Endurgreiðslur umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp, lyf og þjálfun
Velferðarráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum kostnaði við læknishjálp, lyf og þjálfun. Með umtalsverðri hækkun fjárhæða og tekjumarka er meðal annars leitast við að mæta aðstæðum tekjulágra sem kunna að lenda í erfiðleikum með upphafsgreiðslur fyrir lyf í nýju lyfjagreiðsluþátttökukerfi.
Fjárhæðir og viðmiðunarmörk vegna tekna hafa verið óbreytt frá árinu 2005 en nú hefur verið ákveðið að uppreikna fjárhæðir og tekjumörk sem leiðir til umtalsverðrar hækkunar. Nýja reglugerðin tekur gildi 4. maí, þ.e. um leið og nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja. Með þessu móti er leitast við að koma til móts við aðstæður fólks með lágar tekjur sem kann að lenda í erfiðleikum með upphafsgreiðslur fyrir lyf sín í nýju greiðsluþátttökukerfi.
Breytingar á reglugerðinni felast einkum í hækkun viðmiðunarfjárhæða vegna fjölskyldutekna þegar reiknaður er út réttur til endurgreiðslu kostnaðar. Auk þessa er kveðið á um sérstakar viðmiðunarfjárhæðir fyrir fullorðna sem ekki eru í sambúð. Sérstakt tillit verður tekið til barnafjölskyldna við útreikning á rétti til endurgreiðslu kostnaðar. Í því felst að ákveðinn hlutur af heildartekjum er talinn til framfærslu hvers barns sem er yngra en 18 ára og hefur því ekki áhrif til lækkunar þegar reiknaður er réttur umsækjanda til endurgreiðslu.
Endurskoðun reglugerðarinnar sem hér hefur verið lýst mun leiða til þess að mun fleiri geta sótt um endurgreiðslu frá Tryggingastofnun vegna umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp, lyf og þjálfun. Þess ber einnig að geta að reglugerðin heimilar að tekið sé tillit til aðstæðna fólks verði það fyrir verulegri tekjulækkun, s.s. vegna alvarlegra veikinda eða atvinnumissis.