Hoppa yfir valmynd
5. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 301/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 301/2017

Fimmtudaginn 5. október 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. ágúst 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. júlí 2017, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 25. apríl 2016 og var umsókn hans samþykkt. Kærandi var boðaður á hópfund hjá Vinnumálastofnun 16. júní 2017 en tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti ekki á fundinn og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. júlí 2017, var óskað eftir skriflegri afstöðu hans vegna þessa. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust ekki frá kæranda. Með bréfi, dags. 19. júlí 2017, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði frá 20. júlí 2017 á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Í kjölfarið bárust skýringar frá kæranda og var mál hans því tekið fyrir á ný. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. ágúst 2017, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 13. september 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið boðaður með tölvupósti og smáskilaboði á hópfund með stuttum fyrirvara þegar hann hafi verið erlendis. Hann hafi tilkynnt fyrir fram um ferð erlendis á tímabilinu 7. til 13. júní en þá hafi hann verið með ótengdan síma og ekki nettengdur. Kærandi telur að ástæða þess að skilaboðin frá Vinnumálastofnun hafi borist seint sé vegna bilunar í farsíma hans, en stuttu eftir heimkomuna hafi síminn verið dæmdur ónýtur. Kærandi telur fráleitt að honum sé refsað fyrir aðstæður sem hann hafi ekki ráðið sjálfur við eða vegna tæknilegra orsaka. Kærandi bendir á að hann hafi ekki brotið reglur viljandi, heldur óviljandi farið á mis við skilaboð frá Vinnumálastofnun. Kærandi fer því fram á að viðurlög verði felld niður.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi og því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Samkvæmt a-lið 13. gr. og g-lið 1. mgr. 14. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess tryggða til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Í ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið eigi einnig við ef atvinnuleitandi mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Þá komi fram í þeim skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki að viðkomandi hafi verið upplýstur um að honum sé skylt að mæta í þau viðtöl, fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til og það sé gert með tölvupósti, sms sendingum eða tilkynningum á „Mínum síðum“. Umsækjandi er því upplýstur um að honum sé skylt að láta vita af öllum breytingum, svo sem breyttu heimilisfangi, símanúmeri og netfangi.

Vinnumálastofnun tekur fram að það liggi ljóst fyrir að kærandi hafi ekki mætt á boðaðan fund hjá Vinnumálastofnun 16. júní 2017. Kærandi hafi fengið senda tilkynningu um fundinn 14. júní 2017 klukkan 16:32, bæði með sms skilaboðum í farsíma og á tölvupóstfang hans. Þá hafi boðunin einnig verið aðgengileg á „Mínum síðum“ og tekið hafi verið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi hafi verið erlendis frá 7. til 13. júní 2017 en hann hafi tilkynnt um þá ferð 31. maí 2017. Vinnumálastofnun fellst ekki á þau sjónarmið sem kærandi tefli fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt framlögðum farseðlum hafi áætlaður lendingartími kæranda verið að kvöldi 13. júní 2017. Boðun Vinnumálastofnunar hafi hins vegar verið send þann 14. júní klukkan 16:32 og þá bæði með sms skilaboðum og tölvupósti. Kærandi hafi einnig verið fært að nálgast skilaboðin á „Mínum síðum“. Þann 14. júní 2017 hafi Vinnumálastofnun mátt vænta þess að kærandi hefði lokið orlofi sínu, sbr. tilkynningu hans til stofnunarinnar 31. maí. Því sé ekki óeðlilegt að stofnunin teldi að þann 14. júní væru skyldur kæranda sem atvinnuleitandi að fullu virkar, sbr. skilyrði 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 og 13. gr. laga nr. 55/2006. Kærandi hafi ekki borið fram neinar haldbærar skýringar á því af hverju hann hafi ekki orðið var við boðun stofnunarinnar.

Vinnumálastofnun bendir á að með hliðsjón af þeim tæknilegu örðugleikum sem kærandi lýsi í erindi sínu þá hefði honum átt að vera það ljóst að til að uppfylla skyldur sínar gagnvart stofnuninni hefði honum borið að fylgjast með mögulegum tölvupóstsendingum til hans sem og skilaboðum sem honum kynnu að vera send á „Mínum síðum“ enda hafi hann óskað eftir rafrænum samskiptum í umsókn um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Að mati Vinnumálastofnunar geti kærandi ekki borið fyrir sig að hafa ekki vitað af boðun á fundinn, enda hafi stofnunin nýtt þær samskiptaleiðir sem kærandi hafi óskað eftir og látið stofnuninni í té. Þá hafi kærandi ekki upplýst Vinnumálastofnun um þessa tæknilegu örðugleika fyrr en með skýringarbréfi 25. júlí 2017. Með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sem og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum umsækjenda hefði kærandi átt að tilkynna án tafa um það að samskipti í gegnum síma og sms skilaboð væru örðugleikum bundin. Vinnumálastofnun gerir athugasemd við að kærandi hafi látið hjá líða að upplýsa stofnunina um slíka annmarka, sem geti hamlað því að hún geti rækt skyldur sínar gagnvart honum, meðal annars þá skyldu að miðla til hans viðeigandi störfum, sbr. 10. gr. laga nr. 55/2006.

Vinnumálastofnun ítrekar að kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við stofnunina og því geti hann ekki borið fyrir sig að hafa ekki vitað af boðuðum fundi. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra sé það mat stofnunarinnar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006. Þá hafi kærandi brugðist skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laganna með fjarveru sinni og því skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Vinnumálastofnun telur því að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um biðtíma.

IV. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009 um breytingu á lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Óumdeilt er að kærandi mætti ekki á fund hjá Vinnumálastofnun þann 16. júní 2017. Kærandi hefur borið því við að hafa ekki fengið boð á fundinn og vísað til þess að farsími hans hafi ekki virkað. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var kærandi boðaður á fundinn með smáskilaboðum í farsíma og tölvupósti þann 14. júní 2017. Þá liggur fyrir að boðunin var einnig send í gegnum vefgátt Vinnumálastofnunar. Kærandi óskaði eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun 25. apríl 2016 og bar því að fylgjast með vefgátt stofnunarinnar. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi verið boðaður á fundinn með fullnægjandi hætti.

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. júlí 2017, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta