Hoppa yfir valmynd
28. júní 2021 Innviðaráðuneytið

Endurnýjar samning við Neytendasamtökin um leigjendaaðstoð

Kolbrún Arna Villadsen, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunun og stjórnandi leigjendaaðstoðarinnar, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, undirrituðu í dag samning um áframhaldandi stuðning félagsmálaráðuneytisins við Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis. Samningurinn gildir til ársloka 2022 en samtökin hafa veitt leigjendum ráðgjöf og þjónustu frá árinu 2011.

Samkvæmt samningnum mun þjónustan fela í sér að veita leigjendum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um rétt sinn og skyldur samkvæmt húsaleigulögum og veita ráðgjöf þegar upp kemur ágreiningur vegna leigusamninga um íbúðarhúsnæði.

Þá verður starfrækt sérstakt tilraunaverkefni til tveggja ára í ljósi þeirra áhrifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á stöðu viðkvæmra hópa á leigumarkaði. Þannig munu Neytendasamtökin einnig veita leigusölum sambærilega þjónustu og leigjendum hefur verið veitt hingað til með það að markmiði að þeir þekki réttindi sín og skyldur samkvæmt húsaleigulögum, báðum samningsaðilum til hagsbóta. Neytendasamtökin munu einnig veita innflytjendum og öðrum viðkvæmum hópum á leigumarkaði sérstaka aðstoð í formi milligöngu við leigusala eða við að leita réttar síns fyrir kærunefnd húsamála.

Enn fremur mun félagsmálaráðuneytið styrkja samtökin til að efla og þýða upplýsingavef Leigjendaaðstoðarinnar á ensku og pólsku. Neytendasamtökin fá svo sérstakan styrk vegna túlkaþjónustu fyrir innflytjendur sem leita til Leigjendaaðstoðarinnar.

Þjónusta Leigjendaaðstoðarinnar er viðkomandi að kostnaðarlausu. Leigjendaaðstoðin er með reglulega símatíma kl. 12:30-15:00 á þriðjudögum og fimmtudögum og á vef hennar eru aðgengilegar margvíslegar upplýsingar um réttindi og skyldur leigjenda og leigusala.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta