Sendiherra afhendir trúnaðarbréf á Sri Lanka
Guðni Bragason afhenti Gotabaya Rajapaksa forseta Sri Lanka trúnaðarbréf sitt hinn 1. febrúar 2022 sem sendiherra gagnvart ríkinu með aðsetri í Nýju-Delhí. Bar sendiherra forsetanum kveðjur forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, og sagðist myndu vinna heils hugar að því að efla samskipti ríkjanna. Viðstaddir trúnaðarbréfsafhendinguna voru dr. Gamini Lakshman Pieris utanríkisráðherra og Gamini Senarath forsetaritari. Samskipti Íslands og Sri Lanka hafa lengi verið góð og hafði Ísland sendiskrifstofu í höfuðborginni Colombo frá 2005 til 2009, sem sinnti aðallega samstarfi á vettvangi sjávarútvegs. Töluverðir samstarfsmöguleikar eru einnig á sviði ferðamennsku.
Sendiherra heimsótti Hafrannsóknarstofnun Sri Lanka (NARA), samstarfsstofnun Sjávarútvegsskólans (FTP) og átti fund með forstjóranum, dr. H.M.P Kithsiri og samstarfsmönnum hans. Frá Sri Lanka hafa á þriðja tug sérfræðinga komið til þjálfunar á Íslandi í sjávarútvegsskólanum, og tveir fengið styrk til meistaranáms og doktorsnáms. Sjávarútvegsskólinn hefur einnig staðið fyrir námskeiðum á sviði sjávarútvegs um öryggi fiskiskipa og báta og verkefnastjórnun með 113 þátttakendum.
Íslenska friðargæslan (ICRU) tók þátt í norrænu friðargæsluverkefni í Sri Lanka (Sri Lankan Monitoring Mission, SLMM), sem stofnað var til 2002, og störfuðu margir Íslendingar í SLMM-sveitinni.