Nr. 341/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 8. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 341/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23020067
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 22. febrúar 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Gambíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði staðfest þess efnis að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 26. mars 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, 3. apríl 2021, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Hinn 13. apríl 2021 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 26. apríl 2021, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 29. júní 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Hinn 20. júlí 2021 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði nr. 509/2021 staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. Með úrskurði kærunefndar uppkveðnum 17. nóvember 2021 var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað.
Hinn 2. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 166/2022, dags. 13. apríl 2022, synjaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Hinn 22. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju. Með úrskurði nr. 184/2022, dags. 4. maí 2022, féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku málsins og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar þar sem ábyrgð Ítalíu á umsókn hans um alþjóðlega vernd var fallin niður, sbr. 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 30. maí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kæranda var hins vegar veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd kærð til kærunefndar útlendingamála 22. febrúar 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 7. mars 2023.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna ættingja sinna frá Senegal. Þá óttist kærandi vandamál tengd trúarbrögðum og ættbálkahyggju í heimaríki.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kæranda var hins vegar veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé fæddur í Farafenni í Gambíu og hafi alist upp í bænum [..] til 10 ára aldurs. Hafi faðir kæranda dáið þegar kærandi hafi verið fimm ára og móðir hans fallið frá þegar hann hafi verið 10 ára. Eftir andlát móður kæranda hafi systir kæranda ákveðið að hún og kærandi færu til ættingja þeirra í Senegal. Hafi ættingjar þeirra í Senegal ekki reynst þeim vel og reynt að fá þau til að taka upp múslímska trú með ofbeldi. Hafi ættingjar kæranda litið á hann og systur hans sem annars flokks þar sem þau væru trúleysingjar. Þegar ættingjar þeirra hafi tekið upp á að binda þau niður og brenna með málmstykki hafi þau ákveðið að flýja. Kærandi beri ör á kvið sínum eftir meðferð ættingja sinna. Kærandi og systir hans hafi flúið til Malí en fólk á vegum ættingja þeirra hafi fundið þau eftir nokkra mánuði. Hafi fólkið beitt þau ofbeldi en kærandi og systir hans náð að flýja til Níger þar sem þau hafi verið einn dag og farið svo til Líbíu þar sem þau hafi verið í eitt ár. Eftir árás vígamanna á svæðið þar sem þau dvöldu á í Líbíu hafi kærandi orðið viðskila við systur sína. Kærandi hafi í kjölfarið farið einsamall um borð í bát sem hafi flutt hann til Ítalíu. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann vilji ekki snúa aftur til heimaríkis vegna ættingja sinna í Senegal. Þá hafi hann einnig greint frá því að óttast vandamál tengd ættbálkahyggju og trúarbrögðum í heimaríki en kærandi tilheyri minnihlutahópi sem trúleysingi og hafi áður þurft að sæta líkamsmeiðingum vegna trúleysis síns. Þá eigi kærandi ekkert heimili í heimaríki og hafi enga tengingu við fólk þar. Þá búi kærandi ekki yfir öflugri tungumálakunnáttu í heimaríki þar sem hann hafi farið þaðan þegar hann var 10 ára.
Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því að hann óttist trúarlegar ofsóknir í heimaríki sem yfirvöld þar í landi geti ekki veitt honum vernd gegn. Kærandi hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu ættingja sinna og telur hann að ekki sé ólíklegt að slíkt muni gerast aftur snúi hann aftur til heimaríkis. Kærandi vísar til þess að heimaríki hans, Gambía, sé afar smátt land innan landamæra Senegal og yrði því ekki erfitt fyrir ættingja hans að hafa upp á honum. Þá telur kærandi að ljóst sé af heimildum um aðstæður í heimaríki að trúfrelsi þar í landi sé takmarkað og virðist vilji þarlendra stjórnvalda til að vernda trúleysingja eða einstaklinga af annarri trú en Íslam vera takmarkaður.
Þá byggir kærandi varakröfu sína um viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta meðferð í heimaríki sem brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telur kærandi að ljóst sé að ástand í Gambíu sé afar slæmt og falli meirihluti íbúa undir fátæktarmörk og hafi fæðuóöryggi þar í landi farið stigvaxandi. Þá sé einnig hætta á pólitískum óstöðugleika og óeirðum þar í landi í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu þar sem Úkraína framleiði korn fyrir um þriðjung alls brauðs í heiminum og 90% af nauðsynjavöru í Gambíu séu innfluttar. Kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem ungur maður með afar takmarkaða starfsreynslu, tungumálakunnáttu og langa sögu um atvinnuleysi. Kærandi hafi ekkert bakland í heimaríki og enga tengingu við neinn þar. Þá hafi kærandi greint frá því að hann geti ekki treyst á félagsleg úrræði í heimaríki og kæmi því til með að lifa á vergangi þar. Kærandi telur að hætta sé á að honum verði fljótt stungið í fangelsi nema hann verði fyrst fórnarlamb tilviljunarkenndrar aftöku sem heimilislaus og efnalaus maður á vergangi í heimaríki. Með hliðsjón af slæmu ástandi í heimaríki og persónulegra aðstæðna kæranda telur hann sig eiga rétt á viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun um að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, verði staðfest en ljóst sé að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir meira en 22 mánuðum síðan. Kærandi telur að hann uppfylli öll skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli.
Í greinargerð til kærunefndar eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Meðal annars gerir kærandi athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á ástandi mannréttindamála í Gambíu. Kærandi telur ljóst að mannréttindabrot eigi sér ennþá stað í miklum mæli í Gambíu og sé refsileysi og skortur á fullnustu refsinga vegna mannréttindabrota enn mikið vandamál þar í landi. Þá mótmælir kærandi mati Útlendingastofnunar þess efnis að samband múslíma og kristinna sé að öllu jöfnu friðsamlegt í Gambíu. Kærandi telur að heimildir um heimaríki hans sýni fram á að það ríki í raun ekki trúfrelsi þar og að margir múslímar fyrirlíti þá sem kjósi að trúa ekki á neitt. Þá gerir kærandi athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar og telur það hafa vera háð annmarka sem hafi áhrif á mat á því hvort aðstæður hans eigi undir 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir athugasemdir við að Útlendingastofnun hafi, þrátt fyrir að draga ekki í efa frásögn kæranda um ofbeldi af hálfu ættingja hans, ekki lagt til grundvallar að honum stafaði ennþá hætta af ættingjum sínum. Kærandi telur að frásögn hans um ofbeldi sem hann hafi sætt af hálfu ættingja sinna og fólks á þeirra vegum hafi verið samræmd og hafi ekkert gefið til kynna að hún væri ótrúverðug. Þá ítrekar kærandi að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. febrúar 2021 að hann ætti auðveldast með að tjá sig á ítölsku en ekki ensku. Jafnframt telur kærandi að efnismeðferðarviðtal við hann hafi verið afar knappt og skort hafi á frjálsa frásögn hans um málsatvik. Að mati kæranda hefði Útlendingastofnun átt að spyrja kæranda nánar út í þau atvik sem stofnunin hafi talið ótrúverðug. Kærandi vísar til þess að í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar beri stjórnvöldum að túlka vafa umsækjanda um alþjóðlega vernd honum í hag sé frásögn hans trúverðug og eigi hún sér stoð í hlutlægum gögnum um heimaríki hans. Að mati kæranda sé ljóst að hann hafi greint á trúverðugan hátt frá ofbeldi af hálfu ættingja sinna og fólks á þeirra vegum og líklegt sé að slíkt gerist aftur snúi hann aftur til heimaríkis. Sú frásögn eigi sér stoð í hlutlægum gögnum um heimaríki hans og stöðu trúmála þar í landi. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar varðandi atvik máls hans hafi ekki verið fullnægjandi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað gambísku vegabréfi nr. PC584781, með gildistíma frá 6. júní 2018 til 6. júní 2023. Þá hafi kærandi lagt fram ítalskt dvalarleyfiskort með gildistíma frá 9. júlí 2020 til 4. júlí 2022 ásamt ítölsku kennivottorði með gildistíma til 18. nóvember 2022. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi sé gambískur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Gambíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2022 Report on International Religious Freedom – The Gambia (U.S. Department of State, 15. maí 2023);
- 2022 Country Report on Human Rights Practices – The Gambia (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
- Amnesty International Report 2022/2023 – Gambia (Amnesty International, 27. mars 2023);
- Freedom in the World 2022 – The Gambia (Freedom House, 24. febrúar 2022);
- Stjórnarskrá Gambíu (http://hrlibrary.umn.edu/research/gambia-constitution.pdf;
- World Directory of Minorities and Indigenous People – Gambia (Minority Rights Group International, uppfært maí 2020) og
- The World Factbook. Africa: The Gambia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 21. desember 2021);
Gambía er lýðveldi í Vestur-Afríku með rúmlega 2,4 milljónir íbúa. Hinn 21. september 1965 gerðist Gambía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978 og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ári síðar. Gambía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2018 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983.
Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 kemur fram að helstu mannréttindavandamál í Gambíu snúi meðal annars að pyntingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu af hálfu eða fyrir hönd stjórnvalda; erfiðar og lífshættulegar fangelsisaðstæður; skortur á rannsókn og ábyrgð á kynbundnu ofbeldi, þar með talið heimilisofbeldi og makaofbeldi, kynferðisofbeldi, nauðungarhjónaböndum og umskurði/skurði á kynfærum kvenna. Þá megi lögum samkvæmt refsa fyrir kynferðislega hegðun samkynhneigðra með samþykki milli fullorðinna, þótt þeim sé sjaldan framfylgt.
Þá kemur fram að Gambíuher aðstoði borgaraleg yfirvöld í neyðartilvikum og veiti náttúruhamfarahjálp og heyri undir varnarmálaráðherra. Lögreglan í Gambíu haldi uppi innra öryggi og heyri undir innanríkisráðuneytið. Hafi borgaraleg yfirvöld haldið virku eftirliti yfir öryggissveitum landsins. Einnig kemur fram að ríkisstjórnin hafi gert ráðstafanir til að rannsaka og saksækja brot embættismanna en engu að síður sé refsileysi og skortur á fullnustu refsinga enn vandamál. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur jafnframt fram að stjórnarskrá Gambíu tryggi sjálfstæði dómsvaldsins. Réttur til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar fyrir dómi sé tryggður samkvæmt lögum landsins og þeir sem séu bornir sökum um refsiverða háttsemi séu taldir saklausir þar til sekt þeirra hafi verið sönnuð. Lögin geri ráð fyrir málsmeðferð innan hæfilegs tíma en vegna mikils fjölda uppsafnaðra mála hafi málsmeðferðartíminn lengst. Sakborningar njóti ýmissa réttinda, t.a.m. eigi þeir rétt á að vera viðstaddir réttarhöld sín, rétt á aðstoð lögmanns og rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð við tilteknar aðstæður. Venjuréttur og Sharía-lög séu viðurkennd í Gambíu og beitt á ákveðnum sviðum. Hægt sé að fara með einkaréttarmál og mál er varða mannréttindi fyrir Hæstarétt en einstaklingar geti einnig leitað réttarúrræðis hjá embætti umboðsmanns.
Í skýrslu Amnesty International fyrir árið 2022 kemur fram að í maí það ár hafi ríkisstjórnin birt hvítbók og samþykkti 263 tilmæli af 265 tilmælum svonefndrar sannleiks-, sátta- og skaðabótanefndar (e. the Truth, Reconciliation and Reparaations Commission), þar á meðal tilmæli um tímabundinn brottrekstur embættismanna sem hafi verið sakaðir um mannréttindabrot í skýrslu skaðabótanefndarinnar og jafnframt tilmæli um saksókn gegn fyrrverandi forseta landsins Yahya Jammeh. Í júní hafi ríkislögmaður landsins og dómsmálaráðherra upplýst að ríkisstjórnin hefði ekki nægt fjármagn til að hefja framkvæmd tilmæla skaðabótanefndarinnar árið 2022. Þá kemur fram að í nóvember 2022 hafi dómsmálaráðherra landsins sagt að ríkisstjórnin hefði hafið viðræður við Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja (e. the Economic Community of West African States) um að koma á fót gerðardómstóli til að saksækja einstaklinga fyrir glæpi sem framdir hefðu verið undir stjórn fyrrverandi forseta landsins, Yahya Jammeh.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 um trúfrelsi í Gambíu kemur fram að stjórnarskrá landsins kveði á um trúfrelsi svo framarlega sem það bitni ekki á réttindum annarra eða þjóðarhagsmunum. Stjórnarskráin banni trúarlega mismunun, stofnun ríkistrúarbragða og stofnun stjórnmálaflokka á grundvelli trúarbragða. Þá kemur fram að um það bil 96,4% þjóðarinnar séu múslímar, þar af flestir súnní-múslímar, og sé um það bil 3,5% þjóðarinnar kristinnar trúar, flestir kaþólskrar trúar. Í hegningarlögum landsins sé bannað að móðga trúarbrögð, trufla trúarsamkomur og að mæla orð í þeim tilgangi að særa trúartilfinningar. Lög landsins geri ekki ráð fyrir að opinberir skólar eða einkaskólar taki trúarbragðakennslu inn í námskrá sína. Ríkisstjórnin útvegi, í gegnum ráðuneyti grunn- og framhaldsskóla, trúarbragðafræðslukennara til opinberra skóla til að kenna akademísk námskeið um helstu trúarbrögð heimsins. Fram kemur að æðsta íslamska ráðið (e. the Supreme Islamic Council), sem sé trúarleg stofnun sem hafi það hlutverk að veita íslamska trúarleiðsögn, hafi haldið áfram að fullyrða að minnihlutahópur Ahmadiyya múslimar tilheyri ekki íslam og haldið áfram að útiloka meðlimi Ahmadiyya samfélagsins frá atburðum ráðsins og að banna greftrun þeirra í múslimskum kirkjugörðum. Af framangreindum skýrslum um aðstæður í Gambíu verður að öðru leyti ekki séð að kristnir eða aðrir minnihlutahópar á grundvelli trúarbragða sæti ofbeldi eða mismunun í landinu. Þá kemur fram að eins og árið áður hafi forseti landsins, Adama Barrow, haldið sjónvarpsræður á helstu trúarhátíðum íslams og kristinna manna þar sem hann hafi lagt áherslu á skuldbindingu stjórnar sinnar til að efla trúarlegt umburðarlyndi.
Á vefsíðu Minority Rights Group International kemur fram að 34% af gambísku þjóðinni séu af Mandinka þjóðarbrotinu, 22,4% tilheyri Fulani/Fula þjóðarbrotinu og 12,6% tilheyri Wolof þjóðarbrotinu. Önnur þjóðarbrot séu meðal annars Jola/Karoninka, Serahuleh, Serer, Manjago, Bambara og Creole. Fram kemur að fyrrverandi forseti Gambíu, Yahya Jammeh, sem hafi verið af Jola þjóðarbrotinu hafi árið 2016, vegna vaxandi andófs í landinu, kalla meðlimi Mandinka þjóðarbrotsins óvini og útlendinga og hótað að drepa þá einn af öðrum. Hafi Sameinuðu þjóðirnar fordæmt yfirlýsingar hans. Valdatíð Jammeh lauk í desember 2016. Þá kemur fram að í ágúst 2017 hafi hópur Jola hermanna verið handtekinn og síðan leystur frá störfum. Hafi ríkisstjórn landsins sagt að þetta hefði ekkert með þjóðerni að gera heldur væri það tilraun til að losa herinn við einstaklinga hliðholla Jammeh. Hafi gagnrýnendur viðurkennt að aðgerðirnar gætu hafa verið nauðsynlegar í ljósi hlutverks hersins í mannréttindabrotum undir fyrri ríkisstjórn, en að ferlið þyrfti að vera gagnsærra. Í framangreindri mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 kemur fram að gambísk lög banni mismunun á grundvelli kynþátta- og þjóðernis. Þá sé pólitískum frambjóðendum bannað að kynda undir ættbálka- eða þjóðernisspennu. Hafi eftirfylgni með þessum lögum verið góð hjá ríkisstjórn landsins.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að sé í hættu í heimaríki sínu vegna trúleysis hans og ættbálkahyggju í heimaríki. Kærandi hafi flúið heimaríki sitt þegar hann hafi verið 10 ára og hafi farið til ættingja sinna í Senegal. Ættingjar kæranda hafi beitt kæranda og systur hans ofbeldi í því skyni að fá þau til að gerast múslímar. Kærandi telur að ættingjar hans muni hafa upp á honum í heimaríki.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hefði lagt fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna til stuðnings málsástæðu um ofbeldi af hálfu ættingja sinna í Senegal. Í komunótunni komi fram að kærandi hefði sýnt hjúkrunarfræðingi brunaör á neðanverðum kvið sínum. Í ljósi þess taldi Útlendingastofnun ekki ástæðu til að efast um að kærandi hefði orðið fyrir því ofbeldi sem hann hafi greint frá. Þá taldi Útlendingastofnun ekki ástæðu til að efast um að kærandi væri trúlaus. Hins vegar yrði ekki séð hvaða hagsmuni ættingjar hans í Senegal hafi haft af því að sækja kæranda til Malí og koma honum aftur til Senegal. Þá yrði ekki séð hvernig ótilgreint fólk hefði fengist til að elta kæranda milli landa og hafi tekist að finna hann í Malí. Útlendingastofnun lagði til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi væri trúlaus einstaklingur sem hefði verið beittur ofbeldi sem barn af ættingjum sínum í Senegal þegar hann hafi búið hjá þeim á árunum 2010 til 2013. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að rannsókn stofnunarinnar hefði ekki leitt í ljós að staða trúlausra í Gambíu væri verri en staða annarra trúarlegra minnihluta þar í landi og þá hefði kærandi ekki lagt neitt fram sem sýndi fram á að staða trúlausra þar í landi væri með þeim hætti að hann ætti á hættu að sæta ofsóknum á grundvelli trúleysis sín. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ekki yrði talið að kæranda stafaði hætta af ættingjum sínum í Senegal og að hann hefði ekki sýnt fram á að stjórnvöld í Gambíu gætu ekki eða vildu ekki veita honum vernd.
Líkt og að framan er rakið dró Útlendingastofnun ekki í efa að kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu ættingja sinna á meðan hann hafi búið hjá þeim í Senegal á árunum 2010 til 2013. Kærunefnd telur ekki tilefni til að breyta mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu ættingja sinna í Senegal á meðan hann hafi búið hjá þeim.
Við komu til landsins lagði kærandi fram gambískt vegabréf sitt þar sem fram kemur að hann sé fæddur 18. nóvember árið 2000. Samkvæmt frásögn kæranda hafi hann flúið frá ættingjum sínum í Senegal árið 2013 þegar hann hafi verið 13 ára að aldri. Kærandi hefur engin gögn lagt fram um samskipti við ættingja sína eða lagt fram gögn er renna stoðum undir að þau leiti hans enn í þeim tilgangi að neyða hann til að taka upp múslímska trú. Samkvæmt framangreindu eru um það bil 10 ár síðan kærandi var síðast í Senegal. Þá hefur kærandi ekki lagt fram haldbærar skýringar á því hví ættingjar hans í Senegal ættu að elta hann uppi eftir 10 ára aðskilnað og þvinga hann til að gerast múslími.
Kærandi hefur borið fyrir sig að vera í hættu í heimaríki þar sem hann sé trúlaus og þá eigi hann engan þar að. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. apríl 2021 greindi kærandi frá því að eiga systur sem heiti [...]. Kærandi kvaðst ekki vita hvort hún væri á lífi en hann hafi síðast séð hana þegar hann hafi verið 14 ára. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 30. maí 2022 greindi kærandi frá því að hann og systir hans hafi orðið viðskila í Líbýu. Kærandi kvaðst ekki eiga fjölskyldu eða vini í heimaríki sínu, Gambíu. Í greinargerð kæranda sem lögð var fram til kærunefndar 7. mars 2023 var ítrekað að kærandi ætti ekkert bakland í heimaríki og hefði enga tengingu við neinn þar.
Við meðferð málsins hjá kærunefnd fann nefndin tvo Facebook reikninga í eigu kæranda. Annan undir nafninu [...] og hinn undir nafninu [...]. Á síðarnefnda reikningnum mátti sjá stöðufærslu frá 1. janúar 2022 með ljósmynd af kæranda fyrir framan Hallgrímskirkju. Undir færsluna skrifaði einstaklingur að nafninu [...] og svaraði kærandi þeirri athugasemd. Við skoðun á Facebook reikningi umræddrar [...] mátti sjá að hún væri skráð til heimilis í Banjul í Gambíu. Þá mátti sjá fleiri einstaklinga með eftirnafninu [...], með skráða búsetu í Farafenni eða Banjul í Gambíu, sem höfðu „líkað“ við færslur á reikningi kæranda undir nafninu [...]. Þar sem framangreind samskipti kæranda og [...] og annarra einstaklinga í heimaríki hans með eftirnafninu [...] samræmdust ekki frásögn hans um að eiga enga fjölskyldu eða aðra að í heimaríki gaf kærunefnd kæranda færi á að leggja fram athugasemdir vegna þessa. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Því er að mati kærunefndar ekki hægt að útiloka að kærandi eigi systur og aðra ættingja í heimaríki þrátt fyrir frásögn hans.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Gambíu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.
Kærandi hefur borið fyrir sig að vera í hættu í heimaríki vegna þess að hann sé trúlaus. Líkt og að framan er rakið kveður stjórnarskrá Gambíu á um trúfrelsi svo framarlega sem það bitni ekki á réttindum annarra eða þjóðarhagsmunum. Þá banni stjórnarskráin trúarlega mismunun, stofnun ríkistrúarbragða og stofnun stjórnmálaflokka á grundvelli trúarbragða auk þess sem hún banni stjórnmálaflokka sem stofnaðir séu á grundvelli trúarbragða. Ekkert í heimildum um aðstæður í Gambíu sem kærunefnd hefur skoðað við meðferð málsins, svo sem í skýrslu bandaríska utanríkisráðsins um trúfrelsi þar í landi, gefur til kynna að trúlausir einstaklingar þar verði fyrir mismunun eða kerfisbundnum ofsóknum, svo sem af hálfu múslímska samfélagsins. Þá hefur kærandi ekki vísað til þess að hafa orðið fyrir slíku aðkasti þegar hann hafi búið í Gambíu til 10 ára aldurs. Kærandi var spurður að því í viðtali hjá Útlendingastofnun hvernig aðstæður trúlausra einstaklinga væru í heimaríki hans. Kærandi svaraði því að hann vissi það ekki, múslímar færu með meiri völd þar í landi og þetta væri eitthvað sem hann hefði séð á samfélagsmiðlum og því teldi hann að það yrði áhætta fyrir sig að vera þar. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir á grundvelli trúleysis síns, í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.
Kærandi hefur einnig borið fyrir sig að óttast vandamál í heimaríki tengd ættbálkahyggju. Ekkert í frásögn kæranda bar þess merki að hann hafi lent í vandamálum tengdum ættbálki sínum á meðan hann hafi búið í heimaríki sínu til 10 ára aldurs. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi tilheyra Fula þjóðarbrotinu, faðir hans hafi tilheyrt Fula en móðir hans Wolof. Líkt og að framan er rakið um aðstæður í Gambíu er Fula þjóðarbrotið næst stærsta þjóðarbrotið í landinu. Þá kemur fram í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 að gambísk lög banni mismunun á grundvelli kynþátta- og þjóðernis. Þá sé pólitískum frambjóðendum bannað að kynda undir ættbálka- eða þjóðernisspennu. Hafi eftirfylgni með þessum lögum verið góð hjá ríkisstjórn landsins. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærandi hafi ástæður til að óttast ofsóknir í heimaríki á grundvelli þess að tilheyra Fulaættbálknum. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af öðrum ástæðum er tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. 14 laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau er að tekin hafin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 26. mars 2021. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til ákvörðun Útlendingastofnunar var kveðin upp voru því liðnir rúmlega 22 mánuðir. Kærandi hafði því ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan er rakið komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að þar sem kærandi uppfyllti skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga bæri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Kærunefnd telur ekki tilefni til þess að hagga niðurstöðu Útlendingastofnunar um að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar, svo sem við að viðtöl við hann hafi farið fram á ensku og að hann hafi ekki fengið að koma á framfæri frjálsri frásögn í þeim.
Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins er lúta að viðtölum við kæranda. Verður ekki betur séð en að almennt hafi kærandi skilið spurningar sem lagðar voru fyrir hann á ensku. Þá greindi kærandi frá því í fyrsta viðtali hjá Útlendingastofnun, 8. apríl 2021, að hann talaði ensku. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi komið í þrjú viðtöl hjá Útlendingastofnun sem hafa öll farið fram á ensku. Engar athugasemdir voru gerðar í þeim, hvorki af hálfu kæranda né talsmanna hans, við það að þau færu fram á ensku. Af endurritum viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun má sjá að hann skildi vel þær spurningar sem fyrir hann voru lagðar. Kærandi hefur því haft næg tækifæri til að koma á framfæri ósk um sérstakan túlk en hvorki kærandi né talsmenn hans hafa séð ástæðu til að óska eftir því. Þá hafa verið lagðar fram greinargerðir til Útlendingastofnunar og kærunefndar fyrir hönd kæranda og hefur hann því haft tækifæri til að koma á framfæri ítarlegri frásögn. Hvað varðar aðrar athugasemdir kæranda í greinargerð hans hefur nefndin tekið afstöðu til þeirra í niðurstöðukafla.
Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir þar um. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir