Hoppa yfir valmynd
24. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Greitt fyrir útflutningi á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yufeng tollamálaráðherra Kína. - myndMAST
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, undirrituðu í dag þrjár nýjar bókanir við fríverslunarsamning Íslands og Kína. Með bókununum opnast ný tækifæri fyrir útflutning á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína. 

Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, er staddur hér á landi vegna undirritunar á þremur nýjum bókunum við fríverslunarsamning Íslands og Kína. Bókanirnar varða viðurkenningu á heilbrigðisstöðlum fyrir fiskeldisafurðir, fiskimjöl og lýsi og ull og gærur. Þær voru undirritaðar í höfuðstöðvum Matvælastofnunar á  Selfossi en þær eru afrakstur samstarfs Matvæla­stofnunar, atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins og utan­ríkis­ráðu­neytisins við yfirvöld tolla- og dýraheilbrigðismála í Kína. Einnig var undirritað samkomulag um eflingu samstarfs á sviði heilbrigðiseftirlits. 

“Í ferð minni til Kína í fyrrahaust skrifuðum við undir bókun um heilbrigðisvottun á íslensku lambakjöti og því má segja að við séum að taka upp þráðinn síðan þá. Með undirrituninni í dag er verið að stíga enn eitt skrefið í að liðka fyrir framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Kína,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.  

Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og Ni voru tollamál, heilbrigðismál og útflutningur landbúnaðarvara frá Íslandi til Kína efst á baugi. Auk þess ræddu þeir hvernig betur mætti nýta fríverslunarsamning ríkjanna, en fimm ár eru liðin frá gildistöku samningsins á þessu ári.  

Kínverski tollamálaráðherrann heimsótti forseta Íslands og ræddu þeir meðal annars viðskipti ríkjanna og samstarf þeirra á ýmsum sviðum, auk sameiginlegrar baráttu gegn loftslagsbreytingum. Ni átti einnig fundi í fjármálaráðuneytinu, sjávarútveg- og landbúnaðarráðuneytinu og með samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá heimsótti hann meðal annars fiskeldisstöð Stofnfisks á Suðurnesjum og sauðfjárbændur í Eystra-Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.   

 
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yufeng tollamálaráðherra Kína undirrita bókunina.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta