Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ræddi við erlenda fjölmiða um jarðhræringarnar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti fjölmiðlamiðstöðina í Hafnarfirði. Fór hún í sjónvarpsviðtöl hjá miðlum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Brasilíu, Frakklandi og Kína.

„Það er gríðarlega mikilvægt að sporna við allri upplýsingaóreiðu í tengslum við eldvirknina á Reykjanesskaga í fjölmiðla- og samfélagsmiðlaumfjöllun erlendis. Skilaboðin okkar til ferðamanna eru mjög skýr, Ísland er opið og öruggt land til að heimsækja. Jarðhræringarnar eru staðbundnar, hugað er að öryggi íbúa og ferðamanna í hvívetna og flugáætlanir til og frá landinu hafa ekki raskast,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ráðherra var meðal annars spurð út í mögulegar sviðsmyndir vegna jarðhræringa á Reykjanesi og áhrif þeirra á ferðaþjónustuna. Ræddi hún um samhug og stuðning við Grindvíkinga sem hún sagði í forgangi að hlúa að, flugsamgöngur og viðbragðsáætlun stjórnvalda og ferðaþjónustunnar.

Miðstöð fyrir erlend fjölmiðlateymi var opnuð um helgina en Ferðamálastofa sér um rekstur og umsjón hennar í samstarfi við Íslandsstofu, SafeTravel og Almannavarnir.

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri telur að um 40 til 50 fjölmiðlateymi hafi verið á landinu þegar mest var, flest frá Evrópu og Bandaríkjunum. Um tíu fjölmiðlateymi höfðu vinnuaðstöðu í fjölmiðlamiðstöðinni síðustu daga. Miðstöðin verður opin meðan þörf er á.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta