Heimili í Síerra Leóne fá aðgang að endurnýjanlegri orku
Samstarfsverkefni um uppbyggingu á endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir heimili í Kambia héraði í Síerra Leóne var hleypt af stokkunum í síðustu viku. Ásamt sendiráði Íslands í Freetown er verkefnið stutt af sendiráði Írlands, Evrópusambandinu og stjórnvöldum í Síerra Leóne.
Markmið verkefnisins, Lite Salone Renewable Energy Access for Rural Households in Kambia, er að „lýsa upp“ heimili í Kambia héraði sem hafa ekki aðgang að raforku í gegnum hefðbundin dreifikerfi. Einungis 26 prósent heimila í Síerra Leóne eru með aðgang að dreifikerfi landssins, en í sveitum er talið að allt að 90 prósent heimila séu ekki tengd við dreifikerfið. Til þess að koma til móts við þennan orkuskort notast íbúar í sveitum landsins við orkugjafa á borð við steinolíu og eldivið sem geta reynst hættulegir, óskilvirkir og skaðlegir bæði náttúrunni og heilsu þeirra sem notast við þá, einkum konum og börnum sem eru útsett fyrir þeim reyk sem myndast við notkun á orkugjöfunum. Skortur á aðgengi að stöðugu rafmagni hefur einnig neikvæð áhrif á námsferil barna þar sem erfitt getur reynst að stunda heimalærdóm að kvöldi til þegar engin ljós eru til staðar, auk þess sem skólar geta ekki boðið upp á viðunandi námsumhverfi fyrir nemendur sína. Rafmagnsskortur hefur einnig mikil áhrif á getu heilbrigðisstofnana til þess að veita íbúum nauðsynlegu þjónustu en skortur á rafmagni dregur einnig úr efnahagslegum tækifærum fyrir íbúa sem leiðir af sér frekari fátækt og hamlar þróun.
Lite Salone verkefnið beitir nýstárlegri nálgun sem gengur undir nafninu energy as a service. Nálgunin felur það í sér að íbúar í Kambia þurfa ekki að leggja út fyrir uppsetningu á sólarsellubúnaði, sem er mjög kostnaðarsamt, heldur greiða þeir mánaðargjald sem veitir aðgang að rafmagnstæknibúnaði, útvarpi og hleðslustöð. Með því að greiða mánaðargjald fá notendur einnig aðgang að reglulegu viðhaldi og viðgerðum frá þjónustuaðila. Fátækustu heimilin í Kambia, um 10-15 prósent þeirra sem verkefnið nær til, sem ekki hafa ráð á að greiða mánaðarlegt gjald fá afhentan einfaldari sólarsellubúnað sér að kostnaðarlausu.
Framkvæmd verkefnisins er í höndum írsku félagasamtakanna Trócaire, í samstarfi við sólarorkufyrirtækið Easy Solar og innlendu félagasamtakanna Kambia District Development and Rehabilitation Organization (KADDRO). Vonast er til þess að góður árangur af verkefninu muni leiða til þess að það verði stækkað og muni ná til allra héraða Síerra Leóne.