Framfarir í jafnréttismálum óviðunandi hægfara, segir í skýrslu UN Women
UN Women telur að framfarir í jafnréttismálum séu „óviðunandi hægfara“ þegar horft sé til Heimsmarkmiðanna. Stofnunin kallar meðal annars eftir betri gögnum til að knýja fram breytingar og vill að aðgerðum verði einkum beint að tveimur þáttum: ólaunuðum umönnunarstörfum og ofbeldi gegn konum. Mestur árangur náist með áherslu á þetta tvennt.
Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) gaf í vikunni út vöktunarskýrslu um fyrirheit og efndir í tengslum við fimmta Heimsmarkmiðið sem felur í sér að jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld. Skýrslan nefnist „Turning Promises into Action.“ Að mati UN Women stendur fimmta Heimsmarkmiðið ekki einungis eitt og sér heldur er það þverlægt og hefur tengingu við öll hin markmiðin sextán.
„Framfarir í þágu kvenna og stúlkna eru enn óviðunandi hægfara," segir Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóri UN Women í skýrslunni og bætir við að „ný gögn og greining þeirra undirstriki að komist ekki mikill skriður á jafnrétti kynjanna blasi við að alþjóðasamfélagið nái ekki markmiðum sínum.“
Fram kemur í skýrslunni að þótt árangur hafi náðst að einhverju leyti á síðustu árum sé niðurstaða skýrsluhöfunda sú að áherslan á konur og stúlkur í Heimsmarkmiðunum hafi ekki skilað sér í aðgerðum í þágu þeirra. Enn séu til dæmis 15 milljónir stelpna á grunnskólaaldri utan skóla samanborið við 10 milljónir stráka; konur á þingi séu aðeins 24% allra þingmanna; launamunur kynjanna sé enn 23%; og kynbundið ofbeldi enn „heimsfaraldur“ eins og segir í skýrslunni.
Að mati skýrsluhöfunda sýna gögn að tækifæri kvenna og stúlkna í sama landi geti verið afar mismunandi. Indland er tekið sem dæmi. Kona á aldrinum 20-24 ára í fátæku sveitahéraði er sögð 21,8 sinnum ólíklegri til að hafa gengið menntaveginn og 5 sinnum líklegri til að hafa gengið í hjónaband fyrir 18 ára aldur en ung kona á sama aldri úr vel stæðri fjölskyldu í þéttbýli. Slík mismunun í menntun og tækifærum er einnig að finna meðal þróaðra þjóða, segir í skýrslu UN Women.
Fréttatilkynning UN Women: