Matvælaráðherra kynnir sér fiskeldi í Færeyjum
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra hefur verið í Færeyjum frá því á mánudag ásamt vinnuhópi úr ráðuneytinu. Tilgangur ferðarinnar er að kynna sér fiskeldi Færeyinga, þau tækifæri og þær áskoranir sem tengjast atvinnugreininni. Einnig hafa verið ræddir möguleikar á samvinnu frændþjóðanna á þessu sviði.
Matvælaráðaherra fundaði með Magnus Rasmussen iðnaðarráðherra Færeyja sem einnig fer með málefni fiskeldis og Árna Skaale sjávarútvegsráðherra, ásamt því að heimsækja systurstofnanir Hafró og Fiskistofu, Havstovu og Vørn.
„Það hefur verið verið lærdómsríkt að fá innsýn í reynslu okkar góðu granna,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Færeyingar hafa meðal annars unnið ötullega að því að auka gæði og sjálfbærni framleiddrar vöru þannig að færeysk útflutningsframleiðsla sé í hæsta gæðaflokki og skila þannig meiri verðmætum í þjóðarbúið. Með því að fjárfesta í rannsóknum í greininni hafa Færeyingar lagt grunn að gríðarlegum framförum.”