Kynningarfundur um heilbrigðistæknimat á lyfjum og lækningatækjum 11. maí
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ásamt Norðurlandaþjóðunum boða til kynningarfundar 11. maí næstkomandi um heilbrigðistæknimat á lyfjum og lækningatækjum. Markmið fundarins er að kynna fyrir haghöfum nýlega reglugerð ESB um heilbrigðistæknimat, innleiðingu hennar og hvað hún felur í sér.
Vinna við innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins um heilbrigðistæknimat (Regulation (EU) 2021/2282) er hafin hér á landi en henni á að vera að fullu lokið 12. janúar 2025. Heilbrigðistæknimat verður nýjung á Íslandi og mun fundurinn gefa góða innsýn í hvað koma skal í þeim efnum. Með heilbrigðistæknimati er átt við þverfaglegt ferli sem dregur saman upplýsingar um læknisfræðileg, félagsleg, hagfræðileg og siðferðileg sjónarmið í tengslum við notkun á heilbrigðistækni á kerfisbundinn, gagnsæjan og hlutlausan hátt. Markmiðið með heilbrigðistæknimati er örugg og skilvirk stefnumótun á sviði heilbrigðismála þar sem sjúklingar eru í forgrunni og þar sem leitast er við að hámarka virði.
Fundurinn 11. maí stendur frá kl. 9.00 – 12.30 og er boðið upp á þátttöku í beinu streymi. Á fundinum munu fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kynna reglugerðina. Kynningunni verður svo fylgt eftir með pallborðsumræðum sérfræðinga frá öllum löndunum um ýmsa þætti sem snúa að innleiðingu hennar, áhrifum og áskorunum.
Heilbrigðisráðuneytið hvetur alla til að skrá sig og taka þátt í fundinum í gegnum streymi.
Skráning þátttöku í gegnum streymi fer fram hér: https://hta-info-day.eu/registration