Vel heppnað námskeið um öryggis- og varnarmál
Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins stendur fyrir reglubundnum námskeiðum um öryggis- og varnarmál, í samstarfi við skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu, tvisvar á ári. Fyrra námskeiði ársins lauk á föstudaginn.
Tilgangur námskeiðisins er að efla þekkingu á málaflokknum meðal starfsfólks ráðuneyta, stofnana, háskóla, fyrirtækja og samtaka sem tengjast öryggis- og varnarmálum með einum eða öðrum hætti.
Sérfræðingar utanríkisráðuneytisins veita þátttakendunum fágæta innsýn í störf ráðuneytisins er varða öryggis- og varnarmál, þar sem helstu áherslur stjórnvalda í málaflokknum eru tíundaðar. Þá fer hópurinn venju samkvæmt í skoðunarferð um öryggissvæðið í Keflavík og í heimsókn til embættis ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar.
„Sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að dýpka almenna þekkingu og umræðu um öryggi og varnir okkar Íslendinga. Þessi námskeið hafa gefið góða raun og ég er þess fullviss að þátttakendurnir fara héðan með meiri skilning og aukna innsýn í málaflokkinn,“segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Lokahnykkur námskeiðisins var að þessu sinni þátttaka í árlegri ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins, Alþjóðasamvinna á krossgötum – hvert stefnir Ísland?, sem haldin er í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.