Hoppa yfir valmynd
29. maí 2020 Innviðaráðuneytið

Hvernig getum við einfaldað regluverk og bætt þjónustu?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur óskað eftir tillögum um hvernig megi einfalda regluverk og bæta þjónustu á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Allir eiga kost á því að senda inn ábendingar eða tillögur í netkönnun ráðuneytisins eða í samráðsgátt stjórnvalda til og með föstudeginum 19. júní nk.

Markmiðið er að greina hvort og hvar lagðar eru óþarfar, flóknar eða óljósar byrðar á einstaklinga, fyrirtæki eða félagasamtök sem leita þurfa til ráðuneytisins eða stofnana þess. Könnunin snýr að ráðuneytinu og sex fagstofnunum þess en þær eru: Byggðastofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Samgöngustofa, Vegagerðin og Þjóðskrá Íslands.

„Verkefnið er eitt af stefnumálum mínum og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að gera átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Með aðstoð almennings, fyrirtækja og stofnana viljum við bæta þjónustu stjórnsýslunnar eins og kostur er. Við leitum meðal annars eftir ábendingum um hvar megi auka stafræna þjónusta, einfalda ferla eða gera breytingar á lögum til einföldunar og hagræðis,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta