Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

302/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 302/2020

Miðvikudaginn 4. nóvember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. júní apríl 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júní 2020 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 15. maí 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júní 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2020. Með bréfi, dags. 19. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júlí 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 22. júlí 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. júlí 2020. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2020, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 13. ágúst 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. ágúst 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja henni um örorkulífeyri verði endurmetin.

Í kæru greinir kærandi frá því að umsókn hennar um örorku hafi verið synjað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri á árinu 2019 en áframhaldandi greiðslum hafi verið hafnað. VIRK hafi áður hafnað því að taka hana inn þar sem ekki hafi verið talin forsenda til bætingar á færni þar sem ekki sé hægt að lækna einhverfu.

Kærandi hafi nýlega farið í greiningu hjá einhverfuteymi á Landspítalanum og í niðurstöðu segi: „Á fundi einhverfuteymis þann X var farið yfir öll gögn sem fyrir liggja í athugun teymisins og komist að þeirri niðurstöðu að einkenni og saga samræmist best greiningarskilmerkjum Aspergerheilkenna, F84,5. Aðlögunarfærni í daglegu lífi er slök miðað við jafnaldra. A einnig við mikinn kvíða og depurð. Uppfyllir greiningarskilmerki fyrir áfallastreituröskun. A er með greiningu á ADHD með ríkjandi einkennum athyglisbrests. Mjög brýnt er að í allri þjónustu og meðferð við A sé tekið mið af þessari greiningu og henni tryggð félagsleg réttindi við hæfi.“ Ljóst sé að kærandi eigi ekki heima á almennum vinnumarkaði og starfsendurhæfing sé því ekki raunhæf, hún sé nú með stuðning félagsþjónustunnar og í reglulegum tímum hjá iðjuþjálfa í geðheilsuteymi heilsugæslunnar.

Í athugasemdum kæranda frá 22. júlí 2020 vísar kærandi til þess sem kemur fram í greiningu Landspítala, bréfi félags- og þroskaráðgjafans B, læknisvottorði C, dags. 28. maí 2020, og þess að VIRK hafi synjað henni um endurhæfingu.

Kærandi hafi verið mjög veik í langan tíma og hafi verið tekjulaus í einhver ár. Þetta séu ár sem hún muni ekki mikið eftir. Örorka þurfi ekki að vera varanleg. Kærandi geti einfaldlega ekki lifað lengur með þessum endalausa kvíða og hún sé sífellt að verða veikari, kvíðnari og vonlausari þar sem hún sé svo óstöðug, henni geti ekki batnað í þessum óstöðugleika og fjárhagskvíða.

Þegar kærandi hafi verið X ára hafi hún ekki vitað að hún væri með einhverfu. Hún hafi einungis reynt að lifa í heimi sem hún hafi ekki passað inn í án þess að vita af hverju. Það hafi verið þá sem hún hafi reynt að enda líf sitt. Ef kærandi hefði fengið rétta greiningu þegar hún hafi verið barn og unglingur hefði líf hennar orðið allt öðruvísi. Kærandi sé fyrst núna loksins komin með útskýringu á líðan sinni eftir öll þessi ár, í hennar huga sé það hálfpartinn orðið of seint.

Vegna röskunar eigi kærandi mjög erfitt með þennan stöðuga fjárhagskvíða, hún hafi einangrað sig enn meira í gegnum árin sem hafi gert hana veikari.

Í athugasemdum kæranda frá 13. ágúst 2020 greinir hún frá því að fyrir mistök hafi félagsráðgjafi sótt um endurhæfingarlífeyri fyrir hana, félagsráðgjafinn hafi haldið að kærunni væri lokið og hafi umsóknin verið dregin til baka.

Hugsanlega hafi ástand kæranda verið svona slæmt vegna þess að hún sé búsett úti á landi þar sem ef til vill sé minni þjónusta. Að mati kæranda sé það hneyksli hvernig komið hafi verið fram við hana hér áður fyrr þegar hún hafi verið að reyna að fá einhverja hjálp. Nú þegar greiningar séu komnar finnist henni að hún eigi rétt á því að komast á örorku eins og hún hefði átt að fá í byrjun.

Með árunum sé kærandi orðin miklu veikari og það sé engin endurhæfing að fara að hjálpa henni núna. Á D sé engin endurhæfing og VIRK hafi hafnað henni þar sem einhverfa sé ólæknanleg.

Læknar segi að endurhæfing sé ekki raunhæf í tilviki kæranda og að hún eigi að komast strax á fulla örorku. Læknar og félagsráðgjafar séu hneykslaðir á synjun á örorku og hafi hjálpað henni að kæra ákvörðunina.

Læknar og félagsráðgjafarnir „hér“ séu allir sammála um að engin endurhæfing sé raunhæf fyrir kæranda og að það gangi ekki að hún þurfi stöðugt að hafa áhyggjur af því að lenda á götunni og vera í fjárhagskvíða.

Til að bæta upp fyrir andlega þjáningu og læknamistök sé það mat kæranda að hún eigi að fá örorku tvö ár aftur í tímann hið minnsta skilyrðislaust.

Kærandi sé ekki í neinni endurhæfingu, einhverfa sé röskun í taugakerfinu og heilanum, hún hafi verið svona frá því að hún var krakki og þetta sé ekki að fara að breytast.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri, dags. 9. júní 2020.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun þann 15. maí 2020. Með bréfi, dags. 9. júní 2020, hafi henni verið synjað um örorkumat samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og henni hafi verið vísað á endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem stofnunin hafi talið nauðsynlegt að láta reyna á frekari endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kæmi. Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri frá 1. nóvember 2018 til 30. september 2019, eða í samtals 11 mánuði.

Við mat á umsókn um örorkulífeyri hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem hafi legið fyrir. Við afgreiðslu málsins hafi legið fyrir umsókn, dags. 15. maí 2020, svör kæranda við spurningalista, dags. 26. maí 2020, greinargerð sveitarfélags, dags. 20. maí 2020, og læknisvottorð, dags. 2. júní 2020. Einnig hafi legið fyrir eldri gögn.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi sé X ára gömul, hún sé meðal annars með kvíða, depurð og sjálfvígsþanka. Nýlegar upplýsingar séu um Aspergerheilkenni samkvæmt einhverfuteymi geðsviðs Landspítala. Tryggingastofnun vísar í frekari greiningar í læknisvottorði. Kærandi hafi einu sinni verið lögð inn á geðdeild. Kærandi hafi lokið stúdentsprófi og hafi einhverja en takmarkaða vinnusögu. Fram komi að kærandi hafi notið þjónustu frá geðheilsuteymi E þar sem hún hafi verið að hitta iðjuþjálfa í félagsfærni og hafi einnig haft aðgang að sálfræðiþjónustu. 

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. júní 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri og bent á að sækja um endurhæfingarlífeyri. Það sé mat Tryggingastofnunar að út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki tímabært að meta örorku kæranda.

Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkumat að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda hennar. Sé þá horft meðal annars til aldurs kæranda, stöðu hennar í dag, hvers eðlis heilsufarsvandinn sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu í boði. Einnig sé horft til þess að af gögnum málsins megi ráða að það sé raunhæft að ástand kæranda batni eins og fram komi í læknisvottorði. Ljóst sé af þeim gögnum að raunhæft sé að kærandi geti leitað sér frekari endurhæfingar og virðist nú þegar vera að sinna ákveðnum þáttum sem Tryggingastofnun hafi litið til við veitingu á endurhæfingarlífeyri. 

Í máli kæranda væri æskilegt að unnin væri raunhæf endurhæfingaráætlun í samstarfi við viðeigandi fagaðila. Vakin sé athygli á því að þegar kæranda hafi verið synjað um framlengingu á endurhæfingarlífeyri í október 2019 þá hafi það annars vegar verið vegna þess að fyrri endurhæfingaráætlun hafi ekki verið sinnt sem skyldi og hins vegar vegna þess að það hafi þótt óljóst hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Miðað við þær upplýsingar sem fram komi séu aðstæður kæranda aðrar í dag en þær hafi verið í október 2019.

Tryggingastofnun vilji ítreka að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilfelli kæranda.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat og vísa í endurhæfingu, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2020, kemur fram að kærandi hafi sent inn nýja umsókn um endurhæfingarlífeyri ásamt fylgigögnum og að búið sé að óska eftir frekari gögnum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júní 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 28. maí 2020. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Aspergersheilkenni

Aðrar ofvirkniraskanir

Streituröskun eftir áfall

Geðlægðarlota, ótilgreind

Kvíðaröskun, ótilgreind]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í læknisvottorðinu:

„Sjúklingur hefur langa sögu um kvíða (aðallega félagskvíða) og depurð. Hefur tekið Esopram 20 mg X1 frá því að hún var á F eða í hálft annað ár. Finnst það lyf gera hana dofna en ef hún tekur það ekki verður hún mjög örvæntingarfull og fær sjáfsvígsþanka. Saga um sjálfsskaða á unglingsárum en ekki síðustu árin. […] Þá er saga um nokkrar sjálfsvígstilraunir. […] Ein innlögn á geðdeild október X en stoppaði aðeins í nokkrar klukkustundir. Gefur sögu um trichotillomaníu en hætti að […] fyrir X-X árum og fór að […]. […]

Sjúklingi finnst athyglisbrestur há sér mikið, bæði í daglegu lífi og í náminu. Hefur tekið sér tímabundið hlé frá X […]. Lýsir því að hugsanir séu út um allt og að hún geti ekki fest sig við neitt. Hún er nýlega byrjuð á Medikinet 2x20mg sem hún þolir vel og finnst hjálpa henni.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„Kemur svolítið sérkennilega fyrir. Gefur góða sögu, er kurteis en frekar ör í viðtalinu, ruggar sér fram og til baka og fiktar í hulstri á símanum sínum, á erfitt með augnkontakt. Ég sé að augljóslega var það erfitt fyrir hana að koma hingað og tala við mig vegna félagskvíða. Hún segist hafa liðið illa í dag vegna þessa tíma. Lýsir langvinnum kvíða og depurð en geðslag ekki sjáanlega lækkað. Ekki metin í bráðri sjálfsvígshættu nú. Rauntengd.

[…]

04.05.2020 - Einhverfuteymi Geðsviðs LSH:

Einkenni og saga samræmist best greiningarskilmerkjum Aspergerheilkenna, F84.5. Aðlögunarfærni í daglegu lífi er slök miðað við jafnaldra. A glímir einnig við mikinn kvíða og depurð, uppfyllir greiningarskilmerki fyrir áfallastreituröskun. A er með greiningu á ADHD með ríkjandi einkennum athyglisbrests. Mjög brýnt er að í allri þjónustu og meðferð við A sé tekið mið af þessari greiningu og henni tryggð félagsleg réttindi við hæfi.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 19. desember 2015 en að búast megi við að færni geti aukist með tímanum. Í nánara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Eins og er, get ég ekki séð að hún sé fær um að fara út á vinnumarkaðinn í bráð. Er hjá félagsþjónustunni og iðjuþjálfa sem telja hana ekki geta haft gagn af endurhæfingu heldur, það hefur verið reynt. Hún er haldin miklum félagskvíða og áfallastreituröskun, ásamt því að vera með Asperger og ADD greiningu.“

Í athugasemdum segir í vottorðinu:

„Félagsþjónustan metur hana svo að hún geti ekki farið í neina endurhæfingu, hún sé of lasin í það. Var henni hafnað af virk 2017, var of lasin til að fara í endurhæfingu. Fór þá á F og fékk endurhæfingarlífeyri, kom svo til félagsþjónustunnar fyrir um ári síðan og þau hafa verið með endurhæfingaplan fyrir hana. Endurhæfingarlífeyririnn var svo stoppaður því ekki var talin nógu mikil endurhæfing hjá félagsþjónustunni í því til að koma henni út á vinnumarkað, enda eru þau ekki með þá þjónustu í boði.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 23. júlí 2020, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri, sem er að mestu samhljóða vottorði hennar frá 28. maí 2020. Í samantekt segir meðal annars:

„Samantekt: Var henni hafnað af virk 2017, var of lasin til að fara í endurhæfingu. Fór þá á F og fékk endurhæfingarlífeyri, kom svo til félagsþjónustunnar fyrir um ári síðan og þau hafa verið með endurhæfingaplan fyrir hana. Endurhæfingarlífeyririnn var svo stoppaður því ekki var talin nógu mikil endurhæfing hjá félagsþjónustunni í því til að koma henni út á vinnumarkað. Var svo umsókn hennar um örorku synjað núna í Júní 2020 þar sem endurhæfing er ekki talin fullreynd. Félagsþjónustan metur hana svo að hún geti ekki farið í neina endurhæfingu annað en viðtöl og endurhæfingaáætlun hjá sér hér á D.“

Í tillögu að meðferð segir að hún samanstandi af iðjuþjálfun og sálfræðiviðtölum, hún sé að vinna í X í eigin frítíma og hafi verið að taka einhverja áfanga í skóla.

Fyrir liggur bréf G, dags. 20. maí 2020, vegna umsóknar kæranda um örorku. Þar segir:

„A lauk meðferð á Göngudeild geðsviðs, dagdeildar F í mars 2019. Eftir meðferðina þar leitaði hún til G, það var ljóst að þá að hún var ekki að fara strax á vinnumarkaðinn. Í ljósi þess sótti A um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri og aðstoðaði þroskaþjálfi hana við að gera endurhæfingaráætlun sem miðaði við aðstæður í hennar X. Hún fékk samþykktan endurhæfingarlífeyri til lok september 2019 en þá var endurhæfingaráætlun synjað þar sem ekki var ljóst hvernig endurhæfing myndi koma henni aftur á vinnumarkað. […] Umsókn A hjá VIRK var fyrst synjað árið 2018 og fór hún í kjölfarið í meðferð á dagdeild F. Henni var þaðan vísað í einhverfu – og ADHD greiningu á Landspítalanum. Hún sótti aftur um í VIRK eftir að hún lauk meðferð á F en var sett á bið vegna greiningarferlis. A var hins vegar kölluð í mat hjá VIRK í desember 2019 en vegna andlegs ástands sá hún sér ekki fært um að mæta. Í maí sl. lágu fyrir niðurstöður greiningar frá Landspítalanum:

  • Aspergerheilkenni, F84.5
  • Aðrar ofvikrnisraskanir, F90.8
  • Streituröskun eftir áfall, F43,1
  • Geðlægðarlota, ótilgreind, F33,9
  • Endurtekin geðlægðarröskun, ótilgreind, F33,9
  • Kvíðaröskun, ótilgreind, F41,9

[…] A hefur notið þjónustu frá Geðheilsuteymi E þar sem hún hefur verið að hitta iðjuþjálfa í félagsfærni og hefur einnig aðgang þar að sálfræðiþjónustu. Hún hefur stuðning frá félagsþjónustunni sem hefur aðstoðað hana við réttindamál og mun í framtíðinni aðstoða A við að komast í eigin búsetu og veita henni viðeigandi stuðning.

Það er mat undirritaðrar að A myndi ekki hagnast af hefðbundinni endurhæfingu og er ekki á leiðinni á vinnumarkaðinn eins og staðan er í dag vegna andlegs ástands og takmarkana sem orsakast af greiningum sem liggja fyrir. Það væri best ef hún kæmist á örorku og gæti haldið áfram að njóta þeirrar þjónustu sem hún hefur verið að fá frá Félagsþjónustu og E.[…]“

Einnig liggur fyrir afrit af bréfi frá G, dags. 14. október 2019, vegna beiðni um endurskoðun á synjun um endurhæfingarlífeyri.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem lagður var fram með umsókn kæranda um örorku, svaraði hún spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda greinir kærandi frá andlegum vandamálum og einhverfugreiningu. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að vegna andlegs ástands eigi hún stundum í erfiðleikum með tal. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að geðdeild Landspítalans og E hafi langa skýrslu um hana. Kærandi hafi nýlega verið greind með einhverfu. 

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við margvísleg vandamál af andlegum toga. Í fyrrgreindu læknisvottorði C, dags. 28. maí 2020, kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í vottorðinu er einnig tilgreint að kærandi sé hjá félagsþjónustunni sem telji hana ekki geta haft gagn af endurhæfingu. Í bréfi G, dags. 20. maí 2020, segir að kærandi hafi notið þjónustu frá geðheilsuteymi E þar sem hún hafi verið að hitta iðjuþjálfa í félagsfærni og hafi einnig aðgang þar að sálfræðiþjónustu. Einnig kemur þar fram að það væri best ef kærandi kæmist á örorku og gæti haldið áfram að njóta þeirrar þjónustu sem hún hafi verið að fá frá félagsþjónustunni og E. Úrskurðarnefndin telur að hvorki verði ráðið af framangreindu læknisvottorði og bréfi félagsþjónustunnar né af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 11 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að kærandi láti reyna á frekari endurhæfingu áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júní 2020 um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta