Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs – frumvarp í opið samráð
Markmið nýrra laga er að íþrótta- og æskulýðsstarf sé öruggt umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldi sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar. Því er lagt til að heildarlög verði sett um þetta efni. Einnig er ráðgert að bætt verði við ákvæði í íþróttalög þar sem mælt er fyrir um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sem sjálfboðaliða, hafi þeir hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Slíkt ákvæði hefur verið í æskulýðslögum, nr. 70/2007, frá árinu 2007.
Sjá kynningu frumvarpsdraga í Samráðsgátt.
Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda þar inn umsagnir eða ábendingar.