Nr. 98/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 98/2020
í stjórnsýslumálum nr. KNU20010005 og KNU20010006
Beiðni [...], [...] og barns þeirra um endurupptöku
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 562/2019, dags. 5. desember 2019, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. september 2019, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita [...], vera fædd [...] (hér eftir nefnd K), [...], vera fæddur [...] (hér eftir nefndur M) og barns þeirra, [...], vera fætt [...], ríkisborgarar Írans, um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu.
Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 9. desember 2019. Þann 15. desember 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa og um endurupptöku. Þá barst kærunefnd greinargerð kærenda þann 22. desember 2019, ásamt fylgigögnum, og viðbótargögn bárust dagana 8. og 19. janúar 2020. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 27/2020, dags. 20. janúar 2020, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærunefnd barst beiðni um frestun á framkvæmd ákvörðunar í máli kærenda þann 16. febrúar 2020 ásamt fylgigögnum og bárust frekari gögn dagana 17. og 18. febrúar s.á. Þá barst viðbótargreinargerð kærenda, ásamt fylgigögnum þann 24. febrúar 2020 og bárust frekari upplýsingar, og viðbótargögn, þann 28. febrúar 2020. Þá barst kærunefnd þann 6. mars 2020 viðbót við viðbótargreinargerð kærenda.
Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning í beiðni kærenda og barns þeirra um endurupptöku mála þeirra að hún byggi nú einkum á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
II. Málsástæður og rök kærenda
Í beiðni kærenda um endurupptöku er m.a. vísað til þess að barn kærenda hefði verið innlagt á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna andlegrar vanheilsu og læknar þar teldu læknisfræðilega óforsvaranlegt að barninu yrði vísað úr landi. Var beiðni kærenda einkum byggð á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Í beiðni kærenda um endurupptöku er nú jafnframt byggt á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum og að skilyrði ákvæðis 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Kærendur hafi lagt fram umsóknir sínar á Íslandi þann 5. mars 2019.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Líkt og áður hefur komið fram sóttu kærendur og barn þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. mars 2019 og hafa þau ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsóknir kærenda bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum. Af upplýsingum sem kærunefnd bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun dagana 6. og 9. mars sl., varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð og flutningi kærenda, má ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kærenda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í málum kærenda og er að mati kærunefndar ekkert sem bendi til þess að kærendur verði taldir bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsókna sinna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kærenda hér á landi síðan kærendur lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 5. mars 2019, er fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kærenda á þann hátt að þau eigi rétt á endurupptöku mála sinna, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Vegna athugasemda við málsmeðferð kærunefndar
Í greinargerð, dags. 24. febrúar 2020, er gerð athugasemd við að barn kærenda hefði ekki fengið að tjá sig við málsmeðferð hjá kærunefnd. Varðandi þetta atriði vill kærunefnd taka fram að allir umsækjendur um alþjóðlega vernd, börn og fullorðnir, fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við kærunefnd. Er kærendum ávallt gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í formi greinargerðar og framlagningu gagna, með aðstoð talsmanns. Auk þess, eftir atvikum, getur kærendum gefist kostur á að greina frá sjónarmiðum sínum við nefndina í viðtali. Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga er málsmeðferð hjá kærunefndinni að jafnaði skrifleg. Í málum skv. IV. kafla og 74. gr. laga um útlendinga getur nefndin, telji hún ástæðu til, gefið kæranda kost á að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni máls eða einstök atriði þess eftir atvikum. Samkvæmt þessu er það aðeins þegar nefndin telur ástæðu til að kærendum er boðið að koma í viðtal. Slík ástæða gæti t.d. tengst trúverðugleika frásagnar kæranda og nefndin telur að nauðsynlegt sé að fá viðkomandi í viðtal til að endurmeta trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, eða til að varpa ljósi á þætti máls sem við teljum enn vera óljósa, þrátt fyrir málsmeðferðina hjá Útlendingastofnun.
Í þessu tiltekna máli óskaði talsmaður kærenda í greinargerð sinni eftir viðtali við kærunefnd en engin sérstök ósk barst um að viðtal yrði tekið við barn kærenda. Í málinu var fallist á málsástæður kærenda og það lagt til grundvallar niðurstöðu máls að barnið væri trans. Málið snérist því ekki um trúverðugleika frásagnar um þann þátt málsins eða önnur atriði sem kærendur eða barn þeirra gátu, að mati kærunefndar, varpað ljósi á í formi viðtals. Því var ekki talin ástæða til að kalla kærendur eða barn þeirra í viðtal. Málið varðaði að hluta hvort aðstæður í Portúgal fyrir transbörn og LGTB+ samfélagið væru þess eðlis að rétt væri að Ísland tæki yfir ábyrgð á umsókn þeirra, þrátt fyrir að portúgölsk stjórnvöld bæru ábyrgð samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Sú rannsókn var byggð á skýrslum um aðstæður í Portúgal en varðaði ekki þætti, sem að mati kærunefndar, kærendur eða barn þeirra voru í aðstöðu til að varpa ljósi á. Kærunefnd áréttar að það sé alveg ljóst að kærendur og barn þeirra fengu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við málsmeðferð hjá kærunefnd og nutu aðstoðar talsmanns við það. Kærendur lögðu fram greinargerð í málinu þann 7. október 2019, ásamt fylgigögnum auk þess sem frekari gögn voru lögð fram hjá kærunefnd þann 30. október og 25. nóvember s.á.
Í málatilbúnaði kærenda hefur því verið haldið fram að það sé ekki í samræmi við stjórnsýsluvenju að kærunefnd afgreiði fyrst beiðni um frestun réttaráhrifa og síðan beiðni um endurupptöku, þegar þessar beiðnir berast í einu skjali. Varðandi þetta vísar kærunefnd til tölvupóstsamskipta við talsmann kæranda, dags. 28. mars 2019, þar sem útskýrt var fyrir talsmanni hvernig framkvæmdin varðandi þessi mál væru hjá kærunefnd. Kærunefnd telur því að talsmanni kæranda hafi átt að vera fullkunnugt um framkvæmd afgreiðslu þessara beiðna hjá kærunefnd. Til áréttingar tekur kærunefnd fram að beiðni um frestun réttaráhrifa tengist öðrum lagagrundvelli en beiðni um endurupptöku; fyrrnefnda beiðnin er byggð á lögum um útlendinga en sú síðar nefnda byggist á stjórnsýslulögum. Þá er málsmeðferð þessara mála ólík; formaður nefndarinnar úrskurðar einn vegna beiðna um frestun réttaráhrifa en þriggja manna nefnd úrskurðar um beiðnir um endurupptöku. Ástæður þess að beiðnir um frestun réttaráhrifa eru stundum afgreiddar fyrst tengjast aðallega skilvirkni.
Í ljósi niðurstöðu málsins telur kærunefnd ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um aðrar málsástæður og athugasemdir kærenda.
Úrskurðarorð
Fallist er á beiðni kærenda og barns þeirra á endurupptöku á málum þeirra.
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kærenda og barns þeirra til efnismeðferðar.
The appellants requests for re-examination of their case is granted.
The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s applications for international protection in Iceland.
Áslaug Magnúsdóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Bjarnveig Eiríksdóttir