Nr. 194/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 194/2019
í stjórnsýslumálum nr. KNU19020076, KNU19020077,
KNU19020078 og KNU19020079
Kæra […], […],
[…] og […]
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I.Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 26. febrúar 2019 kærðu […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir M) og […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 18. febrúar 2019 um að synja kærendum og uppkomnum börnum þeirra, […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærendur krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar út gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kærendum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að þeim verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vísað er til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þar sem kemur fram að maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæla því í mót. Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II.Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. mars 2018. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 29. og 30. janúar 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 18. febrúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 26. febrúar 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 18. mars 2019 ásamt fylgigögnum. Kærandi M kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála ásamt talsmanni sínum þann 11. apríl 2019. Þann 17. apríl 2019 barst kærunefnd viðbótarathugasemdir kærenda ásamt frekari fylgigögnum.
III.Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærendur séu í hættu í heimaríki vegna starfa M sem ljósmyndari þar sem hann hafi týnt minnislykli með ljósmyndum sem hafi verið teknar í veislu hjá valdamiklum manni. Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV.Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi búið í borginni […] í […] fram til ársins 2014 þegar […] hafi tekið borgina yfir. Í kjölfarið hafi kærendur sest að í […] þar sem þau hafi dvalið þar til þau hafi þurft að flýja heimaríki. Í […] hafi M starfað sem ljósmyndari hjá fyrirtæki er nefnist […] frá árinu 2014. Hafi M lagt fram gögn á borð við ráðningarsamning við fyrrnefnt fyrirtæki og meðlimaskírteini í stéttarfélagi ljósmyndara því til stuðnings. Í desember 2017 hafi M verið beðinn um að taka ljósmyndir í brúðkaupsveislu dóttur valdamikils herforingja […] og […] að nafni […]. Veislan hafi farið fram að kvöldlagi þann 7. desember 2017 á heimili herforingjans í hverfi í […]. Veislugestir hafi verið nánustu ættingjar og vinir herforingjans. M heldur því fram að veislan hafi verið mun frjálslegri en gengur og gerist í hinu íhaldssama samfélagi […], en karlar og konur hafi drukkið áfengi og konur hafi klæðst efnislitlum fötum. Þá hafi […] beðið M sérstaklega um að taka myndir af tveimur bræðrum sínum sem séu búsettir í Dusseldorf í Þýskalandi. Eftir að hafa lokið störfum í veislunni hafi M tekið leigubíl heim til sín og hafi hann komið heim um miðnætti. Þegar heim hafi verið komið hafi M áttað sig á því að hann hafi týnt minnislykli sem hafi haft að geyma allar þær ljósmyndir sem M hafi tekið í veislunni. Daginn eftir hafi M leitað að minnislyklinum en án árangurs. Sama dag hafi M farið til vinnuveitanda síns til að greina honum frá því sem hafi gerst, en yfirmenn M hafi brugðist illa við og kveðið þetta vera vandamál M sem hann þyrfti að leysa sjálfur.
Í greinargerð kemur fram að í kjölfarið hafi maður á vegum […] krafið M um myndirnar og hótað M ef minnislykillinn fyndist ekki. M hafi borist tvö eða þrjú símtöl þar sem honum hafi verið hótað. Eftir hádegi þann 15. desember 2017 hafi bílum verið ekið að heimili kærenda og út úr þeim hafi stigið vopnaðir menn en að sögn M hafi einn mannanna verið sonur […]. Hafi mennirnir hringt dyrabjöllu á húsi kærenda og hafi K farið til dyra þar sem M hafi verið sofandi. Mennirnir hafi haft í hótunum við K og krafist þess að fá afhentar ljósmyndirnar úr veislunni. Mennirnir hafi slegið til K og hrint henni við útidyrnar. K hafi verið óttaslegin og öskrað yfir meðferðinni. A hafi heyrt öskur móður sinnar og þegar hann hafi komið til dyra hafi mennirnir ráðist á hann. Mennirnir hafi snúið upp á hönd A með þeim afleiðingum að A hafi farið úr axlarlið. Við þetta hafi M vaknað en þegar hann hafi komið fram hafi nágrannar kærenda hjálpað K á fætur jafnframt sem nágrannarnir hafi aðstoðað við að reka mennina á brott. Fyrir utan hús kærenda hafi mennirnir hótað kærendum að sverta heiður fjölskyldunnar með því að gera eitthvað við K og B.
Í kjölfar árásarinnar hafi kærendur farið í felur hjá frænda M í útjaðri […]. B hafi á þessum tíma verið við nám í […] háskólanum í […] og hafi hún haldið áfram að mæta í skólann. Þann 20. eða 21. desember 2017 hafi B verið á leið úr skólanum þegar hún hafi komið auga á samskonar bíla og hafi áður komið að heimili kærenda og hafi vopnaðir menn staðið við bílana. B kveðst hafa kannast við mennina en tveir þeirra hafi komið að heimili hennar áður. Þar sem mennirnir hafi hótað að eyðileggja heiður B hafi hún verið viss um að þeir hafi ætlað að ræna henni. B hafi verið hrædd og ekki þorað út úr skólabyggingunni. Hafi B leitað til kennara í skólanum sem hafi aðstoðaða hana við að komast út bakdyramegin og hafi kennarinn svo keyrt B til fjölskyldu hennar.
Eftir þetta atvik hafi M leitað til lögreglunnar til að tilkynna ofbeldið og hótanirnar. Lögreglan hafi hins vegar ekkert aðhafst í málinu og sagt M að gagnvart svo valdamiklum manni geti lögreglan ekkert aðhafst. M kveðst eiga vin í lögreglunni sem hafi sagt honum það sama jafnframt sem lögreglustjórinn hafi sagt M að eina í stöðunni sé að finna minnislykilinn. M hafi gert tilraun til að fá ættingja sína til að hafa samband við […] til að miðla málum en án árangurs. Þá hafi M leitað allra mögulegra leiða til að finna minnislykilinn, en M hafi sett auglýsingu í blaðið […] jafnframt sem hann hafi auglýst eftir minnislyklinum í útvarpi og sjónvarpi. Fréttamaðurinn sem hafi tekið sjónvarpsviðtal við M sé kunnur í […] og starfi fyrir stjórnvarpsstöðina […]. Þrátt fyrir allar tilraunir M hafi minnislykillinn ekki komið í leitirnar. Kærendur hafi lagt fram ýmis gögn frásögn þeirra til stuðnings.
Kærendur hafi reynt allt sem í þeirra valdi standi til að finna minnislykilinn og komast undan þeirri ógn sem að þeim steðji frá […] og hans mönnum. Að lokum hafi kærendur ekki átt annarra kosta völ en að flýja heimaríki, en þau séu hvergi örugg á yfirráðasvæði […] þar sem […] sé mjög valdamikill maður. Kærendur hafi ætlað að ferðast til Þýskalands áður en vandamál fjölskyldunnar hafi hafist og hafi þau verið búin að afla sér vegabréfsáritana til Þýskalands sem hafi enn verið í gildi. Kærendur hafi brugðið á það ráð að nota vegabréfsáritanirnar til að koma sér úr landi í byrjun mars 2018 en þar sem M hafi vitað af því að bræður […] væru búsettir í Þýskalandi hafi hann ekki talið öruggt að sækja um alþjóðlega vernd þar í landi og í kjölfarið hafi þau komið til Íslands. Í greinargerð kemur fram að vinur M hafi greint kærendum frá því að menn […] hafi komið aftur að heimili kærenda í […] og unnið skemmdir á heimilinu. Þá hafi sömu menn komið að heimili foreldra M og spurst fyrir um kærendur.
Í greinargerð er fjallað almennt um stöðu mannréttindamála í […]. Þá er fjallað um aðstæður á yfirráðasvæði […] í […] og halda kærendur því fram að heimildir beri með sér að […] yfirvöld hafi möguleika á því að veita skilvirkt öryggi á þeim svæðum sem þau stjórni en að sama skapi geti yfirvöld einnig gengið mjög hart fram um að neita fólki um vernd. Hvort yfirvöld […] veiti vernd fari eftir því hver það sé sem standi að ofsóknum, yfirvöld veiti t.a.m. ekki vernd hafi einstaklingur átt í deilum við […] stjórnmálamann. Þá hefur almenningur ekki mikið álit á löggæslu á svæðinu og veigri fólk sér við að leita til lögreglu eða dómsstóla. Kærendur vísa til skýrslna sem þau telja styðja mál sitt.
Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. sömu laga. M hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana hans, en einstaklingar sem fari með völd í […] telji M andsnúinn þeim, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í 2. ml. 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga segir að ekki skiptir máli við mat skv. 1. mgr. 37. gr. hvort umsækjandi hefur þau einkenni eða skoðanir sem vísað er til ef sá sem er valdur að ofsóknum telur svo vera. […] sem sé háttsettur herforingi í […] hafi krafið M um að afhenda sér viðkvæmt efni sem tilheyri honum og telji hann að M vilji ekki fara að vilja hans. Þá telji kærendur að allir stafliðir 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eigi við um þá sem kærendur óttist. Kærendur eigi ekki möguleika á vernd enda hafi yfirvöld […] hvorki vilja né getu til að veita þeim vernd undan ofsóknum háttsettra einstaklinga innan […]. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur í úrskurð kærunefndar nr. 502/2018 þar sem kærunefnd vísi í álit Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar komi fram að það sé skilningur stofnunarinnar að einstaklingar sem gagnrýni, eða séu taldir gagnrýna, […] stjórnvöld eða ráðandi stjórnmálaöfl hafi í einhverjum tilvikum orðið fyrir ofsóknum eða áreiti af hálfu stjórnvalda, stjórnmálafólks eða öryggissveita stjórnmálaflokka. Ólíklegt sé að einstaklingur geti fengið vernd frá yfirvöldum vegna áreitis af hálfu öryggissveita ríkjandi stjórnmálaflokka. Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að líkur stæðu til þess að tilteknir menn innan […] flokksins myndu líta svo á að kærandi þess máls væri andsnúinn […] flokknum og þar af leiðandi ógn við flokkinn sem og stjórnvöld í […]. Kærendur halda því fram að sömu verndarsjónarmið eigi við í málum þeirra enda álíti háttsettur herforingi að M hafi undir höndum viðkvæmt efni sem M vilji ekki afhenda herforingjanum. Kærendur vísa einnig til skilgreiningar á ofsóknum á grundvelli stjórnmálaskoðana sem komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. mars 2018, og annarra ákvarðana sem varði ríki þar sem glæpagengi fari með völd. Í ákvörðuninni hafi einstaklingur sem hafi lent upp á kant við glæpagengi, óháð stjórnmálaskoðunum, verið talinn hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, sbr. A-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þar sem […] og menn hans hafi þegar ráðist á meðlimi fjölskyldu M og haft í hótunum um að vinna þeim frekara mein telji kærendur að leggja beri til grundvallar að allir meðlimir fjölskyldu M, kærendur, eigi hættu á ofsóknum af sömu ástæðu og M. Vísa kærendur til þess að samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eigi maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.
Verði kærendum gert að snúa aftur til heimaríkis telji þau að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Til vara halda kærendur því fram í greinargerð að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjalla kærendur um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með vísan til framangreinds telji kærendur ljóst að raunhæf ástæða sé til að ætla að þau eigi á hættu pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis.
Til þrautavara gera kærendur kröfu um að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennum aðstæðum í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærendur halda því fram að mannréttindabrot viðgangist í […] en […]. Þá veiti yfirvöld þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærendur hafi neyðst til að yfirgefa heimabæ sinn, […], vegna ágangs […] og hafi fjölskyldan flúið til […]. Kærendur telji að verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis muni þau búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærendur ljóst að þau uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Kærendur gera ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat og málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærendur benda á að þrátt fyrir að frásagnir þeirra hafi verið metnar trúverðugar, skýrar og samkvæmar þá haldi stofnunin því fram að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi sönnunargögn. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framburðir kærenda fái ekki fullnægjandi stoð í gögnum málsins þrátt fyrir að kærendur hafi lagt fram fjöldann allan af gögnum. Samkvæmt handbók um réttarstöðu flóttamanna beri, í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í, og hversu erfitt geti reynst að leggja fram sannanir, að gera minni kröfur til sönnunarfærslu en ella. Þá kemur einnig fram að illmögulegt sé fyrir flóttamenn að sanna öll atriði máls síns, og því þurfi oft að láta umsækjandann njóta vafans. Kærendur mótmæla því mati Útlendingastofnunar að þau hafi ekki leitt að því líkur að tengsl séu á milli hins valdamikla og háttsetta manns sem kærendur kveði standa á bak við ofsóknir í sinn garð og kærenda sjálfra og vísa í einstaka hluta frásagnar sinnar með skýringum máli sínu til stuðnings.
Þann 17. apríl 2019 skiluðu kærendur inn viðbótargreinargerð í kjölfar viðtals M hjá kærunefnd útlendingamála sem fór fram þann 11. apríl 2019. Í viðtali hjá kærunefnd hafi M verið spurður út í upptöku af sjónvarpsviðtali við hann hjá sjónvarpsstöðinni […] sem kærendur hafi lagt fram í málinu. M kveður kærunefnd hafa gefið honum að sök að hafa látið framkvæma viðtalið í þeim tilgangi að leggja það fram til stuðnings umsókn þeirra um vernd. Því til stuðnings hafi kærunefnd vísað til þess að hafa leitað án árangurs að upptöku viðtalsins á heimasíðu sjónvarpsstöðvarinnar […] og Youtube rás sjónvarpsmannsins […] sem hafi tekið viðtalið. Í umræddu viðtali hafi kærunefnd borið M alvarlegum ásökunum og telji kærendur að slíkt skuli stjórnvöld forðast nema fyrir liggi rökstuddur grunur eða haldbærar sannanir. Þá felist ekki vísbending um fölsun í því að viðtalið skuli ekki vera aðgengilegt núna á framangreindum vefmiðlum. Sjónvarpsstöðin […] og sjónvarpsmaðurinn […] njóti virðingar fyrir störf sín í […] og muni ekki fallast á að gera eitthvað sem geti skaðað orðspor þeirra. Í kjölfar viðtals M hjá kærunefnd hafi kærendur leitað að viðtalinu á internetinu en án árangurs. M greindi frá því í viðtali við kærunefnd að B hafi fundið viðtalið á Youtube fyrir rúmu ári síðan. Kærendur halda því fram að fjölmargir einstaklingar og aðrir aðilar deili myndböndum á Youtube og í mörgum tilvikum sé myndböndum eytt út og oft aðeins skömmu eftir að þeim sé deilt. Að lokum kemur fram að B sé tilbúin til að koma í viðtal hjá kærunefnd til að svara spurningum nefndarinnar og greina frá atvikum. Þá leggja kærendur fram upptöku af því þegar viðtal M hjá […] hafi verið tekið upp sem vinur M hafi tekið upp á farsímanum sínum.
V.Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað […] vegabréfum fyrir sig. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu […] ríkisborgarar.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
[…]
Ráða má að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi […] stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. […]
[…]
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærendur hafa borið fyrir sig að þau óttist valdamikinn mann að nafni […], sem sé herforingi í […] og meðlimur í […] stjórnmálaflokknum, og einstaklinga honum tengdum. M hafi týnt minniskort sem innihélt myndir úr veislu […] og við það hafi […] reiðst mjög og hótað kærendum lífláti og ógnað heiðri þeirra. Kærendur hafi leitað til lögreglu en hún kvaðst ekkert geta aðhafst í málinu þar sem […] sé valdamikill.
Mat á trúverðugleika frásagnar kærenda er byggt á viðtali við M hjá kærunefnd, endurritum af viðtölum kærenda hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kærenda.
Í viðtali hjá kærunefnd, þann 11. apríl 2019, var M spurður hvers konar myndavél hann hafi notað við myndatökur og hvernig minniskort hafi verið í myndavélinni. Svaraði M að hann hafi notað Nikon D7200 myndavél og minniskortið hafi verið gamalt Sony Panasonic. Kærunefnd endurtók spurninguna og ítrekaði fyrir M að nefndin vildi ekki vita merki kortsins heldur hvernig minniskort hann hafi verið að nota en ýmis minniskort séu á markaði eins og t.d. SD, micro SD, Cfast, o.fl. M kvaðst ekki hafa mikla reynslu af minniskortum og sagðist eingöngu þekkja merki og stærð minnis. M bætti svo við að hann sé ekki menntaður ljósmyndari heldur kunni bara að taka ljósmyndir en hann hafi aldrei lært ljósmyndun. Aðspurður af hverju hann hafi tekið minniskortið úr myndavélinni svaraði M að eftir myndatöku taki hann minniskortið úr myndavélinni til að gera það klárt til afhendingar. Aðspurður hvað hann hafi gert við minniskortið, hvar hann setti það, svaraði M að hann hafi sett það í lítið box, svipað að stærð og upptökutækið sem notað var í viðtali hjá kærunefnd. Aðspurður um lit boxins svaraði kæranda strax að það hefði verið blátt, skærblátt. Næst var M spurður hvort hann hafi auglýst eftir bláu boxi hjá fjölmiðlum og svaraði M að hann hafi einungis sagt að minniskortið hafi verið í litlu boxi. Bætti M svo við að hann muni ekki nákvæmlega hvað hann hafi sagt en það hafi verið eitthvað álíka en staðfesti þó að hann hefði þar lýst að um væri að ræða lítið plastbox.
Meðal gagna sem kærandi lagði fram við meðferð málsins er afrit af auglýsingu sem kærandi kveðst hafa látið birta í dagblaði í heimaríki. Samkvæmt þýðingu sem kærunefnd hefur aflað af auglýsingunni kemur þar fram að minniskort fyrir myndavél sé týnt og að ef einhver finni kortið eigi að hafa samband við M í tiltekið símanúmer. Kærandi lagði jafnframt fram hljóðupptöku sem hann kveður vera af auglýsingu sem hann hafi látið útvarpa í heimaríki. Samkvæmt þýðingu sem kærunefnd hefur aflað kemur fram í hljóðupptökunni að M hafi týnt minniskorti eftir veislu en hann viti ekki hvort það hafi týnst í leigubíl eða annarsstaðar. Þar kveðst M jafnframt vera ljósmyndari og að minniskortið sé í eigu annars fólks og biðlar til þeirra sem finni minniskortið að koma með það til sín. Hvorug þessara auglýsinga tilgreinir að að kortið gæti verið í litlu boxi eða að boxið væri af tilteknum lit.
Þá lagði kærandi fram myndskeið sem hann kveður vera af sjónvarpsviðtali sem var tekið við hann af tilgreindum fjölmiðlamanni sem hafi birst á sjónvarpsstöðinni […] í heimaríki kæranda. Þar kemur fram að M hafi starfað sem ljósmyndari í veislu hjá hermanni í lok nóvember eða byrjun desember. Hann hafi lent í því óhappi eftir veisluna að týna minniskorti myndavélarinnar annað hvort heima hjá sér eða í leigubíl, hann sé ekki viss. Hann hafi leitað eftir kortinu en hvergi fundið það og hafi því farið til ljósmyndastofunnar og sagt þeim að hann hafi týnt minniskortinu með myndunum. Í viðtalinu er M svo spurður hvert vandamálið sé. M svarar að maðurinn sem hafi haldið veisluna hafi í hótunum við M, annað hvort afhendi hann minniskortið eða maðurinn taki líf M og fjölskyldu hans.
Öll gögn og frásagnir kærenda benda til þess að lífsviðurværi M hafi verið ljósmyndun og jafnvel áður en fjölskyldan hafi flutt til […] hafi M átt ljósmyndastofu, en í viðtali við Útlendingastofnun þann 30. janúar 2019 kvað B föður sinn hafa átt ljósmyndastúdíó í […]. Óljós svör um tegund minniskortsins dregur nokkuð úr trúverðugleika frásagnar kæranda, sem að nokkru byggist á því að hann sé ljósmyndari að atvinnu. Þá hafi M eingöngu auglýst eftir minniskorti hjá fjölmiðlum en ekki bláu eða annars konar boxi eins og hann sagði í viðtali hjá kærunefnd að hann hafi gert. Er það mat nefndarinnar að ofangreint sé til þess fallið að draga úr trúverðugleika frásagna kærenda. Aðspurður hvort myndband sem fylgdi greinargerð kærenda af M í sjónvarpsviðtali við fréttamann […] hafi verið sýnt í sjónvarpi svaraði M að […] sé fræg sjónvarpsstöð og að myndbandið hafi verið birt á heimasíðu þeirra.
Aðspurður hvort M geti sent kærunefndinni hlekk á sjónvarpsviðtal […] við M svaraði M að hann geti ekki gert það en að nefndin geti fundið það. Var M tjáð að leitað hafi verið að myndbandinu á heimasíðu sjónvarpsstöðvarinnar en það hafi ekki fundist. M var greint frá þeim grun nefndarinnar að M hafi búið til umrætt myndband til að sýna nefndinni og neitaði M því og kvað myndbandið hafa verið birt á heimasíðu […]. Kærunefnd óskaði eftir því að M sendi nefndinni hlekkinn á myndbandið. M sagðist hafa lagt fram mikið af gögnum og kvað það vera í höndum kærunefndarinnar að athuga og fara yfir gögnin. M bætti svo við að fréttamaðurinn í viðtalinu sé frægur í […]. Kærunefnd tjáði M að hún hafi einnig skoðað Youtube vefsíðu fréttamannsins sem kærandi sagði hafa tekið viðtalið og að hún hafi ekki fundið þar umrætt myndband. Aðspurður hvernig M hafi fundið myndbandið svaraði M að dóttir hans hafi fundið það á heimasíðu […]. Kærunefnd bað M um að láta dóttur sína finna myndbandið aftur og senda nefndinni hlekkinn. Því svaraði M að dóttir hans hafi fundið það á heimasíðu […] en að myndbandinu hafi eflaust verið eytt en að hann ætli að athuga málið. Þann 17. apríl 2019 barst kærunefnd viðbótargreinargerð kærenda og upptaka úr síma vinar M af sjónvarpsviðtali M hjá […]. Af því myndbandi má sjá að einstaklingur sem svipar nokkuð til umrædds […], sem er fréttamaður […] fréttaveitunnar, hafi tekið viðtalið við M. Kærunefnd telur að myndbandið af frásögn kæranda feli ekki sér næga sönnun um þá atburði sem þar er lýst.
Frásögn sinni til stuðnings hafa kærendur lagt fram ýmis önnur gögn m.a. ljósmyndir af manni er kærendur kveða vera […], vefslóðir með upplýsingum um umræddan mann og ljósmyndir sem kærendur kveða vera af húsi […] og næsta nágrenni. Þrátt fyrir að fallist verði á með kærendum að umræddur maður á myndunum sé maður að nafni […] hafa myndir sem kunna að vera af húsi hans ekki þýðingu við úrlausn máls kærenda. Kærendur hafa ekki lagt fram önnur haldbær gögn sem tengja þau við umræddan mann eða að hann hafi haft í hótunum við þau. Þá hafa kærendur einnig lagt fram ljósmyndir af heimili þeirra í […] sem og myndband sem þau kveða sýna fram á að unnar hafi verið skemmdir á húsi þeirra í heimaríki jafnframt sem munum hafi verið stolið eftir að fjölskyldan flúði […]. Kærunefnd telur ekki hægt að útiloka að umrætt myndband hafi verið tekið á heimili kærenda eins og það birtist á ljósmyndum sem kærendur hafa lagt fram. Hins vegar er myndbandið einungis 14 sekúndur að lengd og er farið yfir þrjú tóm herbergi í íbúðarhúsnæði. Er það mat kærunefndar að ekki er hægt að staðfesta út frá myndbandinu að unnar hafi verið skemmdir á húsnæðinu og hefur myndbandið því takmarkað gildi við úrlausn máls kærenda. Kærendur hafa einnig lagt fram ráðningarsamning M við fyrirtæki er nefnist […] og meðlimaskírteini M í stéttarfélagi ljósmyndara. Er það mat kærunefndar að þrátt fyrir misræmi í frásögn M og takmarkaða þekkingu hans á minniskortum sem notuð eru í ljósmyndabúnaði þá sé ekki hægt að útiloka að hann hafi starfað við að taka ljósmyndir í […] áður en hann og fjölskylda hans flúðu […].
Kærunefnd telur að nokkur ólíkindablær sé á þeirri frásögn sem kærendur leggja til grundvallar umsókna sinna um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur, m.a. í ljósi þeirra íhaldssömu viðhorfa sem tíðkast í […], að ólíklegt sé að einstaklingur sem sé háttsettur í hernum fá utanaðkomandi aðila til að taka myndir í samkvæmi þar sem áfengi sé haft um hönd og konur klæðist efnislitlum fötum. Svör kæranda um þessa atburði, einkum þeir hluta frásagnar hans sem varða hvernig hann glataði umræddu minniskorti, óljós svör um geymslu þess, auglýsingar eftir því í blöðum, ætlað viðtal í sjónvarpi og óljós uppruni þess, eru ekki þess eðlis að draga úr efasemdum kærunefndar um trúverðugleika frásagnar M. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd frásögn kærenda hvað varðar ástæðu flótta þeirra frá heimaríki vera ótrúverðuga. Því verður ekki lagt til grundvallar að kærendur hafi leitt líkur að því með rökstuddum hætti að þeim stafi hætta af valdamiklum herforingja í […] hernum vegna þess að M hafi glatað minnislykli með myndum úr samkvæmi herforingjans. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærendur eigi á hættu ofsóknir af þeim toga eða alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.
Máli sínu til stuðnings vísa kærendur einnig í úrskurð kærunefndar nr. 502/2018 þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að veita einstaklingi alþjóðlega vernd m.a. með vísan til þess að líkur stæðu til þess að tilteknir menn innan […] flokksins myndu líta svo á að hann væri andsnúinn […] flokknum og þar af leiðandi ógn við flokkinn sem og stjórnvöld í […]. Kærendur halda því fram í greinargerð að sömu verndarsjónarmið eigi við í máli þeirra. Er það mat kærunefndar með tilliti til gagna málsins að þær einstaklingsbundnu aðstæður sem niðurstaða umrædds máls var byggð á séu ekki sambærilegar aðstæðum í máli kærenda.
[…]
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi stríðstástand hafi ríkt í heimaríki kærenda og halda kærendur því fram að yfirvöld í […] geti ekki veitt þeim þá vernd sem þau þarfnist. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má draga þá ályktun að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærendur höfðu hafði búsetu öruggt svæði. […] sé jafnframt með virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kærendum viðeigandi vernd.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í greinargerð kærenda kemur fram að K glími við líkamleg sem og andleg veikindi vegna áfalla. Ákveðið misræmi er að finna í frásögnum K hjá Útlendingastofnun og í öðrum gögnum málsins varðandi heilsufar hennar og atburði í heimaríki. Í viðtali við Útlendingastofnun þann 14. mars 2018 kvaðst K vera með […]. […]. Þá segist K hafa verið áhyggjufull en að henni líði betur eftir að kærendur komu hingað til lands. Í framlögðu læknisvottorði, dags. 14. mars 2019, kemur fram að K hafi átt við […] að stríða sem mögulega megi rekja til álags og kvíða.
Í framangreindum gögnum um ástand heilbrigðismála í […] kemur fram að allir hafi rétt á heilbrigðisþjónustu, þar á meðal geðheilbrigðisþjónustu, og sé grunnþjónusta án endurgjalds, en hún feli m.a. í sér skoðanir, rannsóknir, bólusetningar og heilbrigðisfræðslu. Með vísan til þess sem fram hefur komið í gögnum málsins og í ofangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í […] og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum K, með tilliti til trúverðugleikamats, telur kærunefnd að hún geti fengið aðstoð í heimaríki sem og aðgang að meðferðum og lyfjum sem hún þurfi á að halda vegna heilsufarsvandamála sinna, leiti hún eftir því. Þá bendir ekkert til þess að K sé í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa.
Af gögnum málsins verður ekki séð annað en að kærendur séu að öðru leyti almennt heilsuhraust. Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.
Rannsóknarregla stjórnsýslulaga
Líkt og áður segir gera kærendur athugasemdir við trúverðugleikamat og málsmeðferð Útlendingastofnunar, en þrátt fyrir að frásagnir kærenda hafi verið metnar trúverðugar, skýrar og samkvæmar þá haldi stofnunin því fram að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi sönnunargögn í málum þeirra. Kærendur hafi lagt fram fjöldann allan af gögnum til stuðnings frásagnar kærenda. Kærendur telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð mála þeirra.
Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.
Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærendur komu hingað til lands 13. mars 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag ásamt uppkomnum börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærendur eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda.
Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur að hverfa af landi brott. Kærendum er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants are affirmed. The appellants are requested to leave the country.The appellants have 15 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Ívar Örn Ívarsson