Mál nr. 85/2019 - Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 85/2019
Umgengni í þvottahúsi og á lóð. Læsingar á hurðum. Myndavélabúnaður.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með rafrænni álitsbeiðni, móttekinni 25. ágúst 2019, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, móttekin 20. september 2019, athugasemdir álitsbeiðanda, mótteknar 26. september 2019, og athugasemdir gagnaðila, mótteknar 14. október 2019, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 20. nóvember 2019.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið C, sem er í eigu málsaðila, og er álitsbeiðandi eigandi að neðri hluta hússins sem er 53,6% eignarhluti, en gagnaðili að efri hluta þess eða 46,4% eignarhluta. Ágreiningur er um umgengni í þvottahúsi, rafmagn, læsingar á hurðum, hundahald á lóð, umgengni um sameiginlega lóð, myndavélabúnað gagnaðila og eignarhlutdeild lóðar.
Kröfur álitsbeiðanda eru:
- Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að fjarlægja frystikistu og muni úr sameiginlegu þvottahúsi.
- Að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að nota rafmagn álitsbeiðanda.
- Að viðurkennt verði að útihurðin í þvottahúsinu eigi ávallt að vera læst.
- Að viðurkennt verði að hundahald sé bannað á lóð hússins.
- Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að fjarlægja muni og drasl af sameiginlegri lóð.
- Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að taka niður myndavélabúnað.
- Að viðurkennt verði að báðar útihurðir skuli vera læstar.
- Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eigi 53,6% í lóð hússins.
Í álitsbeiðni kemur fram að sameiginlegt þvottahús sé á neðri hæð hússins. Tveir inngangar séu í þvottahúsið, einn inn úr eldhúsi álitsbeiðanda, sem hann nýti eingöngu, og svo annar sem sé útihurð norðanmegin á húsinu. Þann inngang noti báðir aðilar.
Fyrir um fjórum til fimm árum hafi gagnaðili komið fyrir frystikistu í þvottahúsinu og sagt við sambýliskonu álitsbeiðanda að hann ætlaði að geyma hana þar í nokkrar vikur. Auk þess sé hann með ýmislegt dót, svo sem hundabúr og ónýta kaffivél, auk annarra hluta sem hann geymi í þvottahúsinu. Farið sé fram á að þetta verði fjarlægt, enda sé þessi aðstaða aðeins ætluð til að þvo þvott og þurrka.
Í apríl 2018 hafi álitsbeiðandi verið að tengja þurrkara og tekið eftir því að gagnaðili væri með frystikistuna og þvottavél á rafmagnsgrein álitsbeiðanda. Aðspurður hafi gagnaðili sagst ekki hafa vitað af þessu. Álitsbeiðandi hafi ekki efast um það en bent honum á að hann þyrfti að koma þessu í lag. Eftir smá þras hafi hann samþykkt það. Síðan séu liðnir 19 mánuðir án þess að nokkuð hafi gerst.
Það sé orðin föst venja hjá álitsbeiðanda að athuga hvort útihurðin í þvottahúsinu sé læst, enda sé hún ítrekað tekin úr lás. Útihurðin eigi ávallt að vera læst, enda séu bæði þvottavél og þurrkari álitsbeiðanda í rýminu ásamt þvotti. Það séu því töluverð verðmæti sem liggi þarna, sennilega ótryggð þar sem hurðin sé oft ólæst.
Lengi vel hafi hundur gagnaðila leikið laus í garðinum. Gagnaðili hafi örsjaldan þrifið hundaskít úr garðinum og álitsbeiðandi hafi þurft að sjá um það á hverju vori síðastliðin ár. Álitsbeiðandi hafi rætt þetta við gagnaðila í apríl 2018 og hann þá sagt að hann tíndi þetta upp af og til. Álitsbeiðandi hafi bent honum á að það þyrfti að gera þetta jafnóðum. Gagnaðili hafi þá sagt að nóg væri að gera þetta á sumrin þar sem enginn notaði garðinn yfir veturinn. Álitsbeiðandi hafi bent honum á að svo væri ekki og lagalega séð mætti hann ekki vera með hund á sameiginlegri lóð. Þær samræður hafi endað þannig að gagnaðili hafi ætlað að vera duglegri við að sinna þessu. Hann hafi staðið sig sæmilega í nokkrar vikur en síðan hafi þetta farið í sama farið. Snemma árs 2019 hafi álitsbeiðandi og sambýliskona hans fengið sér hund og hún farið með hundinn út í garð og tínt upp eftir hann jafnóðum og einnig eftir hund gagnaðila. Seint í júní 2019 hafi álitsbeiðandi og sambýliskona hans fengið nóg af þessu og sammælst um að engir hundar ættu að vera í garðinum, sbr. 33. gr. c. laga um fjöleignarhús.
Norðanmegin við húsið, við hliðina á bílskúrnum, geymi gagnaðili dekk, gömul reiðhjól, stillansa og fleira. Mikill sóðaskapur sé af þessu og slysahætta, enda leiki börn sér á lóðinni. Vestanmegin við lóðarmörkin sé lítill kofi sem ekkert leyfi sé fyrir og ýmislegt byggingarusl í kringum hann. Mikill kerfill hafi safnast þar og hafi eigandi í húsi nr. 12 beðið þau um að hreinsa þetta því að þetta sé mikið illgresi sem kæfi annan gróður. Undanfarin sumur hafi álitsbeiðandi reynt að bæla niður vöxtinn á kerflinum en aldrei getað komist að kofanum sökum þess hve erfitt sé að ganga um draslið.
Bílastæði séu sameiginleg en aðilar séu með sérafnot fyrir framan bílskúrshurðir. Gagnaðili hafi hins vegar tekið upp á því að geyma flöskupoka og annað rusl fyrir framan bílskúrshurð sína.
Álitsbeiðandi hafi tekið eftir tómum pappakassa utan um eftirlitsvélar. Um hafi verið að ræða sett fyrir fjórar vélar og upptökutæki. Þá hafi hann séð að í þakskyggni fyrir ofan svalir gagnaðila væri myndavél sem væri beint að bílastæðum. Álitsbeiðandi hafi gengið í kringum húsið og séð að gagnaðili væri með myndavél í glugga sem vísi í vestur yfir sameiginlega lóð. Þann 24. ágúst 2019 hafi hann séð að gagnaðili væri að setja upp þriðju myndavélina í þakskeggið á austurhlið hússins. Álitsbeiðandi hafi rætt við hann og spurt hvort hann væri með leyfi fyrir myndavélunum. Gagnaðili hafi þá sagt að hann væri búinn að skoða málið og að hann mætti þetta.
Fyrir nokkrum árum hafi álitsbeiðandi skipt um lás á tveimur útidyrahurðum og látið gagnaðila hafi lykil. Lás á bakhurðinni hafi verið orðinn lélegur og enginn lykill hafi verið að hinni hurðinni. Að framanverðu sé komið inn í lítinn sameiginlegan gang sem leiði hvor í sína íbúðina. Ómögulegt hafi reynst að hafa hurðirnar læstar þar sem gagnaðili taki þær jafnóðum úr lás. Álitsbeiðanda þyki ekki veita af því aukaöryggi að hafa þær læstar, auk þess sem hann viti ekki hver staða þeirra sé gagnvart tryggingafélaginu að öðrum kosti.
Þá hafi aðilar staðið í þrasi þar sem gagnaðili telji að hann eigi 50% í garðinum, þrátt fyrir að eiga minni eign. Samkvæmt þjóðskrá sé lóðin 846 fermetrar og sé álitsbeiðandi að greiða lóðarleigu fyrir 453,6 fermetra af henni. Álitsbeiðandi skilji það þannig að þar sem lóðin sé sameiginleg þá sé 50% afnotaréttur á hvora eign.
Í greinargerð gagnaðila segir að í þvottahúsinu sé inntak fyrir síma, ljósleiðara og heitt og kalt vatn. Þar sé gagnaðili með þvottavél sem hann noti nánast ekki, litla frystikistu og smávegis af dóti, svo sem kaffivél. Gagnaðili kannist ekki við hundabúr sem eigi að vera þarna. Allt þetta dót sé búið að vera þarna frá því áður en álitsbeiðandi hafi flutt í húsið og geti gagnaðili ekki skilið að það sé fyrir þeim. Varðandi rafmagnið þá sé þetta eina rafmagnið í þessu rými og sé búið að vera síðan húsið hafi verið byggt. Gagnaðili hafi ekki haft hugmynd um að það væri á grein sem tilheyri íbúð álitsbeiðanda fyrr en hann hafi nefnt það. Gagnaðili sé tilbúinn að láta setja rafmagn á grein hans en telur sanngjarnt að kostnaður vegna þess sé sameiginlegur þar sem um sé að ræða mjög mikla vinnu.
Hurðin norðanmegin á húsinu inn í þvottahúsið hafi ekki verið læst frá því að gagnaðili hafi flutt inn árið 2000 og jafnvel lengur. Það valdi honum miklum ama að álitbeiðandi skuli læsa henni því það sé ekkert virkt útiljós fyrir ofan dyrnar og því afar óþægilegt að reyna að finna skrána í myrkri haldandi á þvotti, auk þess sem rennan sé biluð og því leki vatn á mann þegar staðið er fyrir utan dyrnar. Þetta hafi valdið gagnaðila óþægindum, sérstaklega þegar hann hafi verið að þvo og álitsbeiðandi hafi læst á milli þess sem gagnaðili hafi verið að bera þvott á milli hæða. Gagnaðili sé nánast búinn að gefast upp á því að nota þetta rými vegna þessa og sé kominn með þvottavél í íbúð sína. Gagnaðili sjái ekki ástæðu til þess að hafa hurðina læsta þar sem álitsbeiðandi geti læst inn í íbúð sína úr þvottahúsi.
Gagnaðili viti upp á sig skömmina varðandi hundahaldið að hluta til. Hann hafi verið eini maðurinn sem hafi notað garðinn síðan hann hafi flutt í húsið og því hafi hann ekki alltaf þrifið hundaskítinn. Gagnaðili hafi bætt úr þessu og þetta vandamál sé ekki lengur til staðar. Hann sé með skriflegt leyfi fyrir hundahaldi.
Gagnaðili eigi stillansa og reiðhjól sem hann geymi fyrir aftan húsið. Hvort tveggja sé búið að vera þar frá því áður en álitsbeiðandi hafi flutt í húsið. Aðrir hlutir sem séu á bak við húsið tilheyri álitsbeiðanda eða fyrri eiganda íbúðar hans. Til standi að gera lagfæringar á húsnæðinu og þyki gagnaðila því ekki tímabært að fjarlægja stillansana áður en framkvæmdum sé lokið og sjái hann reyndar ekkert athugavert við að geyma þá þarna.
Kofinn á lóðinni sé búinn að vera þar frá árinu 2003 eða 2004. Áður en gagnaðili hafi komið honum fyrir hafi hann rætt við bæjarfélagið og þáverandi eigendur íbúðar álitsbeiðanda. Auk þess hafi hann átt samráð við nágranna í næsta húsi og fengið góðfúslegt leyfi til að koma honum fyrir. Timburgrindurnar sem standi við kofann, sem tilheyri fyrri eiganda íbúðar álitsbeiðanda, sé gagnaðili sammála um að beri að fjarlægja. Hvorki sé af þeim not né prýði. Álitsbeiðandi hafi ekki minnst á þessar grindur við gagnaðila. Þá vilji gagnaðili einnig losna við kerfilinn en kofinn hafi ekkert með hann að gera.
Gagnaðili sé sammála því að dósa- og flöskupokar og annað rusl eigi ekki heima á lóðinni. Aftur á móti hafi verið nokkrir pokar frá honum fyrir framan bílskúr hans sem hann hafi verið með á leið í endurvinnslu þegar bíllinn hans hafi bilað. Þeir hafi dagað uppi en hafi nú verið fjarlægðir.
Gagnaðili hafi ítrekað lent í því að tjón hafi orðið á bílum hans. Af þeim sökum hafi hann sett upp myndavélar til að komast að því hver væri að verki og til að fyrirbyggja frekara tjón. Hann hafi sett upp myndavél sem hann hafi beint að bíl sínum í þeirri von að sjá hver ætti í hlut. Það hafi ekki dugað og gagnaðili orðið fyrir tjóni sem myndavélin hafi ekki náð og því hafi hann bætt annarri myndavél við sem sé þó ekki komin í gang. Myndavélin sem sé inni í íbúð gagnaðila nái engu en hann hafi kveikt á henni í þeirri von að hún hafi fælingarmátt, sé einhver að reyna að sniglast í garðinum að nóttu til og verði var við ljósið á henni. Hugmynd gagnaðila sé að mynda lóðina og innkeyrsluna til að koma í veg fyrir frekara tjón.
Hvorki álitsbeiðandi né sambýliskona hans hafi minnst á útidyrahurðina. Líkt og hurðin á bak við húsið hafi hún alla tíð staðið ólæst og myndi gagnaðili kjósa að hafa það þannig áfram þar sem hann eigi unglingsstrák sem sé iðulega lyklalaus og sé gagnaðili með lyklabox fyrir framan hurðina hjá honum inni í stigaganginum svo að hann komist inn. Eigi að læsa ystu hurðinni þurfi hann að gera frekari ráðstafanir varðandi það.
Varðandi eignarhluta þá sé gildandi eignaskiptasamningur á þá leið að eignarhluti íbúðar á neðri hæð sé 55% og eignarhluti efri hæðar 45%. Hitakostnaður skiptist eftir þessum hlutföllum. Lóð, gangur og þvottahús/geymsla sé sameiginlegt.
Vorið 2017 hafi álitsbeiðandi stungið upp stóran hluta af lóðinni sem snúi út að götu og gagnaðili haldið að hann myndi sá í sárið en ekkert hafi verið gert og nú sé þetta nánast eingöngu illgresi ásamt örlitlu grasi, en gagnaðili hafi sett grasfræ á blettinn. Gagnaðili fari fram á að álitsbeiðandi lagfæri þetta. Það þurfi að þökuleggja allt svæðið svo að þetta verði almennilegt. Það sé greinilegur hæðarmunur þar sem þau hafi hætt að stinga upp. Þetta sé hrikalegt lýti. Þetta hafi plagað gagnaðila mjög mikið því að allir sem eigi leið hjá sjái þetta.
Þá nefnir gagnaðili ýmis dæmi um atriði sem sýni fram á samskipta- og samráðsleysi aðila.
Í athugasemdum álitsbeiðanda segir meðal annars að sett hafi verið ljósapera yfir umrædda hurð veturinn 2017-2018 sem sé búin að loga síðan. Þá þurfi einfaldlega að gera við umrædda rennu.
Af greinargerð gagnaðila megi ráða að hann geri sér grein fyrir því að það þurfi leyfi fyrir myndavélunum. Gagnaðili segi að myndavélarnar séu forvörn en engar merkingur séu til staðar um að umrætt svæði sé vaktað. Þá segi hann að myndavélarnar geti gagnast báðum aðilum en hann hafi ekki látið álitsbeiðanda vita að hann hafi sett þær upp.
Fyrir nokkrum árum hafi álitsbeiðandi spurt gagnaðila hvort hann ætti lykil að framhurðinni. Hann hafi sagt að lykilinn hefði týnst. Skipt hafi verið um lás og gagnaðili fengið lykil samdægurs.
Álitsbeiðandi hafi tekið upp flötinn að framan þar sem þetta hafi verið að meirihluta arfur og það hafi verið minni vinna að moka þessu upp heldur en að tína arfinn. Það hafi alltaf verið ætlunin að setja túnþökur strax en það hafi láðst og álitsbeiðandi taki skömmina á sig.
Í athugasemdum gagnaðila segir að það sé meira mál en hann hafi haldið að leggja rafmagn frá rafmagnstöflu hans og niður. Sé það rétt sem álitsbeiðandi hafi sagt í athugasemdum sínum að það sé rafmagn frá grein gagnaðila þarna þá sé þetta mál úr sögunni. Það hafi alla tíð verið dót inni í þessu rými og geti gagnaðili ekki skilið hvers vegna það megi ekki vera þarna. Útiljósið í þvottahúsinu virki núna en það sé alltaf slökkt og það valdi gagnaðila óþægindum.
Það sem gagnaðili eigi á lóðinni sé skúr, reiðhjól, stillans og þvottasnúrur sem álitsbeiðanda sé velkomið að nota.
Gagnaðili hafi fengið þær upplýsingar þegar hann hafi verið að setja upp myndavélarnar að hann mætti taka upp svæði hans svo lengi sem hann væri ekki að mynda út á götu og almenn svæði. Hann hefði átt að tala við álitsbeiðanda áður en hann hafi sett þær upp en hafi verið svo einbeittur að reyna að fyrirbyggja frekara tjón að það hafi misfarist.
III. Forsendur
Í 2. mgr. 35. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að eigendum og öðrum afnotahöfum sé óheimilt að nota sameiginlegt húsrými eða lóð til annars en það sé ætlað.
Aðilar deila um afnot gagnaðila á sameiginlegu þvottahúsi en þar hefur hann komið fyrir frystikistu og geymir þar ýmsa muni, til dæmis kaffivél. Álitsbeiðandi hefur ekki samþykkt þessa hagnýtingu þvottahússins. Kærunefnd telur að það falli ekki undir hefðbundna notkun á þvottahúsinu að nýta það sem geymslu eða koma þar fyrir frystikistu. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd að gagnaðila sé þetta óheimilt, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um fjöleignarhús, og verður því fallist á kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að fjarlægja frystikistu og muni úr þvottahúsinu.
Álitsbeiðandi lýsir því að þvottavél gagnaðila hafi verið tengd við rafmagnsgrein álitsbeiðanda. Gagnaðili segir að hann hafi ekki áttað sig á því og sé reiðubúinn til að leggja rafmagnsgrein sem tengist rafmagnstöflu hans en telur að kostnaður við slíka framkvæmd skuli vera sameiginlegur. Álitsbeiðandi segir að í þvottahúsinu sé rafmagnsinnstunga sem tilheyri gagnaðila en hún sjáist illa. Ágreiningslaust er með aðilum að gagnaðila sé óheimilt að nota rafmagnsinntak álitsbeiðanda án hans samþykkis og er því ekki frekar fjallað um þá kröfu.
Sameiginleg útidyrahurð er á framanverðu húsinu og er aðgengi að þvottahúsinu í gegnum sameiginlega útidyrahurð aftan á húsinu. Gagnaðili fer fram á að hurðirnar sé að staðaldri ólæstar. Kærunefnd telur að þar sem í því sé fólgið öryggi að útidyr séu læstar verði allir eigendur að ljá því samþykki sitt eigi þær að staðaldri að vera ólæstar, sbr. 2 mgr. 35. gr. laga um fjöleignarhús. Ljóst er að slíkt samþykki liggur ekki fyrir og er því fallist á kröfu álitsbeiðanda um að útidyr hússins skuli vera læstar að staðaldri.
Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. c. laga um fjöleignarhús mega hundar ekki vera í sameign eða á sameiginlegri lóð nema þegar verið er að færa dýrin að og frá séreign. Skulu þau ávallt vera í taumi og í umsjá manns sem hefur fulla stjórn á þeim.
Álitsbeiðandi lýsir því að óþrifnaður fylgi hundi gagnaðila á sameiginlegri lóð þar sem hann þrífi ekki upp eftir hann og að gagnaðili leyfi hundi sínum að vera á lóðinni. Eins og fram kemur í framangreindu lagaákvæði mega hundar aðeins vera á sameiginlegri lóð þegar verið er að færa þá að og frá séreign. Er því fallist á kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila sé óheimilt að vera með hund á lóð hússins að undanskildum þeim tilvikum sem skilgreind eru í lagaákvæðinu.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um fjöleignarhús ber sérhverjum eiganda og afnotahafa skylda til að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til eigenda og afnotahafa við hagnýtingu sameignar og fara í hvívetna eftir löglegum reglum og ákvörðunum húsfélagsins varðandi afnot hennar. Í 2. mgr. 35. gr. sömu laga segir að eigendum og öðrum afnotahöfum sé óheimilt að nota sameiginlegt húsrými eða lóð til annars en því sé ætlað. Þá er eigendum og öðrum afnotahöfum skylt að ganga vel og þrifalega um sameiginlega lóð og gæta þess sérstaklega í umgengni sinni að valda ekki öðrum í húsinu óþægindum eða ónæði, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Álitsbeiðandi segir að gagnaðili geymi dekk, gömul reiðhjól, stillansa og fleira á sameiginlegri lóð hússins. Þá hafi hann komið fyrir kofa á lóðinni án leyfis. Gagnaðili segir að hann eigi reiðhjól og stillansa en annað á lóðinni tilheyri fyrri eigendum íbúðar álitsbeiðanda. Þá hafi kofinn staðið á lóðinni frá árinu 2003 eða 2004 og uppsetning hans farið fram með leyfi allra þáverandi eigenda.
Kærunefnd telur að það falli ekki undir hefðbundna hagnýtingu lóðar að geyma þar stillansa þegar framkvæmdir eru ekki yfirstandandi og því beri gagnaðila að fjarlægja þá. Aftur á móti telur kærunefnd að það falli almennt undir hefðbundna hagnýtingu að geyma þar nothæf reiðhjól. Óljóst er hverjum annað lausafé á lóðinni tilheyri og því telur kærunefnd að aðilar skuli sameinast um tiltekt og/eða að fjarlægja það.
Hvað kofann varðar þá greinir gagnaðili frá því að hann hafi verið settur upp með leyfi allra eigenda á sínum tíma og hefur því ekki verið sérstaklega mótmælt af hálfu álitsbeiðanda. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd gögn málsins ekki benda til annars en að hann hafi verið settur upp með leyfi eigenda og verður því ekki fallist á að gagnaðila beri að fjarlægja hann.
Álitsbeiðandi óskar viðurkenningar á því að gagnaðila beri að taka niður myndavélar sem hann hefur komið fyrir utan á bílskúr og í þakskyggni hússins. Um er að ræða uppsetningu á búnaði á sameign hússins. Telur kærunefnd að samþykki einfalds meirihluta dugi til að taka ákvörðun um að setja upp eftirlitsmyndavélar á sameign hússins, sbr. D-lið 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús. Það samþykki liggur ekki fyrir og ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að búnaðurinn verði fjarlægður.
Ágreiningslaust er að hlutdeild álitsbeiðanda í lóðinni er 53,6% í lóð hússins. Kveðið er á um í 3. mgr. 34. gr. fjöleignarhúsalaga að réttur til að hagnýta sameign fari ekki eftir hlutfallstölum og allir eigendur hafi jafnan hagnýtingarrétt þótt hlutfallstölur séu misháar. Hafa aðilar þannig jafnan rétt til nýtingar á sameiginlegri lóð hússins.
Þá gerir gagnaðili kröfu um að álitsbeiðandi lagfæri lóðina eftir framkvæmdir hans þar sem hluti lóðarinnar hafi verið stunginn upp. Álitsbeiðandi segir í athugasemdum sínum að það hafi alltaf verið ætlunin að setja þegar í stað túnþökur yfir flötinn sem hafi verið tekinn upp en það hafi láðst. Ekki verður annað ráðið en að álitsbeiðandi hyggist lagfæra þetta. Þar með telur kærunefnd að ekki sé ágreiningur hér um.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að fjarlægja frystikistu og muni úr þvottahúsi.
Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé óheimilt að vera með hund á lóð hússins nema verið sé að flytja hann að eða frá séreign.
Það er álit kærunefndar að útidyr hússins skuli að staðaldri vera læstar.
Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að fjarlægja myndavélabúnað.
Það er álit kærunefndar að afnot af lóðinni séu jöfn.
Reykjavík, 20. nóvember 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson