Hoppa yfir valmynd
14. október 2017 Innviðaráðuneytið

Umferðarlagabrot, almenningssamgöngur og bílprófsaldur meðal umræðuefna á samgönguþingi unga fólksins

Jón Gunnarsson setti samgönguþing unga fólksins í morgun. - mynd

Á sjötta tug ungmenna frá flestum framhaldsskólum landsins situr nú samgönguþing unga fólksins í Reykjavík. Fjallað er um ýmsar hliðar samgöngumála og umferðar í erindum og umræðuhópum. Í lok þingsins verður samþykkt ályktun sem beint var til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Á fyrri hluta þingsins voru flutt erindi um framtíðarsýn í samgöngum, umferðarslys, umferðarlagabrot, hjólreiðar, almenningssamgöngur, umferðaröryggi og um frumvarp til nýrra umferðarlaga. Á síðari hluta þingsins var í umræðuhópum fjallað meðal annars um sektir, bílprófsaldur, refsingar og fleira.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti þingið og þakkaði fundargestum fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í þinginu. Hann sagði hugmyndina með samgönguþingi unga fólksins vera þá að kalla eftir samráði frá ungu fólki um ýmis mál sem tengjast akstri og umferð, svo sem akstri undir áhrifum, um bílprófsaldur, tekjutengingu sekta og hertari refsingar við umferðarlagabrotum. Hann sagði ábendingar frá lögreglu, ríkissaksóknara og ýmsum hagsmunaaðilum nauðsynlegar í þessu sambandi en mikilvægt væri einnig að ungt fólk fengi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á lagabreytingar.

Mörg álitaefni við endurskoðun umferðarlaga

Hann minntist í upphafi á endurskoðun á umferðarlögum sem nú er unnið að í ráðuneytinu og sagði þar mörg álitaefni til skoðunar, til dæmis hvort endurskoða þurfi sérstaklega reglur um notkun reiðhjóla. Þá sagði hann ábendingar hafa borist um létt bifhjól og hvort setja þurfi reglur um flutning farþega á slíkum hjólum. Ráðherra minntist einnig á notkun snjalltækja undir stýri og sagði núgildandi umferðarlög ekki taka á því atriði. Brýnt væri því að kveða á um víðtækara bann við notkun snjalltækja.

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í Háskóla Íslands, fjallaði um framtíðarsýn í samgöngum. Hann sagði meðal annars að helstu markmið samgöngubóta væru meiri hagvöxtur, bætt umferðaröryggi og minni umhverfisáhrif. Einnig sagði hann frá hugmyndum um sjálfkeyrandi bíla og ýmsa fleiri samgöngumáta sem væru á tilraunastigi.

Hákon Atli Bjarkason rekstrarstjóri ræddi efnið: Lífið eftir umferðarslys og greindi þar frá eigin reynslu eftir umferðarslys þegar honum varð það á að sofna undir stýri og meiðsli sem hann hlaut þegar bíll hans fór útaf en hann var ekki í bílbelti.

Vilhjálmur Árnason, fyrrverandi lögregluþjónn og ökukennari, fjallaði um hvernig hægt væri að fækka ölvunarakstursbrotum. Var niðurstaða hans meðal annars sú að því yrði ekki náð nema að allir tækju höndum saman um viðhorfsbreytingu til ölvunaraksturs. Fram kom í máli hans að hlutfall ungs fólks í slysum vegna ölvunaraksturs sé hærra en þeirra eldri.

Árni Davíðsson, kennari í hjólreiðum frá Hjólafærni, fjallaði um hjólreiðar sem samgöngumáta og sagði hann fyllilega raunhæfan. Sagði hann tölur sýna að hjólreiðar hefðu aukist síðustu ár enda hefðu þær marga kosti ekki aðeins sem góðan samgöngumáta heldur gætu bætt heilsuna. Þær væru ódýrasti og vistvænasti ferðamátinn og þær væru skemmtilegar, það væri reynsla sín. Einnig staðhæfði hann að hjólreiðar væru fljótlegri ferðamáti en með bíl á styttri vegalengdum.

Valgerður Gréta Benediktsdóttir, samgöngusérfræðingur hjá Strætó, fjallaði um af hverju það borgaði sig að nota almenningssamgöngur. Hún sagði sparnað fólginn í því fyrir einstaklinginn miðað við að kostnað við rekstur einkabíls, það yki á hreyfingu fólks og hægt væri að nýta tímann í annað þegar ferðast væri í almenningsvagni. Þá sagði hún að fyrir samfélagið í heild þýddi það minni mengun, minna viðhald á vegum og aukið umferðaröryggi. Að loknu erindi Valgerðar var spurt hvort næturstrætó væri í sjónmáli og sagði hún það í undirbúningi.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri hjá Samgöngustofu, ræddi um öryggi í umferðinni og forvarnir. Hann sagði m.a. frá heimsóknum fulltrúa Samgöngustofu í framhaldsskóla þar sem sýndar væru myndir frá umferðarslysum og ýmislegt fræðsluefni kynnt. Einnig sýndi hann nokkur myndbönd, m.a. um notkun snjalltækja undir stýri og hvaða afleiðingar slíkt getur haft.

Valgerður B. Eggertsdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu, kynnti drög að frumvarp til nýrra umferðarlaga. Hún sagði breytta tíma kalla á umfjöllun um ýmis ný svið sem ekki væru í núgildandi lögum, svo sem um notkun snjalltækja, hjólreiðar og létt bifhjól, ljósaskyldu, standandi farþega og sjálfkeyrandi bíla. Meðal álitamála væru möguleg lækkun á leyfilegum áfengismörkum, hækkun bílprófsaldurs, hvort miða eigi sektir við tekjur og um efri aldursmörk bílstjóra í farþega- og vöruflutningum.

Á síðari hluti þingsins starfa umræðuhópar og fjallar hver hópur um eftirtalin efni:

  • Sektir: Hækkun sekta við notkun snjalltækja og tekjutenging sekta.
  • Akstur undir áhrifum: Áfengismörk við 0,5 prómill, 0,2 prómill eða 0,0 prómill.
  • Bílprófsaldur og nám til bílprófs.
  • Létt bifhjól og reiðhjól sem samgöngutæki.
  • Hertar refsingar og lengri sviptingartími við ítrekuðum umferðarlagabrotum.
  • Samgöngur í framtíðinni.

 

  • Þingfulltrúar kynntu sig í upphafi fundar. - mynd
  • Fulltrúar frá flestum framhaldsskólum landsins sóttu samgönguþing. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta