Óskað eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar
Dómsmálaráðuneytið óskar eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar fyrir árið 2025.
Viðurkenningin er veitt einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum eða samtökum sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði kynjajafnréttis.
Viðurkenningin er veitt í samræmi við 4. mgr. 24. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og verður afhent á Jafnréttisþingi 2025 sem haldið verður 22. maí nk.
Yfirskrift þingsins að þessu sinni er Mansal; íslenskur veruleiki – áskoranir og leiðir í baráttunni. Óskað er eftir tilnefningum sem lúta að baráttunni gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi.
Tilnefningum skal skila rafrænt eigi síðar en 5. maí 2025 til dómsmálaráðuneytisins á netfangið [email protected]. Efnislína skal vera jafnréttisviðurkenning 2025 og rökstuðningur vegna tilnefningar skal fylgja með.
Sjá nánar um Jafnréttisþingið 2025 hér.