Hoppa yfir valmynd
3. september 2012 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Einstakar æskulýðsrannsóknir í 20 ár

Gefa mikilvægar upplýsingar um hagi og líðan ungs fólks.

ungt fólk 2012
ungt fólk 2012


Út er komið ritið Ungt fólk 2012, menntun, menning, íþróttir, tómstundir, hagir og líðan nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla. Það birtir niðurstöður rannsóknar á högum barna og ungmenna, sem staðið hafa yfir síðan 1992, eða í tuttugu ár. Úr niðurstöðum þessara rannsókna má lesa hvaða breytingar hafa átt sér stað í lífi og högum þessa aldursflokks á tímabilinu. Af niðurstöðunum hefur verið dregin sú ályktun að hagir unglinga hafi stórbatnað hér á landi á undanförnum 20 árum.

Frá árinu 1992 hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna hér á landi undir heitinu Ungt fólk. Það er talið hverri þjóð mikilvægt að eiga slíkar langtímarannsóknir um líðan, viðhorf og aðstæður barna og ungmenna á hverjum tíma og hefur Ísland verið í fararbroddi þróunar á rannsóknum af þessu tagi mörg undanfarin ár. Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru gerðar meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum og í öllum árgöngum framhaldsskóla landsins með reglulegu millibili.

 

Með þessum fyrstu heildstæðu rannsóknum á högum barna og ungmenna var brotið blað í sögu mannvísindarannsókna hér á landi með tilkomu áreiðanlegra gagna um málefni þeirra. Upphaflega var rannsóknin unnin í samstarfi við Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála undir stjórn Dr. Þórólfs Þórlindssonar prófessors. Rannsóknir og greining hefur verið aðili að þessum rannsóknum ráðuneytisins frá árinu 1999 og hefur Dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Columbia háskóla í New York, leitt þær. Árið 2006 kom Háskólinn í Reykjavík inn í þetta samstarf.

Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru mikilvægt tæki til að fylgjast með þáttum eins og menntun, menningu, tómstundum, íþróttaiðkun, félagsstarfi, framtíðarsýn og líðan barna og ungmenna. Ríki og sveitarfélög hafa tekið mið af niðurstöðum rannsóknanna við stefnumótun og aðgerðir í málaflokkum sem snerta börn og ungmenni. Þá hafa  skólar, æskulýðssamtök, íþróttasamtök, stofnanir, fagaðilar og fleiri nýtt sér niðurstöðurnar með fjölbreyttum hætti.

Gögn Ungt fólk rannsóknanna hafa verið notuð víða. Frá árinu 1997 hafa verið skrifaðar sjö doktorsritgerðir úr gögnum rannsóknanna og margir tugir meistara- og baccalaureate ritgerða.

Áhrif Ungt fólk rannsóknanna hafa einnig náð út fyrir landssteinana. Starfsfólk Rannsókna og greiningar, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík hafa nýtt gögn rannsóknanna til greininga og skrifa á fræðasviðum sínum og nú hafa um 50 ritrýndar greinar verið birtar úr gögnunum í alþjóðlegum, ritrýndum vísindatímaritum. Fjölmargir erlendir vísindamenn hafa átt í samstarfi við íslenska félaga sína við nýtingu gagnanna og hafa þeir verið á einu máli um að gæði Ungt fólk rannsóknanna séu sjaldséð hvað umfang og yfirgrip varðar. Sú sérstaða að rannsóknirnar fari fram með gagnasöfnun í öllu þýðinu í stað úrtaka eins og algengara er, hefur veitt tækifæri til yfirgripsmeiri og ítarlegri greininga en oft er mögulegt. Endurtekning rannsóknanna yfir tíma hefur enn fremur gert mögulegt að framkvæma tímaraðagreiningar á þróun lykilþátta er varða hagi, líðan og hegðun barna og unglinga hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta