sendiráðsbústaðnum í Helsinki.

   

Þá tók Harald þátt í hádegisverðarumræðum í Tallinn með sendiherrum með fyrirsvar gagnvart Eistlandi.

  

Hann tók auk þess þátt í hádegisverðarfundi sem breska sendiráðið í Helsinki skipulagði en meðal þeirra sem tóku þátt var Elina Valtonen, utanríkisráðherra Finnlands.

  

Christianshavns Bogfestival fór fram í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Af því tilefni fór fram viðburður á Norðurbryggju þar sem rithöfundarnir Jón Kalman Stefánsson og Sigríður Hagalín Björnsdóttir voru tekin tali, sögðu frá verkum sínum og svöruðu spurningum úr sal. Þótti viðburðurinn einkar vel heppnaður og var fullt út úr dyrum.

  

Grænlenska landsþingið (Inatsisartut) var sett í upphafi viku við hátíðlega athöfn. Venju samkvæmt gengu nýkjörnir þingmenn saman til kirkju og þaðan, að lokinni guðþjónustu, í þinghúsið. Kim Kielsen (S) var kjörinn forseti þingsins og Jens-Frederik Nielsen (D) var formlega staðfestur í embætti formanns grænlensku landsstjórnarinnar (Naalakkersuisut). Þá var einnig samþykkt tillaga formannsins um nýja landsstjórn, sem kynnt var almenningi í lok síðasta mánaðar.

  

Sendiráðið í Nýju Delí vakti athygli á kjarnakonunni Kunzes Dolma sem er sú fyrsta á Indlandi til að hafa hlotið þjálfun í jarðhitafræðum. Hún var á meðal nemenda í Jarðhitaskóla GRÓ árið 2017 og hefur síðan látið til sín taka heima fyrir, með sérfræðikunnáttu og jafnréttisbaráttu að leiðarljósi.

  

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra í París, var sérstakur heiðursgestur á ráðstefnu um konur og alþjóðamál á vegum hins virta franska háskóla SciencePo sem haldin var í Reims í vikunni. Ásamt Unni hélt Aurélie Royet-Gounin, fyrrverandi sendiherra Frakklands í Lettlandi og varaformaður félagsins „Femmes en diplomatie“, erindi og sátu þær báðar fyrir svörum úr sal, en Elisabeth Chaillet-Leforestier, formaður Nordic French Society, SciencePo Alumni, stýrði umræðunum. Þá var stytt útgáfa heimildarmyndarinnar „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist“ eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur og Pamelu Hogan um kvennafrídaginn 1975, sýnd við tilefnið og vakti hún mikla lukku.

  

221. framkvæmdastjórnarfundur UNESCO fer fram í París þessa dagana og stendur yfir frá 2. - 17. apríl. Reglulegir fundir framkvæmdastjórnar fara fram tvisvar á ári og á Ísland sæti í stjórninni þangað til í nóvember 2025. Auðbjörg Halldórsdóttir, fastafulltrúi, flutti ávarp Íslands í upphafi vikunnar þar sem Ísland lagði áherslu á jafnrétti og réttindi kvenna, réttindi hinsegin fólks, málefni hafsins og loftslagsmál. Áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030 og mikilvægi hlutverks UNESCO um aðgengi að menntun á átakasvæðum voru einnig meðal áherslumála Íslands.

Hulda Rós Guðnadóttir opnaði listasýningu í Berlín á dögunum. Þar eru sjálfbærnisjónarmið í öndvegi.

  

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, átti samtal við Michael Kretschmer, forsætisráðherra þýska sambandslandsins Saxlands, ásamt norrænum kollegum.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, tók ásamt norrænum kollegum þátt í verkefninu „Nordic Diplomacy“ í Halifax í Kanada. Þar áttu þeir samtal við atvinnulífið, akademíuna, staðaryfirvöld og fleiri um norræn gildi og hugsanleg tækifæri til samstarfs.

  

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington D.C., var stödd í borginni Nashville í Tennessee í vikunni og tók þar þátt í fjölbreyttri dagskrá. Meðal þess sem hún gerði var að hitta Charles Nelson, heiðurskjörræðismann Íslands í Nashville, Tennessee.

Garðar Forberg, varnarmálafulltrúi sendiráðsins í Washington D.C., tók þátt í NORDEFCO-fundi í Norfolk í vikunni. Friðrik Sigurðsson bryti var í aðalhlutverki á vestnorrænni ferðaþjónustukynningu í sendiráði Íslands í Peking í vikunni. Þangað voru komnir um 200 gestir úr ferðaþjónustunni og frá fjölmiðlum en kynningin var styrkt af fjölda ferðaþjónustufyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækjum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi sem lögðu til sjávarfang sem Friðrik framreiddi af sinni alkunnu snilld í 16 sjávarréttum. Lauk hann móttökunni svo með því að reiða fram sína útgáfu af skyri.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta