Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 448/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 448/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060033

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. júní 2017 kærði [...] fyrir hönd sonar síns, [...], fd. [...], ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi fyrst lagt fram umsókn um dvalarleyfi 30. desember 2015 en þeirri umsókn hafi verið synjað með ákvörðun dags. 31. maí 2016. Þann 11. október 2016 hafi kærandi sótt um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Kærandi fór af landinu í desember 2016. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 14. júní 2017. Kærunefnd barst greinargerð frá umboðsmanni kæranda, sem er jafnframt móðir hans, dags. 27. júní 2017, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi sé [...] ríkisborgari [...]. Kærandi eigi móður og systur hér á landi og þá sé hann með ráðningarsamning við fyrirtæki á Íslandi. Kærandi hafi hins vegar aldrei búið á Íslandi, en gögn málsins bendi ekki til annars en að kærandi hafi alla tíð búið í heimalandi sínu. Ef litið væri til dvalarinnar einnar og sér væri því ljóst að kærandi hafi sterkari tengsl við heimaland sitt. Auk framangreindra tengsla við heimaland hafi kærandi jafnframt fjölskyldutengsl í [...] þar sem amma hans og systir búi, ásamt fleiri ættingjum. Hann hafi búið hjá ömmu sinni þegar móðir hans hafi flutt til Íslands árið 2012, en búi nú einn þar sem hann þurfi að vinna fyrir sér að sögn móður hans. Það að kærandi ætti fjölskyldutengsl í heimalandi var talið vega sterkt í þessu tilliti. Öll félagslegu tengsl kæranda væru jafnframt í heimaríki en þar hafi hann stundað nám og starfi nú. Atvinnuboði kæranda hér á landi yrði ekki jafnað til þessa. Útlendingastofnun lagði mat á það hvort umönnunarsjónamið væru til staðar í máli kæranda en komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Kærandi var ekki talinn hafa sérstök tengsl við landið þannig að það réttlæti veitingu dvalarleyfis á grundvelli undanþáguákvæðis 78. gr. laga um útlendinga. Þá var að lokum sérstaklega tekið fram í hinni kærðu ákvörðun að stofnunin teldi kæranda ekki vera í sérstakri hættu vegna ástandsins í heimalandi hans.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í bréfi frá móður kæranda kemur fram að samband þeirra mæðgina sé einstaklega náið. Kærandi hafi fjárhagslegan stuðning frá móður sinni, engum öðrum. Hann hafi misst atvinnu sína í heimalandi síðasta haust og hafi því alfarið verið á framfæri móður sinnar síðan þá. Honum hafi reynst ómögulegt að fá nýtt starf. Amma hans, sem [...], og frænka búi í töluverðri fjarlægð frá honum auk þess sem þær hafi ekki húsakost til að hýsa hann. Þar með hafi hann engan til að reiða sig á nema móður sína. Kærandi hafi sterk tengsl við Ísland, bæði séu tengsl hans við fjölskyldumeðlimi sína hér á landi mjög sterk, en hér búi móðir hans, stjúpfaðir, yngri systir og ættingjar stjúpföður hans sem hann eigi í góðum tengslum við. Þá hafi hann þrátt fyrir skamma dvöl hér á landi myndað sterk tengsl við land og þjóð, m.a. þegar hann hafi ferðast um landið. Móðir kæranda óttist að hann gæti orðið fórnarlamb ótryggra aðstæðna á [...], og séu enn meiri líkur á því að hann geti ekki borið brigður á það í ljósi þess að kærandi sé einstæðingur án atvinnu og félagslegs nets. Þá séu aðstæður á [...]. Það yrði því til bóta fyrir alla hlutaðeigandi aðila ef hann fengi að búa hér á landi með móður sinni og vinna fyrir sér. Þá standi honum til boða atvinna hér á landi. Móðir hans telji að hann muni standa sig vel í starfi, hann myndi borga til samfélagsins í formi skatta og annarra gjalda og verða fyrirmyndar þjóðfélagsþegn.

Móðir kæranda biðji stjórnvöld einlæglega um að hleypa kæranda til fjölskyldu sinnar, þar sem hann eigi heima, og vísi hún því til stuðnings í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þar sem fjölskyldulíf kæranda njóti tilhlýðilegrar verndar og verði það einungis gert með því að leyfa honum að sameinast fjölskyldu sinni á Íslandi, enda sé honum í raun ómögulegt að viðhalda fjölskyldutengslum ytra.

Þá byggi kærandi á því að umönnunartengsl beri að vega þungt við mat á máli hans, hann sé í reynd einstæðingur ytra, án atvinnu og með takmörkuð félagsleg tengsl þar sem öll nánasta fjölskylda hans sé búsett hér á landi eða svo fjarri kæranda landfræðilega að hann geti í engu átt í eðlilegum fjölskyldutengslum við þá fjölskyldumeðlimi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi.

Í reglugerð um útlendinga nr. 54/2017 er fjallað um mat á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Útlendingastofnun er heimilt að gefa út dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Útgáfa slíks dvalarleyfis er heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfa að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er [...] einhleypur karlmaður, er búsettur og uppalinn á [...]. Kærandi hefur aldrei búið hérlendis og hefur ekki haft dvalarleyfi á Íslandi. Þá liggur fyrir að hann lauk skólagöngu sinni á [...]. Hann hefur sótt um dvalarleyfi á grundvelli atvinnu hér á landi en var synjað 31. maí 2016. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann óski eftir því að fá dvalarleyfi á Íslandi svo hann geti unnið og búið með fjölskyldu sinni. Móðir hans hefur búið hér á landi frá árinu 2012 og er með ótímabundinn rétt til dvalar fyrir maka EES borgara. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá móður sinni. Aftur á móti liggja ekki fyrir gögn sem benda til þess að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla mæli með veitingu dvalarleyfis.

Það er mat kærunefndar, þegar málsatvik eru virt heildstætt, að aðstæður hans séu ekki þess eðlis að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1 og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Er þá einkum horft til þess að kærandi er ekki lengur barn, hann er vinnufær og hefur verið búsettur á [...] alla sína ævi. Þar á hann enn ættingja; ömmu, eldri systur og móðursystur. Rík umönnunarsjónarmið eru ekki til staðar né aðrar ástæður sem myndu leiða til þess að bersýnilega ósanngjarnt yrði að veita kæranda ekki dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                  Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta