Ný reglugerð um úthlutun hjálpartækja vegna blindu, sjónskerðingar og daufblindu
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur sett nýja reglugerð um úthlutun hjálpartækja á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Ráðherra undirritaði reglugerðina þegar hann heimsótti stofnunina 12. mars síðastliðinn en þann sama dag var tilkynnt um inngöngu hennar í Enviter, Evrópusamtök miðstöðva fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga.
Reglugerðin var í meginatriðum samin af starfsfólki Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar og var leitað umsagnar hagsmunaaðila við gerð hennar. Hún tekur til úthlutunar á hjálpartækjum sem nauðsynleg eru fólki vegna blindu, sjónskerðingar og daufblindu og er ætlað er að auka og viðhalda færni, auðvelda þátttöku þess í daglegu lífi, efla sjálfstæði og auka lífsgæði. Listi yfir búnað og tæki sem stofnunin úthlutar er í fylgiskjali með reglugerðinni.