Mannanafnanefnd, úrskurður 19. september 2005
„Ár 2005 mánudaginn 19. september, er fundur haldinn í mannanafnanefnd.
Endurupptaka máls nr. 44/2005, úrskurður frá 3. maí 2005, sbr. mál nr. 56/2005 og 61/2005. Mál nr. 91/2005.
Eiginnafn: Eleonora (kvk)
xxxx hefur með bréfi dags. xx sl. mælst til þess að mannanafnanefnd líti enn á ný á ofangreint mál og telur nefndin rétt að verða við tilmælum xx og kveður í framhaldi af því upp svohljóðandi úrskurð:
Í 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er kveðið á um að nafn skuli rita í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Eins og fram hefur komið í fyrri úrskurðum nefndarinnar telst rithátturinn Eleonora (í stað Eleonóra) ekki vera í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Við mat á hefð hefur nefndin stuðst við vinnulagsreglur samþykktar á fundi 1. júlí 2004 og uppfyllir rithátturinn Eleonora ekki ákvæði 1. liðs a, b, c í vinnulagsreglunum. Samkvæmt útgefnum upplýsingum úr manntali 1910 kemur rithátturinn Eleonora ekki fyrir þar, heldur aðeins Eleónóra, en ritháttur í manntalinu 1910 og eldri gögnum er um margt óáreiðanlegur, einkum er varðar notkun broddstafa. Með tilliti til þess þykir rétt að láta úrskurðarbeiðanda njóta þess vafa sem ríkir um rithátt nafnsins í þessum gögnum. Það er því niðurstaða nefndarinnar að eins og þetta tiltekna mál er vaxið sé rétt að fallast á að rithátturinn Eleonora (ef. Eleonoru) hafi áunnið sér hefð í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis og 1. liðar d, í vinnulagsreglum mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Eleonora er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá. "