Evrópusambandið hefur viðræður við EFTA-ríkin um heilbrigðisviðbúnað í neyð
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fengið umboð til að hefja samningaviðræður við EFTA-ríkin Ísland, Noreg og Liechtenstein um aðgengi þeirra að mikilvægum lyfjum og lækningatækjum í neyð á grundvelli samninga Evrópusambandsins. Markmiðið er að efla sameiginlegar ráðstafanir þjóða þegar heilbrigðisvá steðjar að og styrkja viðbragðsgetu þeirra við slíkar aðstæður. Þetta skiptir Ísland miklu máli því þessi mikilvægu aðföng falla að mestu utan við gildissvið EES-samningsins. Það var t.d. ástæða þess að gera þurfti sérstakar ráðstafanir til að tryggja Íslandi og hinum EFTA-ríkjunum bóluefni í Covid-19 faraldrinum í gegnum bóluefnasamninga Evrópusambandsins.
Í tilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er haft eftir Hadja Lahbid, framkvæmdastjóra viðbúnaðar og krísustjórnunar að alvarlegar heilbrigðisógnir þekki engin landamæri. Það hafi Covid-19 faraldurinn sýnt og undirstrikað mikilvægi samhæfingar og samstarfs þjóða við slíkar aðstæður. Með sameiginlegum lausnum megi draga úr samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum, styrkja innri markað Evrópuþjóða og bæta viðbragðsgetu þeirra.