Hoppa yfir valmynd
11. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 109/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 109/2017

Miðvikudaginn 11. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. mars 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. febrúar 2017 um afturvirkar greiðslur ellilífeyris.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um ellilífeyri og tengdar greiðslur frá 1. janúar 2013 með umsókn 22. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda og ákvarðaði upphafstíma ellilífeyris 1. mars 2015 en synjaði honum um greiðslur lengra aftur í tímann.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2017. Með bréfi, dags. 24. mars 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. apríl 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfur um að fá greiddan ellilífeyri og tengdar bætur frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2014. Í kæru segir að kærandi hafi hætt störfum í X2012. Hann hafi þá verið boðaður í viðtal hjá Tryggingastofnun ríkisins þar sem hann hafi verið upplýstur um að hann ætti ekki rétt á lífeyrisgreiðslum frá stofnuninni. Það hafi verið rétt en hann hafi ekki fengið upplýsingar um að reglurnar hafi breyst frá og með janúar 2013 á þá leið að frá þeim tíma hafi hann átt rétt á grunnlífeyri frá Tryggingastofnun. Hann hafi nýlega frétt um rétt sinn og hafi í kjölfarið sótt um ellilífeyri frá 1. janúar 2013 en Tryggingastofnun hafi einungis greitt honum lífeyri fyrir árin 2015 og 2016. Kærandi fari fram á að réttur hans verði leiðréttur að fullu, þ.e. líka fyrir árin 2013 og 2014. Vegna lagabreytinga um síðustu áramót hafi hann ekki rétt á grunnlífeyri frá 1. janúar 2017 vegna tekna.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærður sé upphafstími greiðslna ellilífeyris til kæranda.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, hafi umsókn kæranda um ellilífeyri verið samþykkt frá 1. mars 2015. Þar hafi komið fram að ekki væri heimilt að greiða lengra en tvö ár aftur í tímann frá dagsetningu umsóknar.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafa 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í 2. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með rafrænni umsókn, dags. 22. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, var umsókn kæranda um ellilífeyri samþykkt tvö ár aftur í tímann eða frá 1. mars 2015. Kærandi telji að hann eigi rétt til greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann þar sem hann hafi aldrei fengið þær upplýsingar að hann ætti rétt á grunnlífeyri frá 1. janúar 2013.

Réttindin og skilyrði greiðslna ellilífeyris séu bundin í lögum og lagatúlkun. Í 1. mgr. 52. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar komi fram að það þurfi að sækja um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu ellilífeyris hafi Tryggingastofnun komið eins langt til móts við kröfur hans og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við þeim kröfum kæranda sem settar séu fram í kæru hans um greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann en greitt hafi verið. Í málum úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 360/2015, 312/2015 og 286/2015 hafi nefndin komist að sömu niðurstöðu varðandi upphafstíma barnalífeyris.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. febrúar 2017 þar sem umsókn kæranda um ellilífeyri var samþykkt frá 1. mars 2015. Ágreiningur málsins lýtur að synjun Tryggingastofnunar um greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, eiga þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafa 67 ára aldri að öðrum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. sömu laga skal sækja um allar bætur samkvæmt lögunum að undanskildum þeim sem fá greiddan örorkulífeyri en þeir þurfa ekki að sækja um ellilífeyri þegar þeir ná ellilífeyrisaldri.

Um upphafstíma bótaréttar er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins stofnast réttur til bóta frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins eru bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Þar sem að kærandi var ekki örorkulífeyrisþegi áður en hann hóf töku ellilífeyris þurfti hann samkvæmt framangreindu að sækja sjálfur um þær greiðslur lögum samkvæmt. Af framangreindu ákvæði 53. gr. laga um almannatryggingar verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að kærandi sótti um ellilífeyri. Kærandi sótti um greiðslur ellilífeyris með umsókn, dags. 22. febrúar 2017, og voru honum reiknaðar bætur frá 1. mars 2015. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann, þ.e. miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að bótaréttur hans var fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Ekki eru lagaheimildir til þess að greiða bætur lengra aftur í tímann.

Samkvæmt upplýsingum kæranda þá fór hann í viðtal hjá Tryggingastofnun á árinu 2012 en þá hafi legið fyrir að hann ætti ekki rétt á greiðslum vegna tekna. Kærandi byggir á því að upplýsingaskylda Tryggingastofnunar um rétt hans til ellilífeyris hafi verið vanrækt. Engin gögn liggja fyrir um það. Í viðtölum við ellilífeyrisþega eru þeir upplýstir um réttindi sín samkvæmt gildandi rétti. Tryggingastofnun birtir síðan á heimasíðu stofnunarinnar í upphafi hvers árs upplýsingar um forsendur greiðslna á því ári. Jafnframt er upplýst um lagabreytingar sem eiga sér stað. Tryggingastofnun birti til að mynda 3. janúar og 8. júlí 2013 fréttir á heimasíðu stofnunarinnar þar sem upplýst var um forsendur greiðslna á því ári. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því ekki á að til álita komi að breyta hinni kærðu ákvörðun á þeim grundvelli að Tryggingastofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningaskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna ellilífeyris.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. febrúar 2017 um upphafstíma ellilífeyris til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta