Hoppa yfir valmynd
4. maí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 177/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 4. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 177/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030004

 

ra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. mars 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Víetnams (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara hinn 24. apríl 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. desember 2020, var umsókninni synjað þar sem kærandi hefði ekki lagt fram nauðsynleg fylgigögn með umsókn, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar. Hinn 2. febrúar 2021 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, var beiðnin samþykkt og umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar synjað með vísan til 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 3. mars 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda, ásamt fylgiskjölum, hinn 16. mars 2022.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar kæranda hafi komið í ljós að gögn með umsókninni hafi verið ófullnægjandi. Við gagnaöflun hafi vaknað grunur um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Hafi kærandi komið tvívegis til viðtals hjá Útlendingastofnun, dagana 12. maí 2021 og 1. júlí 2021 en maki hafi ekki mætt þrátt fyrir boðun þess efnis. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf hinn 24. nóvember 2021 þar sem rakin hafi verið þau atriði sem bentu til þess gruns. Lögmaður kæranda hafi sent Útlendingastofnun bréf hinn 7. desember 2021 þar sem fullyrðingum stofnunarinnar hafi verið hafnað.

Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi, enda hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

 

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að sú niðurstaða Útlendingastofnunar, að rökstuddur grunur hafi verið til staðar um að hjúskapur kæranda og maka hennar sé til málamynda, sé röng og byggi á hæpnum forsendum sem kærandi hafi ítrekað hafnað með bæði sterkum rökum og gögnum sem sýni fram á hið gagnstæða. Kærandi telur að við meðferð málsins hafi Útlendingastofnun hvorki gætt rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né meðalhófs samkvæmt 12. gr. sömu laga. Þá sé ljóst að rökstuddur grunur sé frumforsenda þess að Útlendingastofnun sé heimilt að synja útgáfu um dvalarleyfi á grundvelli þess að um málamyndahjúskap sé að ræða, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda hafi stofnunin ekki sýnt fram á að um rökstuddan grun sé að ræða í máli hennar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurða kærunefndar nr. 173/2021 og 44/2022.

Í ákvörðun sinni vísi Útlendingastofnun til þess að kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Þótt það sé rétt þá séu fyrir því sérstakar og tímabundnar ástæður. Eiginmaður kæranda glími við fíknivanda og hafi þau reglulega dvalið tímabundið í húsnæði, sem hafi einkennst af óreglu og óhreinlæti, ásamt öðru fólki sem oftast hafi einnig glímt við fíknivanda. Þær aðstæður hafi valdið kæranda gríðarlegum ótta enda glími hún hvorki við áfengis- né fíknivanda. Þá hafi maki kæranda stundum látið sig hverfa í nokkra daga í senn vegna neyslu sinnar. Kærandi hafi því ekki séð sér annað fært en að flytja tímabundið til vinkonu sinnar, […], í apríl 2021. Kærandi hafi síðar leitað skjóls hjá annarri vinkonu sinni, […], sem kærandi hafi kynnst á ferðalagi í […] árið 2018. Kærandi sé enn búsett hjá […], enda sé ómögulegt fyrir þau hjón að vera búsett saman að svo stöddu þar sem eiginmaður kæranda sé í afplánun í fangelsinu á Hólmsheiði. Kærandi telur að eðlilegt sé að víkja frá ákvæði fyrri efnisliðar 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga með vísan til síðari efnisliðar sama lagaákvæðis, enda fari ekki á milli mála að aðstæður hjá kæranda og eiginmanni hennar séu bæði sérstakar og tímabundnar.

Fram kemur í greinargerð kæranda að Útlendingastofnun hafi fullyrt að kærandi hafi greint frá því að vinkona hennar, […], hafa hvatt hana til að flytja til Íslands, aðstoðað hana við flutninginn og að kærandi hafi endurgreitt […] fargjaldið strax við komuna til landsins. Kærandi hafnar þeirri fullyrðingu. Hún sé misskilningur byggður á tungumálaörðugleikum kæranda. Þegar kærandi hafi kynnst […] í […] árið 2016 hafi Mai hvatt kæranda til að ferðast til Íslands sem ferðamaður í gegnum ferðaskrifstofu. Ekkert hafi hins vegar orðið af þessu ferðalagi og í kjölfarið hafi […] endurgreitt fargjaldið til kæranda. Í málsgögnum Útlendingastofnunar séu skjöl frá ferðaskrifstofunni sem staðfesti þetta, m.a. bókun á hótelherbergi í Reykjavík. Þá sé í ákvörðun Útlendingastofnunar fullyrt að maki kæranda hafi hringt í stofnunina og óskað upplýsinga um umboðsmann kæranda, auk þess sem hann hafi hvorki getað greint réttilega frá nafni hennar né fæðingardegi. Kærandi telur að ekki sé ósennilegt að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar umrætt símtal hafi átt sér stað og því ekki getað greint réttilega frá nafni kæranda og fæðingardegi hennar. Kærandi hafi jafnframt ekki búið með maka sínum á þessum tíma og því eðlilegt að maki hennar hafi ekki vitað hver umboðsmaður hennar væri. Þá sé í ákvörðun Útlendingastofnunar gert tortryggilegt að skrifleg samskipti á milli kæranda og maka hennar séu af skornum skammti, að beiðnum kæranda um aðstoð sé ekki svarað og að maki kæranda sinni illa samskiptum við hana. Það megi rekja til fíknivanda maka kæranda en stundum líði margir dagar á milli samskipta þeirra á milli. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi jafnframt fram að myndir af þeim hjónum séu fáar og teknar við fá tilefni. Það skýrist af því að maki kæranda vilji ekki sitja fyrir á myndum, auk þess sem hann sé sjaldan í slíku ástandi að hægt sé að ná sómasamlegri mynd af þeim hjónum.

Kærandi hafnar því alfarið að hjúskapur þeirra sé, eða hafi verið, til málamynda. Kærandi hafi komið hingað til lands hinn 8. apríl 2019 eftir að hafa kynnst eiginmanni sínum, en á milli þeirra hafi myndast ástarsamband og hafi þau rætt saman um að ganga í hjúskap. Hinn 12. apríl 2019, stuttu eftir komu kæranda til landsins, hafi þau trúlofast og hinn 24. apríl 2019 hafi þau gengið í hjónaband. Fyrst um sinn hafi hjúskapurinn gengið vel en síðustu mánuði hafi reynt umtalsvert á hjónaband þeirra vegna fíknivanda maka kæranda. Kærandi hafi ekki vitað af fíknivanda eiginmanns síns áður en þau hafi kvænst. Þá hafi Útlendingastofnun borið að taka tillit til menningarmismunar en í Víetnam sé samfélagið umtalsvert íhaldssamara varðandi hjúskaparmál og þannig sé skilnaðartíðni lág. Hafi Útlendingastofnun þarna vanrækt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

Fram kemur í greinargerð kæranda að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ýjað að því, án haldbærs rökstuðnings, að þriðji aðili sjái um fjármál kæranda og hafi mögulega verið milliliður um að útvega henni dvalarleyfi hér á landi gegn greiðslu. Því sé haldið fram að vinkonur kæranda, […] eða […], hafi fjármagnað för hennar hingað til lands og umsókn hennar um dvalarleyfi. Sú kenning Útlendingastofnunar um að […] hafi greitt fyrir ferð kæranda hingað til lands sé byggð á áðurnefndum misskilningi sem rekja megi til tungumálaörðugleika kæranda. Hvað […] varði vísi Útlendingastofnun m.a. til þess að hún hafi vottað umboð lögmanna kæranda sem bendi að mati stofnunarinnar til þess að […] sjái um fjármál kæranda varðandi umsókn hennar um dvalarleyfi. Sú röksemdarfærsla sé að mati kæranda fjarstæðukennd og byggð á misskilningi. […] hafi vottað umboð núverandi lögmanns kæranda, sem og fyrrverandi lögmanns hennar, þar sem hún hafi verið viðstödd fundi þeirra sem vinkona og túlkur kæranda. Þá hafi Útlendingastofnun þótt benda til þess að […] hefði umsjón með fjármálum kæranda í tengslum við umsókn hennar um dvalarleyfi þar sem […] hafi vottað umboð lögmanns kæranda og að kærandi hafi greint frá því að hún hafi ekki greitt lögmanni sínum. Hið rétta sé að kærandi hafi talið sinn fyrrum lögmann hafa rukkað of hátt gjald fyrir þá þjónustu sem hann hafi veitt henni og því slitið viðskiptum við hann.

Fram kemur að kærandi og […] hafi verið vinkonur lengi en þær hafi þekkst síðan árið 1993. Þær hafi kynnst í gegnum frænku […] sem hafi verið skólasystir kæranda. Kærandi viðurkenni að þessar upplýsingar stangist á við þær sem hún hafi gefið upp í viðtali hjá Útlendingastofnun. Ástæða þess að kærandi hafi tjáð stofnuninni að hún þekkti ekki […] hafi verið sú að hún hafi verið stressuð í umræddu viðtali, fundist sér ógnað og óttast að hún myndi koma vinkonu sinni í vandræði. Kærandi líti á […] sem sína bestu vinkonu enda hafi hún stutt við bakið á kæranda og veitt henni stuðning hér á landi. Eini grundvöllurinn fyrir kenningu Útlendingastofnunar, um að […] hafi komið á málamyndahjónabandi milli kæranda og maka hennar, sé stutt bréf sem borist hafi Útlendingastofnun þar sem fram komi fullyrðingar um að […] stundi gróðasöm viðskipti í tengslum við útvegun dvalarleyfa í gegnum málamyndahjónabönd. Í bréfinu sé m.a. fullyrt að […] innheimti tugþúsundi bandaríkjadollara fyrir slíka gjörning. Kærandi bendir á að ekki sé að finna neinar óeðlilegar millifærslur á milli maka kæranda og […] á bankayfirliti hans sem Útlendingastofnun hafi afrit af undir höndum. Bréfið sé að mati kæranda ótraustvekjandi, en þar sé farið með fleipur um grundvallaratriði eins og númer á víetnömsku nafnskírteini kæranda en það passi ekki við það nafnskírteinisnúmer sem gefið sé upp í vegabréfi kæranda. Þá gefi fjárhagur kæranda, eiginmanns hennar eða […] ekki efni til að ætla að fótur sé fyrir þessum ásökunum en fyrirtæki […] hafi t.a.m. verið í gjaldþrotameðferð síðan í september 2021. Málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda og fullyrðingar stofnunarinnar í garð […] hafi að mati kæranda einkennst af offorsi og með því hafi stofnunin brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Hvað varði þá fullyrðingu Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sýnt fram á það hvernig hún hyggist framfleyta sér hér á landi þá hafi kærandi bæði framvísað launaseðlum sem sýni að hún sé í fullri vinnu hér á landi og bankayfirlit sem sýni að bankainnistæða hennar sé 700.000.000 dong eða rúmar fjórar milljónir íslenskra króna. Þar að auki sé kærandi skuldlaus við innheimtumenn ríkissjóðs, greiði skatta hér á landi og hafi aldrei sóst eftir félagsbótum frá sínu sveitarfélagi né heldur þegið slíkar bætur.

Í greinargerð kemur fram að aðstæður kæranda og eiginmanns hennar séu tímabundnar og sérstakar í skilningi ákvæðis síðari málsliðar 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar um að meðalhófs skuli gæta við stjórnvaldsákvarðanir verður að telja að Útlendingastofnun hefði betur getað gætt meðalhófs við ákvörðun sína með því að veita kæranda tímabundið dvalarleyfi og sjá hvort það skyldi leysast úr þessum aðstæðum. Jafnframt hafi stofnunin ítrekað brugðist rannsóknarskyldu sinni í þessu máli, m.a. með því að láta duga að vísa í hin ýmsu ákvæði í lögum um útlendinga án þess þó að leggja mat á þá hagsmuni sem í húfi séu, þ.e. þær sérstöku og tímabundnu ástæður sem liggi að baki þess að kærandi og eiginmaður hennar búi ekki saman, sbr. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þannig hefði Útlendingastofnun auðveldlega átt að geta nálgast upplýsingar þess efnis að eiginmaður kæranda væri í afplánun en það hafi stofnunin ekki gert. Þá séu hagsmunir Útlendingastofnunar af brottvísun kæranda hverfandi gagnvart hagsmunum kæranda og eiginmanns hennar að halda samvistum sínum áfram í skjóli friðhelgi heimilisins. Kærandi hafi lagt fram bæði ljósmyndir af sér og eiginmanni sínum og skjáskot af samskiptum þeirra á milli en Útlendingastofnun hafi talið það vera af skornum skammti. Í því samhengi bendir kærandi á að kærunefnd útlendingamála hafi talið fullnægjandi að umsækjandi um dvalarleyfi vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara framvísi ljósmyndum af sér og maka sínum við einungis tvö tilefni, sbr. úrskurð nr. 248/2020. Þá telur kærandi að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi tekið óhóflega langan tíma eða rétt tæp þrjú ár og brjóti það gegn fyrirmælum 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða.

Með vísan til þess sem fram hafi komið krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. febrúar 2022 verði felld úr gildi, enda sé ákvörðunin og málsmeðferð stofnunarinnar háð annmörkum sem geri það að verkum að hún sé ógildanleg í skilningi stjórnsýslulaga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Jafnframt lægi fyrir að kærandi og maki hennar hefðu ekki fasta búsetu á sama stað. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi hér á landi, sbr. 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Ráða má af ákvörðuninni að Útlendingastofnun byggi mat sitt einkum á því að kærandi tali hvorki ensku né íslensku og að ekki sé vitað til þess að maki kæranda tali tungumál hennar. Hafi borið á því í samskiptum við þau að þau þekki ekki til grunnupplýsinga um hagi eða dvalarstað hvors annars. Kærandi hafi komið til Íslands hinn 8. apríl 2019, eftir að hafa fengið samþykkta áritun í gegnum franska sendiráðið í Hanoi í þeim tilgangi að heimsækja kaþólskan skóla í Frakklandi, og trúlofast maka sínum hér á landi fjórum dögum síðar. Þá hafi þau gengið í hjónaband 24. apríl 2019, eða rúmum tveimur vikum eftir komu kæranda til landsins, og kærandi sótt um dvalarleyfi sama dag á grundvelli hjónabands við maka. Þá liggi fyrir að maki kæranda sé skráður til heimilis að […] í Reykjavík og að kærandi sé búsett hjá vinkonu sinni, […], að […] í Reykjavík. Misræmi hafi verið í framburði kæranda, m.a. varðandi tengsl hennar við fólk á Íslandi. Kærandi hafi greint frá því að hafa kynnst konu að nafni […] eftir komu sína til Íslands sem samræmist ekki ljósmyndum frá árinu 2011 af þeim saman á samfélagsmiðlum. Þá hafi Útlendingastofnun borist skrifleg ábending um að […] stundi vafasöm viðskipti hér á landi í tengslum við hjúskap fólks frá Víetnam og Taílandi við íslenska ríkisborgara, m.a. í tilviki kæranda.

Kærandi og maki hennar voru boðuð í viðtal hjá Útlendingastofnun en kærandi mætti ein í viðtal hinn 12. maí 2021. Í viðtalinu var kærandi hvött til að hafa uppi á maka sínum og að þau myndu bæði mæta til viðtals síðar. Kærandi kom aftur í viðtal hjá Útlendingastofnun hinn 1. júní 2021 án maka síns. Að mati kærunefndar eru atriði í framburði kæranda á reiki sem vekja grun um að til hjúskapar hennar og maka hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Þannig greindi kærandi m.a. frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að vinkona hennar, […], hafi hvatt sig til þess að flytja til Íslands, aðstoðað sig við það og kærandi hafi endurgreitt henni fargjaldið við komuna til landsins. Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að það sé misskilningur sem byggður sé á tungumálaörðugleikum kæranda. […] hafi hvatt kæranda til að ferðast til Íslands sem ferðamaður í gegnum íslenska ferðaskrifstofu. Ekkert hafi hins vegar orðið af því ferðalagi og í kjölfarið hafi […] endurgreitt fargjaldið til kæranda. Getur kærunefnd ekki tekið undir þá málsástæðu að um misskilning hafi verið að ræða vegna tungumálaörðugleika kæranda, enda naut kærandi aðstoðar túlks í báðum viðtölum hjá Útlendingastofnun og talaði sitt móðurmál. Þá greindi kærandi jafnframt frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hafa kynnst vinkonu sinni, […], fyrst eftir að hafa komið hingað til lands. Þegar rannsókn Útlendingastofnunar leiddi í ljós ljósmyndir af kæranda og […] saman allt frá árinu 2011 á samfélagsmiðlum viðurkenndi kærandi síðar að þær upplýsingar sem hún hafi veitt í viðtali hjá stofnuninni stangist á við ljósmyndirnar. Þá er framangreint á skjön við þær upplýsingar sem kærandi gaf í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 12. maí 2021 en þar kvaðst hún einungis þekkja áðurnefnda […], sem hún bjó þá hjá, fyrir utan maka sinn. Verður ekki annað ráðið af þeim svörum sem kærandi gaf í viðtölunum en þar hafi hún reynt að villa um fyrir stjórnvöldum vegna dvalarleyfisumsóknar sinnar. Gaf kærandi þá skýringu að hún hafi verið stressuð í umræddu viðtali, fundist sér ógnað og óttast að hún myndi koma vinkonu sinni í vandræði. Kærunefnd hefur farið yfir viðtöl Útlendingastofnunar við kæranda og er ljóst að þar var kæranda veitt rúmt svigrúm til svara auk þess sem henni var leiðbeint um að ef hún óttaðist aðila hér á landi eða skuldaði pening vegna framlagningar dvalarleyfisumsóknarinnar gæti stofnunin aðstoðað hana. Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda ekki til þess fallnar að draga úr þeim vafa sem uppi er, enda verður ekki séð hvers konar vandræði kærandi hefði getað komið vinkonu sinni í með því að segja satt og rétt frá því hvenær þær hafi raunverulega kynnst.

Samkvæmt gögnum málsins búa kærandi og maki hennar ekki saman líkt og 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga gerir kröfu um. Kærandi og maki hennar gengu í hjúskap hér á landi hinn 24. apríl 2019 og kvað kærandi þau hafa búið saman fyrst um sinn, eða þar til í apríl 2021 þegar hún hafi flutt til vinkonu sinnar vegna fíknivanda eiginmannsins. Fram að því kvað kærandi þau hafa búið á mismunandi stöðum ásamt öðru fólki sem oftast hafi einnig glímt við fíknivanda. Kærandi byggir umsókn sína m.a. á því að aðstæður hennar og maka hennar séu bæði sérstakar og tímabundnar í skilningi síðari málsl. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi laganna kemur fram að með ákvæðinu sé það skilyrði sett að hjón þurfi að búa saman og skuli halda saman heimili. Borið hafi á því að umsækjendur búi ekki saman en segist eigi að síður vera í hjúskap. Í sumum tilvikum geti það verið eðlilegt vegna atvinnu annars eða beggja hjóna. Þegar slíkt sé uppi sé heimilt að veita undanþágu frá því að hjón eða sambúðaraðilar búi saman ef einungis um tímabundið ástand sé að ræða, t.d. vegna náms eða vinnu. Undanþáguna skuli túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur og eigi hún ekki við um tilvik þar sem aðstandandi hér á landi sætir eða mun sæta fangelsisrefsingu.

Að mati kærunefndar bera aðstæður kæranda og maka hennar ekki með sér að um sérstakar eða tímabundnar aðstæður sé að ræða í skilningi 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, en nefndin horfir m.a. til þess að tæp þrjú ár eru liðin frá því þau gengu í hjónaband og hafa þau ekki búið saman síðastliðið ár vegna fíknivanda maka hennar sem hefur samkvæmt framburði kæranda glímt við fíkn allt þeirra samband. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 12. maí 2021 kvaðst kærandi ekki hafa heyrt frá maka sínum síðan í apríl það ár og vissi ekki hvar hann væri niðurkominn. Þá bera skjáskot af samskiptum kæranda og maka hennar með sér að samskipti þeirra á milli séu gloppótt og að mestu einhliða af hálfu kæranda. Af gögnunum að dæma svarar maki kæranda almennt seint og illa og einkennast svör hans af áhuga- og sinnuleysi í garð kæranda. Þá bera gögn málsins ekki með sér að samskipti þeirra á milli séu mikil eða efnisrík. Auk skriflegra samskipta kvað kærandi þau hafa rætt saman símleiðis. Gögn málsins bera hins vegar með sér að kærandi tali hvorki ensku né íslensku og naut hún aðstoðar túlks í viðtölum hjá Útlendingastofnun, auk þess sem hún kvað vinkonu sína, […], hafa túlkað fyrir sig á fundum með lögmönnum sínum. Þá er ekkert sem bendir til þess að maki kæranda tali víetnömsku. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn sem styðja við þá málsástæðu að kærandi og maki hennar hafi átt í samskiptum fyrir komu hennar til Íslands og því ljóst að hjúskap þeirra bar mjög brátt að, eða 16 dögum eftir komu hennar til landsins.

Með vísan til misræmis í framburði kæranda um tengsl hennar við fólk hér á landi, gagna málsins og búsetuaðstæðna kæranda og maka hennar er það mat kærunefndar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis fyrir kæranda, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá hefur að mati nefndarinnar ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis. Samkvæmt framansögðu veitir hjúskapur kæranda og maka hennar því ekki rétt til dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda um að Útlendingastofnun hafi ekki gætt meðalhófs við meðferð málsins tekur kærunefnd fram að þegar 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga á við eru ekki vægari úrræði tiltæk en synjun á umsókn um dvalarleyfi. Þá gerði kærandi jafnframt athugasemd við málshraða stofnunarinnar. Eins og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsókn hinn 24. apríl 2019 og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu hinn 7. desember 2020, eða rúmum 19 mánuðum síðar. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar og kemur hún því ekki til efnislegrar skoðunar í úrskurði þessum, þ.m.t. hvort málsmeðferð hafi verið hnökralaus. Hinn 2. febrúar 2021 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu hinn 15. febrúar 2022, eða rúmum 12 mánuðum síðar. Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Slík sjónarmið eiga sérstaklega við þegar kemur að dvalarleyfisumsóknum á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, þá hvort sem endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi sé sú að ákvæði 8. mgr. 70. gr. standi í vegi fyrir dvalarleyfi eða ekki. Kærunefnd hefur áður komist að þeirri niðurstöðu í sambærilegum málum að málshraði Útlendingastofnunar hafi farið í bága við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga, sjá m.a. úrskurð kærunefndar nr. 248/2020 frá 19. ágúst 2020 og úrskurð nr. 252/2020 frá 16. júlí 2020. Þó verður ekki hjá því litið að málshraði málsins hefur að einhverju leyti dregist vegna háttsemi kæranda, s.s. með því að leggja ekki fram nauðsynleg gögn við meðferð fyrra stjórnsýslumáls hennar hjá Útlendingastofnun auk þess sem rannsókn Útlendingastofnun var nokkur að umfangi. Þá lítur kærunefnd til þess að í stjórnsýslurétti teljast tafir á meðferð máls ekki almennt til annmarka sem leiði til ógildingar á ákvörðun nema sérstök lagafyrirmæli komi til, en slík fyrirmæli er ekki að finna í VIII. kafla laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd enn fremur komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun og getur dráttur á málinu einn og sér því augljóslega ekki orðið til þess að veita beri kæranda dvalarleyfi á Íslandi.

Að því er varðar vísun kæranda til úrskurða kærunefndar nr. 248/2020, 173/2021 og 44/2022 sem hún telur sambærilega sínu máli telur kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila þeirra mála séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

 

 

 

Úrskurðarorð

:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta