Þorri Íslendinga telur hagsæld landsins byggja á alþjóðaviðskiptum
Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga, eða 80 prósent, telur hagsæld Íslands byggja á alþjóðlegum viðskiptum. Þá segja 81 prósent skipta miklu máli að Ísland hafi gott orðspor í alþjóðasamfélaginu og 70 prósent segja að þátttaka Íslands í alþjóðasamvinnu styrki fullveldi landsins. Íslendingar eru sem fyrr afar jákvæðir gagnvart norrænu samstarfi en alls segjast 87 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í því. Þá eru 82,2 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart vestnorrænu samstarfi, það er samstarfi með Færeyjum og Grænlandi. Spurt um mikilvægi þess að Ísland styðji fullveldi og friðhelgi landamæra Konungsríkisins Danmerkur og sjálfsákvörðunarrétt Grænlendinga segja 81,4% það vera mikilvægt en einungis 5,3% segja það lítilvægt.
Þetta er á meðal niðurstaðna í árlegri skoðanakönnun sem Maskína gerir fyrir utanríkisráðuneytið. Þar kemur einnig fram að ansi hátt hlutfall landsmanna segist hafa miklar áhyggjur af þróun alþjóðamála, eða 72 prósent, en það er hækkun um sjö prósentustig á milli ára. Þess má geta að árið 2023 sögðust 56 prósent hafa áhyggjur af þróun alþjóðamála og aukningin því talsverð síðustu tvö ár.
Stuðningur við Úkraínu áfram hár
Líkt og undanfarin ár var sérstaklega spurt um stuðning Íslands við Úkraínu. Þrátt fyrir að meirihluti landsmanna (71%) sé hlynntur því að Ísland styðji við Úkraínu í stríðinu við Rússland fer stuðningurinn minnkandi á milli ára (var 75% 2024 og 82% 2023). Alls segjast 57 prósent hlynnt því að Ísland veiti Úkraínu efnahagslegan stuðning en 29 prósent eru hlynnt því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarlegan stuðning, til dæmis með því að greiða fyrir hergögn, flutning á þeim eða þjálfun hermanna, en 48 prósent eru því andvíg. Stuðningur við mannúðaraðstoð til Úkraínu lækkar einnig örlítið á milli ára og er kominn í 80 prósent samanborið við 86 prósent í fyrra.
Við þetta má bæta að 76 prósent landsmanna eru andvíg því að Ísland eigi í samstarfi við Rússland á alþjóðavettvangi og þegar spurt er með hvaða ríkjum fólk telur að Ísland eigi síst að starfa með á alþjóðavettvangi nefna flest Rússland (73,9%). Þar á eftir eru Bandaríkin (36,8%), Kína (29,9%), Norður-Kórea (33,2%) og Ísrael (32,1%). Aðspurð með hvaða ríkjum fólk telur að Ísland eigi helst samleið með á alþjóðavettvangi nefna flestir sem fyrr Norðurlöndin, Noreg, Danmörku, Svíþjóð og Finnland.
Eins og í fyrra var sérstaklega spurt um afstöðu fólks til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Þannig segjast 49 prósent landsmanna ósammála því að Ísland styðji rétt Ísraels til sjálfsvarnar innan marka alþjóðalaga (var 48% í fyrra) á meðan 25 prósent eru sammála (var 29% í fyrra). Aftur á móti eru 63 prósent sammála því að Ísland styðji við sjálfstæði Palestínu (var 73% í fyrra), þar með talið aðild þeirra að Sameinuðu þjóðunum, en 13 prósent eru ósammála. Spurt hvort Ísland eigi að beita sér fyrir tveggja ríkja lausn á milli Ísraels og Palestínu segjast 50,5% vera sammála en 21,8% ósammála.
Meirihluti landsmanna vill auka framlög til varnarmála
Alls telja 57 prósent að Ísland eigi að auka framlög til varnarmála. Þá eru 66 prósent jákvæð gagnvart aðild að Atlantshafsbandalaginu, sem er smávægileg aukning frá því í fyrra, en á móti eru aðeins 38 prósent jákvæð í garð varnarsamstarfsins við Bandaríkin, sem er talsverð lækkun frá því í fyrra en þá voru 53 prósent jákvæð gagnvart samstarfinu. Um 14 prósent telja að Ísland njóti ekki fullnægjandi herverndar, en sú tala var átta prósent í fyrra.
Að þessu sinni var sérstaklega spurt um afstöðu fólks til fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður Íslands að Evrópusambandinu. Alls sögðust 58,4% hlynnt því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla en 21,9% eru andvíg. Þá sögðust 44,6% hlynnt því að aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu verði teknar upp að nýju en 33,6% eru því andvíg. Þegar spurt er um afstöðu fólks til inngöngu Íslands í Evrópusambandið segjast 36,5% hlynnt inngöngu en 39,8% eru andvíg. Þá segjast 55 prósent jákvæð gagnvart aðild Íslands að EES-samningnum.
Líkt og undanfarin ár mælist stuðningur almennings við þróunarsamvinnu hár hér á landi. Þannig segja 64 prósent mikilvægt að Ísland veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð, sem er lækkun úr 78 prósent frá því í fyrra. Þá segja 52 prósent það vera siðferðislega skyldu Íslands að draga úr fátækt í þróunarríkjum, en í fyrra var sú tala í 63 prósent, og nú eru 18 prósent ósammála þeirri fullyrðingu, sem er aukning um fimm prósent frá því í fyrra.
Könnunin fór fram á netinu dagana 27. mars til 3. apríl 2025. Svarendur voru 981 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá. Allar niðurstöður könnunarinnar má nálgast á eftirfarandi hlekk: www.maskina.is/maelabord/utn-allir/