Mál nr. 16/2013, úrskurður 5. september 2013
Mál nr. 16/2013
Eiginnafn/millinafn: Grethe
Hinn 5. september 2013 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 16/2013, en erindið barst nefndinni þann 7. febrúar 2013.
Sótt er um millinafnið Grethe og til vara eiginnafnið Grethe. Með bréfi 3. apríl 2013 óskaði mannanafnanefnd eftir afstöðu þess einstaklings sem erindið laut að um notkun nafnsins Grethe. Svar barst mannanafnanefnd með tölvupósti 10. apríl. Mannanafnanefnd óskaði jafnframt nánari upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um nafnið með símtali þann 19. ágúst. Bárust þær upplýsingar mannanafnanefnd með tölvupósti 20. þess mánaðar.
Samkvæmt 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 getur einstaklingur borið eitt millinafn, auk eiginnafns eða eiginnafna. Millinöfn eru ekki bundin við kyn, og verða því gefin hvort heldur er stúlku eða dreng. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal millinafn dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nöfn sem annaðhvort hafa unnið sér hefð sem eiginnöfn karla eða kvenna eru hins vegar ekki heimil sem millinöfn.
Nafnið Grethe telst ekki dregið af íslenskum orðstofnum. Það fullnægir því ekki skilyrðum laga um mannanöfn til að heimilt sé að fallast á það sem millinafn.
Til þess að heimilt sé að fallast á nafnið Grethe sem eiginnafn, eins og sótt er um til vara, verður skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn að vera fullnægt. Ákvæðið er þrjár málsgreinar og hljóðar svo:
Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“
Ekki reynir hér á ákvæði 2. eða 3. mgr. Nafnið Grethe telst heldur ekki sem slíkt brjóta gegn íslensku málkerfi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. Hins vegar reynir hér á ákvæði 1. og 3. málsl. 1. mgr. 5. gr., þ.e. bæði álitaefni um eignarfallsendingu nafnsins og rithátt þess. Í báðum þeim tilvikum ber hins vegar að fallast á nafn hafi það unnið sér hefð í íslensku máli.
Um skýringu á hugtakinu hefð hefur mannanafnanefnd stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur.
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Rannsókn á notkun eiginnafnsins Grethe hér á landi leiðir í ljósi að nafnið bera, eða hafa borið, að minnsta kosti samtals 6 konur sem myndu fullnægja hefðarskilyrðunum, væru þær á lífi. Þrjár þeirra eru enn lifandi. Engin kona með þetta nafn er skráð í manntalinu frá 1910, en í skrá yfir dána einstaklinga sem haldin er af Þjóðskrá kemur fram að ein kona með þetta nafn, sem nú er fallin frá, var fædd árið 1909. Sú kona mun hins vegar hafa flust til Íslands nokkru eftir fæðingu. Líklega mun nafnið fyrst hafa verið gefið barni hér á landi árið 1915. Með vísan til framangreinds, og með hliðsjón af þeirri viðmiðun sem fram kemur í c-lið 1. tölul. hefðarreglna mannanafnanefndar, telur mannanafnanefnd að hefð sé fyrir eiginnafninu Grethe (kvk.) í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.
Taka má fram að samtals hafa að minnsta kosti 25 konur borið nafnið Grethe í þjóðskrá hvort sem um er að ræða einstaklinga sem búið hafa hér eða ekki eða verið íslenskir eða erlendir ríkisborgarar, lifandi eða látnir.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Grethe er samþykkt.