Hoppa yfir valmynd
31. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stuðningur við faglega framkvæmd fræðslu- og forvarnarverkefnisins „Eitt líf“

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað ráðgjafarhóp til að styðja við þjóðarátak í þágu forvarnarstarfs fyrir börn og ungmenni.

Aðstandendur söfnunarinnar „Á allra vörum“ vörðu styrktarfé sínu í Minningarsjóð Einars Darra Óskarssonar – Eitt líf, sem standa mun að forvarna- og fræðsluverkefni sem miðar að því að sporna við og draga úr misnotkun ávana- og fíknefna. Fræðslan mun miðast að börnum og ungmennum, foreldrum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarfi. Meginhlutverk ráðgjafarhópsins verður að styðja við faglega framkvæmd verkefnisins, skilgreina og samhæfa mælikvarða og fylgjast með framgangi þess og árangri.

„Aðgengi og framboð á ávandabindandi lyfjum og vímuefnum hefur breyst mikið á undanförnum árum og við þurfum að vera vakandi fyrir afleiðingum þeirrar þróunar því hún snertir allt samfélagið. Samvinna og skýr markmið eru lykilatriði í að ná árangri í þessu verkefni sem og gagnreyndar aðferðir í forvarnarfræðslu. Á fyrsta fundi hópsins var meðal annars fjallað sérstaklega um skólasókn barna og ungmenna, málefni nemenda af erlendum uppruna, aukna áfengisneyslu, stuðningsnet og geðheilbrigði,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Ráðgjafarhópurinn er meðal þeirra lykilaðila sem hafa hvað besta yfirsýn yfir forvarnarstarf sem þegar er unnið. Vegna aðstæðna í samfélaginu, samkomubanns og takmarkana á skólastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarfi mun hópurinn fylgjast grannt með þróun mála og stuðla að samræmdum viðbrögðum, í samvinnu við stjórnvöld og aðra aðgerðahópa.

Ráðgjafarhópinn skipa:
Selma Árnadóttir, formaður, án tilnefningar,
Rafn Magnús Jónsson, varaformaður, tilnefndur af Landlækni,
Ársæll Már Arnarsson, tilnefndur af Menntavísindasviði Háskóla Íslands,
Ester Valdimarsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra framhaldsskólanema,
Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, tilnefnd af Grunni – félagi fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum,
Funi Sigurðsson, tilnefndur af félagsmálaráðuneyti,
Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
Guðmundur Fylkisson, tilnefndur af Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu,
Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðuneyti,
Hildur Reykdal Snorradóttir, tilnefnd af Samfés,
Hrefna Sigurjónsdóttir, tilnefnd af samtökunum Heimili og skóla,
Ingibjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti,
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, tilnefnd af Rannsóknum & greiningu,
Ragnar Þór Pétursson, tilnefndur af Kennarasambandi Íslands
Sigurlaug Kristmannsdóttir, tilnefnd af Skólameistarafélagi Íslands,
Svava Gunnarsdóttir, tilnefnd af Samfés,
Sverrir Óskarsson, tilnefndur af Menntamálastofnun,
Valgerður Þórunn Bjarnadóttir, án tilnefningar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta