Ráðstefna um snemmtæka íhlutun í málefnum barna 8. maí
Velferðarráðuneytið boðar til til opinnar ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna 8. maí næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica kl. 9.00 – 16:00 . Meðal fyrirlesara eru norsku sérfræðingarnir Terje Ogden og Svanhild Vik en Norðmenn standa í fremstu röð í þessum efnum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segist binda vonir við að ráðstefnan verði mikilvæg hvatning við upphaf þeirrar vinnu sem stjórnvöld hafa boðað um aukna áherslu á málefni barna og fjölskyldna með tímalega, samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir að leiðarljósi.
Ásmundur segir áhersluna á snemmtæka íhlutun fela í sér að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og að liðsinni sé veitt áður en vandinn ágerist með skaðlegum og óafturkræfum afleiðingum: „Forsendur slíkrar snemmtækrar íhlutunar eru að stofnanir samfélagsins sem koma að málefnum barna leggi sig fram við að brjóta niður múra milli málaflokka, stjórnsýslustiga og stofnana og tryggja þverfaglega nálgun og samstarf allra sem bera ábyrgð gagnvart börnum“ segir ráðherra.
Hver er staðan - hvað þarf að bæta?
Á ráðstefnunni verður varpað ljósi á stöðuna í dag og hvað þurfi að bæta. Fjallað verður um hvernig mismunandi aðilar s.s. foreldrar, skólinn, heilbrigðisþjónustan og félagsþjónustan þurfa að vinna saman svo árangur náist. Sjónarmið koma fram frá notendum þjónustu, börnum, frjálsum félagasamtökum, fagfólki og fræðimönnum.
Terje Ogden og Svanhild Vik, norskir sérfræðingar á þessu sviði, munu varpa ljósi á hvaða aðferðum Norðmenn hafa beitt, en þeir hafa staðið í fremstu röð þegar kemur að snemmtækri íhlutun og innleiðingu gagnreyndra aðferða í því samhengi.
Terje Ogden hefur yfirsýn yfir þá þróun sem orðið hefur á sviði snemmtækrar í hlutun í málefnum barna í Noregi á síðustu tveimur áratugum og mun gera grein fyrir henni. Einnig mun hann fjalla um þær aðferðir sem hafa reynst Norðmönnum hvað best á síðustu árum til að grípa inn í vanda barns á fyrstu stigum.
Fjölskyldusamráð sem aðferðafræði
Svanhild Vik stýrir innleiðingu „Fjölskyldusamráðs” (Family Group Conference), aðferðar sem beita má í ólíkum aðstæðum á vettvangi félagsþjónustu, barnaverndar, skóla og heilsugæslu og miðar að því að vinna bug á áhættuhegðun, ósætti, vanrækslu, ofbeldi ofrv. með því að virkja fjölskyldu og nærsamfélag. Aðferðin hefur reynst vel í fjölmörgum ríkjum þar sem hún hefur verið reynd af stofnunum ríkis og sveitarfélaga.
Á ráðstefnunni verður einnig vinnufundur allra þátttakenda þar sem m.a. verður leitað svara við spurningunni um hvernig við getum bætt snemmtæka íhlutun í málefnum barna á Íslandi og hvernig stjórnvöld ættu að forgangsraða aðgerðum.
- Dagskrá ráðstefnunnar verður birt á næstu dögum.
- Streymt verður frá ráðstefnunni. Á Akureyri verður streymt á skjá í salnum Hömrum í Hofi.
- Hægt er að skrá þátttöku á www.radstefna.is meðan húsrúm leyfir.
- Aðgangur að ráðstefnunni er öllum opinn og ókeypis.