Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

332/2020

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 332/2020

Miðvikudaginn 16. september 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 1. júlí 2020, kærði A, , til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. desember 2019 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með rafrænni umsókn, móttekinni 24. október 2019. Með örorkumati, dags. 3. desember 2019, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júlí 2020.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um örorkulífeyri og tengdar greiðslur verði felld úr gildi og málinu verði vísað til stofnunarinnar til mats á örorku kæranda.

Í kæru kemur fram að ástæða þess að kærandi sendi inn kæru svo seint sé sú að hann hafi búist við svari í gegnum tölvupóst eða símtali frá Tryggingastofnun varðandi umsókn sína um örorku. Um miðjan febrúar hafi hann ákveðið að athuga á „Mínum síðum“ en ekki fundið neitt skjal. Það hafi einnig haft áhrif að félagsráðgjafi hans hafi farið í leyfi og hann hafi því ekki fengið upplýsingar frá honum.

Hann hafi reynt að fara í skóla og vinnu sem hafi ekki gengið upp. Hann hafi reynt endurhæfingu undanfarin ár en ekki tekist að ljúka henni. Endurhæfing sem hafi verið reynd hafi verið á vegum Hvítabandsins, Hringsjár, Hugarafls og VIRK.

Vegna þunglyndis og kvíða sé kærandi með félagsfælni. Hann eigi við vímuefnavanda að stríða og þar af leiðandi geti hann ekki fengið ávísað kvíðalyfi. Þetta hafi áhrif á stöðu hans og erfiðleika við endurhæfingu og hamli honum í daglegu lífi.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmir sjö mánuðir frá því að kæranda var birt hin kærða ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. desember 2019, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júlí 2019. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 3. desember 2019 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru kemur fram að ástæður þess að kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála svo seint væru meðal annars þær að kærandi hafi búist við símtali eða tölvupósti frá Tryggingastofnun varðandi umsókn sína og að félagsráðgjafi hans hafi farið í leyfi og því hafi kærandi ekki fengið neinar upplýsingar frá honum. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi sótti um örorkulífeyri rafrænt í gegnum „Mínar síður“ og svaraði neitandi þeirri spurningu í umsókn hvort hann óskaði þess að fá bréf Tryggingastofnunar send heim. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var ákvörðun stofnunarinnar birt kæranda inni á „Mínum síðum“ á þeim degi sem ákvörðunin var tekin, þ.e. 3. desember 2019, auk þess sem kærandi fékk tölvupóst sendan á það netfang sem hann skráði í umsókn sína sama dag. Í ljósi framangreinds er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki unnt að leggja annað til grundvallar en að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið kynnt kæranda með nægilega skýrum hætti og honum leiðbeint, bæði um kæruheimild og kærufrest. Þá telur úrskurðarnefndin að skýringar kæranda á ástæðum þess að kæra barst að liðnum kærufresti ekki þess eðlis að unnt sé að líta svo á að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Í því sambandi skal tekið fram að ekki verður fallist á að fjarvera félagsráðgjafa hans vegna leyfis hafi haft áhrif á möguleika hans til að bera fram kæru áður en kærufrestur rann sitt skeið á enda. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkulífeyri á ný.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta