Kæra vegna ákvörðunar tollstjóra um að synja um útgáfu á skírteini vegna endurútflutnings á bifreiðum
[…]
[…]
[…]
[…]
Reykjavík 26. september 2014
Tilv.: FJR14050092/16.2.2
Efni: Ráðuneytið vísar til kæru sem dagsett er 23. júní 2014. Kærandi er [X].
Kærandi krefst þess að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun tollstjóra frá 3. apríl 2014 um að synja kæranda um útgáfu á EUR.1 skírteini vegna endurútflutnings hans á bifreiðum af [Y] gerð sem framleiddar eru í Þýskalandi.
Málavextir og málsástæður
Í kæru er málsatvikum þannig lýst að kærandi sé umboðsmaður og innflytjandi bifreiða af gerðinni [Y] sem eru að öllu leiti framleiddar í Þýskalandi. Hefur hann selt nokkurn fjölda þessara bifreiða aftur út til Evrópu. Kærandi lýsir því þannig að nauðsynlegt sé að flytja bifreiðarnar hingað til lands til þess að ræsa megi innra tölvukerfi bifreiðanna áður en þær eru síðan seldar aftur til Evrópu. Þessa framkvæmd segir kærandi hafa gengið án vandræða þar til fyrir 12-18 mánuðum síðan þegar Tollstjóri synjaði um útgáfu EUR.1 skírteinis fyrir bifreiðar í eigu kæranda.
Þann 20. mars 2014 sendi embætti Tollstjóra kæranda bréf þar sem gerð var grein fyrir breytingu á framkvæmd embættisins varðandi útgáfu EUR.1 skírteina yfir EES-uppruna fyrir ökutækin. Með vísan til þess bréfs hafnaði síðan embætti Tollstjóra útgáfu EUR.1 skírteinis með bréfi dagsettu 3. apríl 2014 og var sú ákvörðun kærð til fjármála- og efnhagsráðuneytisins þann 23. júní 2014.
Tollstjóri rökstyður breytinguna á framkvæmd embættisins varðandi útgáfu EUR.1 skírteina í áðurnefndu bréfi til kæranda frá 20. mars 2014. Þar segir að ákvörðun um uppruna vöru, heimild hennar til fríðindameðferðar við innflutning hjá samningsaðila og skilyrði fyrir útgáfu upprunasannana í tengslum við fríverslunarsamninga séu ávallt byggðar á upprunareglum þess samnings sem við á í hvert skipti. Upprunareglur fríverslunarsamnings Íslands við Evrópubandalagið frá árinu 1972, með gildistöku árið 1973, er að finna í bókun 4 við samninginn.
Tollstjóri telur að skilyrði fyrir því að upprunasönnun, EUR.1 skírteini eða EUR. MED eða yfirlýsing um uppruna á vörureikningi, sé gefin út við útflutning frá Íslandi til Evrópubandalagsins, nú ESB, að um íslenska upprunavöru sé að ræða. Vísar tollstjóri til 1. mgr. 16. gr. bókunar 4 en samkvæmt henni skuli framleiðsluvörur sem eiga uppruna sinn í Evrópubandalaginu njóta fríðindameðferðar við innflutning til Íslands og upprunavörur frá Íslandi skuli njóta fríðindameðferðar við innfluting til aðildarlanda Evrópubandalagsins gegn því skilyrði að gild upprunasönnun sé lögð fram.
Tollstjóri vísar til 2. gr. bókunar 4 við fríverslunarsamning Íslands við EB um skilgreiningu á því hvaða vörur teljast upprunavörur í skilningi samningsins. Það séu í fyrsta lagi vörur sem eru að öllu leyti heimafengnar í skilningi 5. gr. bókunarinnar sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. bókunarinnar. Tollstjóri telur [Y] bifreiðar þær sem til umfjöllunar eru í þessu máli ekki uppfylla það skilyrði þar sem ökutækin eru ekki framleidd á Íslandi og eru ekki unnin úr hráefni úr jörðu hér á landi. Í öðru lagi getur verið um vörur að ræða sem rekja uppruna sinn innan EES í samræmi við bókun 4 við EES-samninginn, sbr. c-lið 2. gr. 1. gr. bókunar 3 við samninginn. Þar sem að um sértækan samning er að ræða með svæðisuppruna, er nauðsynlegt auk þess sem að öll skilyrði bókunar 4 skili uppfyllt, að fyrir liggi formleg upprunasönnun fyrir uppruna innan EES- svæðisins skv. bókun 4 við EES-samninginn. Eins og fram hefur komið í samskiptum Tollstjóra við kæranda telur embættið að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt í umræddu máli, þar sem ökutækjunum fylgja við innflutning til Íslands yfirlýsingar um CE-uppruna, þ.e.a.s. uppruna innan Evrópubandalagsins, en ekki yfir EES-uppruna.
Til þess að ökutæki geti haft íslenskan uppruna í skilningi fríverslunarsamnings Íslands við EB þurfa skilyrði b-liðar 2. mgr. 1. gr. bókunar 3 við samninginn að liggja fyrir, en það gildir fyrir vörur sem framleiddar eru á Íslandi úr hráefni sem ekki er að öllu leiti heimafengið, að því skilyrði uppfylltu að slík hráefni hafi undirgengist nægjanlega aðvinnslu á Íslandi í skilningi 6. gr. bókunarinnar. Til þess þyrfti aðvinnsla í samræmi við listareglur í viðauka II við samninginn að liggja fyrir. Sérstök listaregla fyrir vörulið tollskrár nr. 8703, sem ökutækið fellur undir, er ekki til staðar, svo að kaflaregla fyrir 87. kafla gildir. Hún er sú að framleiðsla skuli liggja fyrir þar sem heildarverðmæti utansvæðishráefnis, sem notað er til framleiðslu ökutækisins skuli ekki vera meira en 40% af verksmiðjuverði vörunnar. Hér á landi er ekkert unnið að bifreiðunum, heldur liggur einungis fyrir tímabundinn innflutningur og endurútflutningur til ESB, auk þess sem umhleðsla milli skipa á sér stað. Ekki er heldur um aðgerðir að ræða sem falla undir 7. gr. þar sem taldar eru upp þær vinnsluaðferðir sem ekki teljast fullnægjandi til að veita uppruna.
Vegna þessa telur Tollstjóri að ökutækin geti ekki fengið íslenskan uppruna í samræmi við ákvæði bókunar 3 við fríverslunarsamning Íslands við EB. Skilyrði fyrir fríðindameðferð í samræmi við fríverslunarsamning Íslands við EB við innflutning til ESB er að um íslenska upprunavöru sé að ræða, sbr. ákvæði 1. mgr. 16. gr. bókunar 3 við samninginn. Upprunavara frá EB fær hins vegar einungis notið fríðindameðferðar við innflutning til Íslands. Af framangreindu telur Tollstjóri leiða að skilyrði fyrir útgáfu EUR.1 skírteinis í samræmi við ákvæði fríverslunarsamnings Íslands við EB ekki til staðar. Tollstjóri telur sér því óheimilt að gefa út upprunasönnun fyrir ökutækið sem um ræðir á grundvelli samningsins.
Eins og fram kemur í kæru er kærandi ósammála afstöðu Tollstjóra til málsins og bendir á að skv. 120. gr. samningsins um EES skuli ákvæði hans ganga framar ákvæðum í gildandi tvíhliða eða marghliða samningum sem Efnahagsbandalag Evrópu annars vegar og eitt eða fleiri ríki innan EFTA hins vegar eru bundin af enda varði samningarnir sömu efnisatriði. Kærandi segir óumdeilt að samningurinn um EES taki til kafla 25.-97. í samræmdu vörunúmeraskránni og að bifreiðar falli þar undir. Reglur samningsins um EES eigi því einar að gilda um þær framleiðsluvörur sbr. ákvæði í 8. gr. samningsins.
Í kæru nefnir kærandi að í 2. gr. bókunar 4 segi að framleiðsluvara teljist upprunin á Evrópska efnahagssvæðinu í skilningi samningsins ef hún er að öllu leyti fengin eða hefur hlotið nægilega aðvinnslu á Evrópska efnahagssvæðinu. Yfirráðasvæði samningsaðila, ásamt landhelgi, sem þessi samningur tekur til, skal teljast eitt yfirráðasvæði að því er þetta varðar. Ennfremur vísar kærandi til 17. gr. bókunarinnar sem fjallar um reglur er varða útgáfu EUR.1 skírteina. Þar segir að tollyfirvöld skuli gefa út slík skírteini ef viðkomandi framleiðsluvara geti talist upprunin á EES og fullnægir að öðru leyti ákvæðum bókunarinnar.
Ráðuneytið leitaði umsagnar embættis Tollstjóra vegna stjórnsýslukærunnar þann 13. ágúst 2014. Álit Tollstjóra barst ráðuneytinu þann 5. september 2014.
Tollstjóri tekur undir túlkun kæranda á 120. gr. EES samningsins um að tvíhliða fríverslunarsamningur Íslands við Evrópubandalagið frá 1972 eigi ekki við í máli kæranda og sé það í samræmi við breytta framkvæmd Tollstjóra við útgáfu EUR.1 skírteina árið 2012. Hins vegar hafi kærandi við innflutning umræddra bifreiða, lagt fram upprunasönnun frá útflytjanda um EU (ESB) uppruna vörunnar og þar með sótt um fríðindameðferð við innflutning á grundvelli tvíhliða fríverslunarsamningsins. Við útflutning bifreiðanna hafi kærandi síðan óskað eftir útgáfu upprunasönnunar í formi EUR.1 skírteinis með EES uppruna í stað EU uppruna. Tollstjóri mótmælir ekki því sem fram kemur í kæru um að bifreiðarnar teljist upprunnar á EES svæðinu skv. 2. gr. bókunar 4 við EES samninginn. Aftur á móti telur embætti Tollstjóra að réttar sannanir séu ekki fyrir hendi fyrir útgáfu EUR.1 skírteinis með EES uppruna, enda hefði öðrum fríverslunarsamningi verið beitt við útgáfu upprunalegu upprunasönnunarinnar og varan flutt inn sem EU upprunavara. Til þess að Tollstjóri megi gefa út upprunavottorð með merktum EES uppruna þarf að byggja á upprunasönnun sem jafnframt tilgreinir EES uppruna og beitir þannig sama samningi. Við útgáfu EUR.1 skírteinis eða annarrar upprunarsönnunar verður útflytjandi að velja hvaða samning hann styðst við til að öðlast fríðindameðferð. Við útgáfu á EUR.1 skírteini sem byggir á upprunasönnun annars EUR.1 skírteinis eða upprunayfirlýsingar verður að vísa í sama samning og notast var við í hinni upprunalegu upprunasönnun. Tollstjóri telur sig ekki hafa heimild né forsendur til að gefa út EUR. 1 skírteini sem myndi með þessum hætti breyta uppruna umræddrar vöru úr EU í EES.
Forsendur
Í 120. gr. EES-samningsins kemur fram að ef ekki sé kveðið á um annað í samningnum skuli ákvæði hans ganga framar ákvæðum í gildandi tvíhliða eða marghliða samningum sem Efnahagsbandalag Evrópu annars vegar og eitt eða fleiri EFTA-ríki hins vegar eru bundin af að því leyti sem samningurinn tekur til sömu efnisatriða.
Í 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn kemur fram að til þess að framleiðsluvörur teljist upprunnar á EES svæðinu skuli þær vera fengnar að öllu leyti á EES í skilningi 4. gr. eða vera framleiðsluvörur fengnar á EES, sem í eru notuð efni sem eru ekki að öllu leyti fengin þar, að því tilskildu að slík efni hafi hlotið nægilega aðvinnslu á EES í skilningi 5. gr.
Í 5. gr. bókunar 4 við EES-samninginn kemur fram að að því er varði 2. gr. skulu framleiðsluvörur, sem eru ekki heimafengnar að öllu leyti, teljast hafa hlotið nægilega aðvinnslu hafi skilyrðum í skrá í II. viðauka verið fullnægt. Skilyrði þessi kveða á um aðvinnslu efna sem eru ekki upprunaefni og eru notuð við framleiðslu þeirra vara sem samningurinn tekur til og gilda þau einungis um slík efni. Af þeim sökum skal framleiðsluvara, sem telst upprunavara vegna þess að skilyrðum sem sett eru í skrá um hana er fullnægt og er notuð við framleiðslu annarrar vöru, ekki þurfa að fullnægja skilyrðum sem gilda um vöruna sem hún er sett saman við, og skal ekki taka tillit til þess að efnin sem notuð eru við framleiðslu hennar eru ekki upprunaefni.
Niðurstaða
Við innflutning bifreiðanna sem um ræðir í málinu lagði kærandi fram upprunasönnun frá útflytjanda um EU (ESB) uppruna þeirra og sótti þar með um fríðindameðferð við innflutning á grundvelli tvíhliða fríverslunarsamnings Íslands við Evrópubandalagið frá 1972. Við útflutning bifreiðanna óskaði síðan kærandi eftir útgáfu upprunasönnunar í formi EUR.1 skírteinis með EES uppruna í stað EU uppruna. Þrátt fyrir að enginn ágreiningur sé um að varan sé upprunnin EES svæðinu eru ekki réttar sannanir fyrir hendi fyrir útgáfu EUR.1 skírteinis með EES uppruna þar sem öðrum fríverslunarsamningi var beitt við útgáfu upprunalegu upprunasönnunarinnar og var flutt inn sem EU upprunavara.
Til þess að embætti Tollstjóra megi gefa út upprunavottorð með EES uppruna þarf að byggja á upprunasönnun sem jafnframt tilgreinir EES uppruna og beitir þannig sama samningi. Við útgáfu EUR.1 skírteinis eða annarrar upprunasönnunar verður útflytjandi að velja hvaða samning hann styðst við til að fá fríðindameðferð. Við útgáfu EUR.1 skírteinis sem byggir á upprunasönnun annars EUR.1 skírteinis eða upprunayfirlýsingar verður því að vísa í sama samning og notast var við í hinni upprunalegu upprunasönnun. Embætti Tollstjóra hefur ekki heimild eða forsendur til að gefa út EUR.1 skírteini sem myndi með þessum hætti breyta uppruna umræddra bifreiða úr EU í EES.
Úrskurðarorð
Ákvörðun embættis Tollstjóra að synja kæranda útgáfu á EUR.1 skírteini fyrir umræddar bifreiðar hans er staðfest.
Fyrir hönd ráðherra