Sérfræðingur á skrifstofu vísinda og háskóla
Menntamálaráðuneyti auglýsir laust til umsóknar starf sérfræðings á skrifstofu vísinda og háskóla. Um er að ræða fullt starf.
Skrifstofa vísinda og háskóla fjallar um málefni háskólastigsins og annast almenna stjórnsýslu á sviði vísinda, rannsókna og nýsköpunar innan ráðuneytisins. Hún undirbýr mótun stefnu í málefnum háskólastigsins og hefur umsjón með framkvæmd hennar. Skrifstofan liðsinnir vísindanefnd í störfum hennar og annast samþættingu málefna sem lúta að vísinda- og rannsóknastarfsemi við mótun og framkvæmd menntastefnu.
Leitað er að háskólamenntuðum einstaklingi með reynslu og þekkingu á starfssviði skrifstofunnar. Góð þekking á atvinnulífinu er kostur. Frumkvæði, sjálfstæð vinnubrögð, góð kunnátta í íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli auk þekkingar á nýtingu upplýsingatækni eru nauðsynlegir kostir ásamt ritfærni og hæfni í mannlegum samskiptum. Boðið er upp á krefjandi starf í spennandi starfsumhverfi skipuðu öflugum sérfræðingum á sviði vísinda- og háskólamála. Nýr sérfræðingur mun, ásamt öðrum starfsmönnum skrifstofunnar, taka þátt í enn frekari eflingu og samþættingu á starfsemi vísinda- og háskólamála í samvinnu við aðrar skrifstofur og svið menntamálaráðuneytis.
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Laun greiðast samkvæmt launakerfi Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar veitir Kristín Jónsdóttir skrifstofustjóri upplýsinga- og þjónustusviðs.
Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist menntamálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Umsóknarfrestur er til 27. ágúst 2007. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Við ráðningar í störf hjá menntamálaráðuneytinu er tekið mið af jafnréttisáætlun ráðuneytis.