Málefni Úkraínu í brennidepli í ferð ráðherra til Brussel
Möguleg fjölþjóðleg stuðningsaðgerð til handa Úkraínu, áframhaldandi varnartengdur stuðningur við varnarbaráttu landsins og samstarf innan sameiginlegu viðbragðssveitarinnar JEF voru til umræðu á fundum varnarmálaráðherra sem fram fóru í Brussel í dag og í gær. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundunum.
Varnarmálaráðherrar um þrjátíu ríkja, sem taka þátt í undirbúningi fyrir mögulega stuðningsaðgerð fyrir Úkraínu komi til vopnahlés, funduðu í gær undir forystu Bretlands og Frakklands.
Þá bauð varnarmálaráðherra Bretlands varnarmálaráðherrum JEF-ríkjanna til fundar þar sem framtíð samstarfsins var til umræðu sem og leiðtogafundur JEF sem haldinn verður í maímánuði.
Sérstakur ríkjahópur til stuðnings vörnum Úkraínu, þar sem fimmtíu ríki eiga sæti undir forystu Bretlands og Þýskalands, fundaði í dag. Hópurinn er meginvettvangur fjölþjóðlegs samráðs um varnartengdan stuðning við Úkraínu,. Þorgerður Katrín kynnti starf bandalags ríkja um sprengjuleit- og eyðingu, sem Ísland og Litáen fara fyrir, og tilkynnti um 600 milljóna króna framlag Íslands til verkefnisins, sem er innan samþykktra fjárheimilda.
„Það er ljóst að Evrópuríki og Kanada hafa tekið sögulegar ákvarðanir um að margfalda framlög til varnarmála og styðja þannig við sameiginlegar varnir og öryggi. Mikill samhugur ríkir um áframhaldandi öflugan stuðning við varnir Úkraínu til að tryggja frið á þeirra forsendum. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Við þurfum að hafa í huga að skipan öryggismála í Evrópu er samofin öryggi Úkraínu og því brýnt að gera þeim kleift að tryggja eigin öryggi og varnir. Allt í þágu friðar og frelsis,” segir Þorgerður Katrín.
Utanríkisráðherra átti einnig fundi með Kaja Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins (ESB) og varaforseta framkvæmdastjórnar sambandsins, og Andrius Kubilius, framkvæmdastjóra ESB fyrir varnarmál. Á fundunum ræddi ráðherra hvernig styrkja má samstarf við ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Þá voru öryggismál á Norðurslóðum einnig í brennidepli.