Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2025 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra ætlar að samræma reglur um dvalarleyfi við nágrannaríki

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað starfshóp til að yfirfara reglur um dvalarleyfi á Íslandi. Markmiðið er að fá betri yfirsýn yfir þann hóp sem sækir um útgefið dvalarleyfi á Íslandi, m.a. með hliðsjón af þeim markmiðum sem nefnd eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að gæta skuli samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýsluna hvað þessi mál varðar.  Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögugerð sinni til dómsmálaráðherra 1. júlí 2025. 

„Við höfum allt of litla yfirsýn yfir dvalarleyfismálin. Við verðum að líta til Norðurlandanna í þessum efnum og kanna hvernig best sé að samræma dvalarleyfi við þau. Þetta kerfi hefur að mörgu leyti verið í ólestri undanfarin ár, verið mjög kostnaðarsamt og löngu kominn tími til að yfirfara það. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu og er þess fullviss að hún muni leiða til góðs fyrir land og þjóð,“ segir dómsmálaráðherra. „Það er ánægjulegt að rjúfa þá kyrrstöðu sem hefur verið í þessum málum undanfarin sjö ár.“
Erlendum ríkisborgurum sem hingað flytjast hefur fjölgað ár frá ári og eru ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins engin undantekning. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að sú þróun muni halda áfram.  

Umsóknir um dvalarleyfi á Íslandi tvöfölduðust milli áranna 2020 og 2024, úr 5.559 í 10.234 talsins. Það sama má segja um umsóknir um ríkisborgararétt sem ríflega tvöfölduðust á sama tímabili.  

Markmið er að ná betri yfirsýn yfir þá hópa sem hér sækja um dvalarleyfi, þ.e. þróun á fjölda og samsetningu dvalarleyfishafa sem og hvernig íslensk stjórnsýsla var í stakk búin til þess að takast á við verulega aukningu umsókna undanfarin ár.  

Eins hefur ráðherra hug á að ná betri yfirsýn yfir þær áskoranir sem málaflokkurinn stendur frammi fyrir, bæði með hliðsjón viðkvæmum hópum og hvaða dvalarleyfi teljast sérstaklega útsett fyrir misnotkun og hagnýtingu þeirra einstaklinga sem um þau sækja.

“Við höfum til dæmis ekkert sérstakt dvalarleyfi fyrir mansalsþolendur og ég tel að nauðsynlegt sé að breyta því”, segir Þorbjörg.

Hópinn skipa:

  • Edda Bergsveinsdóttir, formaður, frá dómsmálaráðuneytinu

  • Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur Visku stéttarfélags

  • Þórhildur Ósk Hagalín frá Útlendingastofnun

  • Arnar Sigurður Hauksson, varamaður, frá dómsmálaráðuneytinu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta