Hoppa yfir valmynd
22. maí 2012 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Úttekt á þátttöku Íslands í rammaáætlunum ESB um rannsóknir og þróun 2003-2011

Á síðasta ári lét ráðuneyti gera úttekt á þátttöku Íslands í 6. og 7. rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun, frá 2003-2011.

Á síðasta ári lét mennta- og menningarmálaráðuneyti gera úttekt á þátttöku Íslands í 6. og 7. rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun, frá 2003-2011.

Í úttektarhóp voru skipuð Þórunn Rafnar, deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu ehf. (formaður), Edda Lilja Sveinsdóttir, sviðsstjóri hjá Actavis hf., Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Kristinn Andersen, rannsóknastjóri hjá Marel hf. Ritari hópsins var Birgir Jóhannsson og erlendur ráðgjafi Arnold Verbeek. Hópurinn skilaði af sér lokaskýrslu til mennta- og menningarmálaráðherra í lok apríl.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að þátttaka í rannsóknaáætlununum hefur valdið kaflaskiptum í rannsóknum og þróun á Íslandi. Það er einróma álit einstaklinga innan háskólasamfélagsins, stjórnsýslunnar og atvinnulífsins, að þátttakan hafi leitt til stóraukins alþjóðlegs samstarfs, opnað íslenskum vísindamönnum aðgang að þekkingu og aðstöðu, sem ekki var fyrir hendi hér á landi, og skilað sér í auknum gæðum rannsókna, nýsköpun hjá fyrirtækjum og bættri samkeppnishæfni. Áhrifanna gætir einna mest á þeim sviðum þar sem Ísland er sterkt og hefur mikil áhrif á þann árangur, sem íslenskt vísindafólk hefur náð á alþjóðlegum vettvangi, sem má m.a. sjá í fjölda birtinga í samstarfi við alþjóðlega vísindahópa. Fyrirtækin sem taka þátt hafa ávinning af rannsóknasamstarfi við mótun framtíðarþróunar og bæta samkeppnisstöðu sína.

Umfang rannsókna á Íslandi er umtalsvert meira vegna þátttöku í rannsóknaáætlununum. Á tímabilinu frá 2003 til fyrsta ársfjórðungs 2012 er búið að semja um styrki að fjárhæð sem er tæplega 3,5 milljörðum kr.  hærri en greitt var fyrir þátttöku í áætluninni á sama tíma.

Eitt rannsóknasvið sker sig úr hvað styrkupphæðir varðar. Af öllum styrkjum til Íslands eru styrkir úr undiráætlunum um erfðafræði og heilbrigðisvísindi í 6. og 7. rannsóknaáætlun  um þriðjungur, samtals 3,4 milljarðar króna. Að auki er umtalsverður hluti styrkja úr Marie Curie áætluninni (mannauðsáætluninni) á þessu sviði og eini styrkurinn, sem hefur komið frá Evrópska rannsóknaráðinu, er á þessu fræðasviði. Úr áætlunum um umhverfis- og orkuvísindi hafa einnig verið veittir margir styrkir, samtals um  1,4 milljarðar kr. Marie Curie styrkir til Íslands nema samtals 1,8 milljörðum kr., þar af eru 1,4 milljarðar kr.  úr 7. rannsóknaáætluninni.

Þátttakan í upplýsingatækni og í áætlunum fyrir efnistækni og örvísindi eru öllu slakari. Margar umsóknir í upplýsingatækni hafa skilað fáum og lágum styrkjum en hins vegar er lítil sókn í efnis- og örvísindum, þó að markáætlun á því sviði hafi verið sett á laggirnar fyrir nokkrum árum. Þrátt fyrir 31 umsókn um styrki til Evrópska rannsóknaráðsins hefur aðeins fengist einn styrkur til Íslands, sem er rúmlega 3% árangur þegar árangurshlutfall í áætluninni  er að jafnaði 10 til 15%.

Eitt fyrirtæki sker sig úr um árangur. Íslensk erfðagreining ehf. hefur fengið 80% allra styrkja til fyrirtækja úr 7. rannsóknaáætlun og 40% allra styrkja til Íslands úr áætluninni, eða um 2,6 milljarða kr. Fyrirtæki fá 44% allra styrkja úr 7. rannsóknaáætlun, sem er mjög hátt hlutfall í samanburði við önnur lönd, en að baki eru þó fá fyrirtæki og því ástæða til að hafa áhyggjur af þátttöku fyrirtækja í rannsóknaáætlununum og lítilli nýliðun meðal umsækjenda.

Úttektarhópurinn bendir á að þótt Rannís beri megin þungann af stuðningi við rannsóknaáætlanirnar þá er það mat hópsins að  Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins verði ásamt öðrum hagsmunaaðilum að taka virkari þátt í stuðningi við minni fyrirtæki. Umsækjendur og styrkþegar eru almennt ánægðir með stuðning og þjónustu Rannís. Stuðningurinn einskorðast hins vegar fyrst og fremst við upplýsingagjöf, kynningar og námskeið og stofnunin hefur ekki bolmagn til að veita meiri þjónustu. Að mati úttektarhópsins  er full þörf á að efla stuðning við ritun umsókna, rekstur verkefna og eftirfylgni þeirra og það á frekar við um einstaklinga og smá fyrirtæki en stærstu háskólana, burðugar stofnanir og öflug fyrirtæki. Að sama skapi telur hópurinn mikilvægt að efla starfsemi ráðuneytisins í Brussel og kringum landstengiliði og stjórnarnefndarfulltrúa til að tryggja betur íslenska hagsmuni og upplýsingagjöf til hagsmunaaðila.

Úttektarhópurinn gerir fjölmargar tillögur til ráðherra um aðgerðir til að efla stefnumótun á sviði rannsókna og stuðning við umsækjendur. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun vinna úr þeim ábendingum og gera um þær verkáætlun.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta