Samráðshópur þingmanna vegna mótunar öryggis- og varnarstefnu hefur störf
Í tengslum við mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands hefur utanríkisráðherra skipað samráðshóp þingmanna sem tilnefndir eru af þingflokkum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Hlutverk samráðshópsins er að fjalla um inntak og áherslur öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland.
Í hópnum eiga sæti Dagur B. Eggertsson frá Samfylkingunni, Ingibjörg Davíðsdóttir frá Miðflokknum, Pawel Bartoszek frá Viðreisn, Sigurður Helgi Pálmason frá Flokki fólksins, Sigurður Ingi Jóhannsson frá Framsóknarflokknum og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir frá Sjálfstæðisflokknum. Utanríkisráðherra hefur falið Aðalsteini Leifssyni, varaþingmanni Viðreisnar og aðstoðarmanni ráðherra, að leiða starf hópsins.
Samkvæmt 3. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 fer utanríkisráðherra með yfirstjórn varnarmála og ber ábyrgð á mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Slík stefna hefur ekki áður verið sett fram með formlegum hætti. Stefnunni er ætlað að lýsa helstu öryggisáskorunum til lengri og skemmri tíma með áherslu á ytri ógnir af mannavöldum, draga fram markmið Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarsamstarfi, fjalla um nauðsynlegan varnarviðbúnað og getu sem þarf að vera til staðar á Íslandi, auk þess að benda á hugsanlegar umbætur á laga- og stofnanaumgjörð varnarmála.
Utanríkisráðuneytið heldur utan um vinnu við gerð stefnunnar, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og viðeigandi stofnanir. Jafnframt verður óskað álits frá innlendum og erlendum sérfræðingum og samráð haft við utanríkismálanefnd Alþingis, ráðherranefnd um öryggis- og varnarmál og þjóðaröryggisráð. Gert er ráð fyrir að samráðshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 21. maí 2025.