Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarviðræðum við Malasíu lokið

Fulltrúar EFTA-ríkjanna og Malasíu á fjarfundi. - myndEFTA

EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa náð samkomulagi um fríverslunarsamning við Malasíu. Fríverslunarsamningurinn opnar tækifæri fyrir aukin viðskipti milli Íslands og Malasíu með niðurfellingu tolla á vörum og auknum tækifærum fyrir þjónustufyrirtæki og fjárfesta. 

„Ég fagna því sérstaklega að tekist hafi að ljúka fríverslunarviðræðum við Malasíu á þessum tímapunkti. Samningar sem þessir leggja ekki aðeins grunn að auknum og frjálsari viðskiptum á milli ríkjanna, þeir eru líka mikilvægt tæki til að skapa traust, fyrirsjáanlegt og reglumiðað alþjóðlegt viðskiptaumhverfi. Það skiptir sköpum fyrir íslenskt hagkerfi sem er bæði opið og útflutningsmiðað að bæta viðskiptakjör á erlendum mörkuðum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. 

Þá segir hún sérstaklega ánægjulegt að á síðustu misserum hafi Íslandi tekist að ljúka samningum við mikilvæg ríki í Suðaustur-Asíu. „Á þessum tímum er nauðsynlegt að ríki taki  höndum saman og styrki alþjóðaviðskiptakerfið. Það er meðal annars hægt að gera með gerð fríverslunarsamninga sem byggja á grundvallarreglum alþjóðaviðskiptakerfisins,“ segir Þorgerður Katrín. 

Samningurinn nær meðal annars til vöru- og þjónustuviðskipta, hugverkaréttinda, upprunareglna, fjárfestinga, opinberra innkaupa og sjálfbærrar þróunar. Þá lýsa samningsaðilar yfir vilja til að auka samstarf sín á milli, meðal annars á sviði orkuskipta og aðgerða í loftslagsmálum. Markaðsaðgangur sem Ísland veitir Malasíu fyrir landbúnaðarvörur er í samræmi við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert á vettvangi EFTA. 

Samningaviðræður við Malasíu hófust árið 2014 og hafa farið fram með hléum síðan þá. Fríverslunarsarsamningurinn tekur gildi þegar hann hefur verið undirritaður og fullgiltur af hálfu samningsríkjanna. Að þessum samningi meðtöldum hafa EFTA-ríkin nú gert 34 fríverslunarsamninga sem ná til 42 ríkja. 

Hægt er að kynna sér nánar efni samningsins á heimasíðu EFTA

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta