Nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar
Þann 1. maí 2014 tekur gildi nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar og eldri samningur frá árinu 2003 fellur úr gildi. Samningurinn byggist á meginreglum Evrópureglugerðar um samræmingu almannatryggingakerfa sem öðlaðist gildi hér á landi 1. júní 2012, en veitir Norðurlandabúum í vissum tilvikum ríkari réttindi en sú reglugerð kveður á um.
Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið taka ekki til ríkisborgara ríkja sem ekki eru aðilar að þeim samningi. Norðurlandasamningurinn tekur hins vegar líkt og áður til ríkisborgara ríkja sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins sem búa á Norðurlöndunum og fara á milli norrænu ríkjanna. Hann er einnig mikilvægur fyrir Færeyinga og Grænlendinga þar sem þeir geta átt aðild að honum þótt þeir séu ekki aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Eins og áður segir veitir samningurinn Norðurlandabúum í vissum tilvikum ríkari réttindi en Evrópureglugerðin. Svokölluð heimflutningsregla verður t.d. áfram í gildi en hún er um greiðslu aukakostnaðar við dýrari ferðamáta við heimferð vegna veikinda eða slyss.
Almennt munu breytingarnar sem samningurinn felur í sér hafa jákvæði áhrif fyrir þá sem falla undir íslenska löggjöf á sviði almannatrygginga og fara á milli norrænu ríkjanna.
Helstu nýmæli samningsins snúa að atvinnuleysisbótum, útreikningi á fjölskyldubótum og auknu samstarfi á sviði endurhæfingar eins og hér er rakið:
Atvinnuleysisbætur
Ef einstaklingur sem fær greiddar atvinnuleysisbætur í heimalandinu ákveður að fara til annars norræns ríkis í atvinnuleit mun heimalandið annast greiðslu bótanna áfram, í stað þess að greiðslurnar færist á hendur ríkisins þar sem viðkomandi leitar atvinnu og er það í samræmi við ákvæði Evrópureglugerðarinnar. Svokölluð „fimm ára regla“ sem er í fyrri samningi og varðar undanþágu frá kröfum um tryggingar- eða starfstímabil verður áfram í gildi en er víkkuð út og tekur nú einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem eiga rétt í atvinnuleysistryggingakerfinu.
Útreikningur fjölskyldubóta
Samningurinn fjallar um það hvernig samræma skuli greiðslur fjölskyldubóta eigi foreldrar rétt frá fleiri en einu norrænu ríki og er markmiðið að skýra betur þær reiknireglur sem gilda að þessu leyti.
Aukið samstarf á sviði endurhæfingar
Meginreglan er sú að réttur einstaklinga til endurhæfingar fer samkvæmt löggjöf þess lands þar sem viðkomandi starfar þótt hann sé með búsetu í öðru norrænu ríki. Þegar svo háttar er þó talið einfaldara fyrir einstaklinginn að sækja endurhæfingu í því landi sem hann býr. Í nýja samningnum er kveðið á um að einstaklingur í þessari stöðu skuli eiga rétt á starfstengdri endurhæfingu í búseturíki sínu að frumkvæði stofnunar í starfslandinu og að hlutaðeigandi stofnanir beggja landa skuli vinna saman að því að veita einstaklingnum aðstoð og gera ráðstafanir sem auka möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði á nýjan leik.
Gagnkvæm aðstoð og samvinna stjórnvalda
Í samningnum er lögð áhersla á samvinnu hlutaðeigandi yfirvalda og stofnana og gagnkvæma aðstoð í einstökum málum, sérstaklega ef álitaefni er undir löggjöf hvaða ríkis málefni einstaklingsins skuli falla og skal áhersla lögð á að leysa úr málum einstaklinga þeim til hagsbóta eins og framast er unnt.
Samstarf sem stendur á gömlum merg
Allt frá árinu 1955 hafa gilt samningar milli Norðurlandaþjóðanna um samstarf til að tryggja félagslegt öryggi borgaranna við flutning á milli landanna. Þeir hafa verið endurskoðaðir nokkuð reglulega og nýir samningar gerðir eftir því sem þróun á félagslegri löggjöf þjóðanna hefur kallað á breytingar. Eins urðu töluverðar breytingar á samstarfi þjóðanna við gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994, en gildandi samningur sem fellur úr gildi með nýjum samningi er frá árinu 2003.